þriðjudagur, 30. mars 2004

Jibbí

Í gær sótti ég nýju gleraugun mín. Nú get ég heilsað vinum og kunningjum af fyrra bragði án þess að ónáða ókunnugt fólk.

laugardagur, 27. mars 2004

Bókuð

Fyrir rúmum þremur vikum fengum við þá flugu í höfuðið að nota dauða tímann í maí eftir próf til ferðalaga í hlýrra loftslag. Við ætlum að kíkja aftur til tengdó á Bretagne skagann enda einstaklega fallegur skagi sem gaman er að heimsækja.

Við vorum rétt í þessu að klára að bóka flug til Stansted og Dinard og ekki seinna vænna því frá því við tékkuðum seinast hefur verðið á heildarpakkanum hækkað um tæpar átta þúsund krónur. Munar um minna og því er lærdómur dagsins þessi: Að hika er það sama og að tapa!

Visual basic

Eyddi þessum ágæta morgni í að búa til forrit fyrir fasteignasölu. Í forritinu er hægt að skrá inn helstu upplýsingar um eigniir auk þess sem hægt er að láta forritið reikna út verð og tilboðsverð og alls konar kúnstir.

Þess má til gamans geta að ég er sá eini sem gerði þetta alveg sjálfur og úrskurðast því, án nokkurra tvímæla, klárastur í bekknum. Liggaliggalái :)

föstudagur, 26. mars 2004

Skrautlegt lið

Ég var ekki andvaka, ég svaf. Ég svaf reyndar yfir mig. Í staðinn fyrir að vakna um sjö þá vaknaði ég hálfellefu. Það þýðir að ég svaf 10 og 1/2 klukkutíma í nótt. Ekkert smá...umm...gottvont.

Nú er ég glaðvakandi, búinn með vikuskammt af rekstrarhagfræðidæmum og hlusta á Papageno syngja fyrir Papagenu og öfugt. Þau eru skemmtilegt par, alveg eins og við Ásdís.

Skráð

Ég eyddi dágóðum tíma gærdagsins í að skoða námskrá HÍ fyrir kennsluárið 2004-2005 til að geta skráð mig í áframhaldandi nám. Ég hafði nokkrar áhyggjur af því að finna ekki nægilega mörg námskeið á MA stigi til að fylla upp í 15 einingakvótann en sá ótti reyndist ástæðulaus því þegar yfir lauk skráði ég mig í 18 einingar á haustönn og 19 einingar á vorönn. Ég læt hér fljóta með hvaða kúrsa ég skráði mig í.

Haustönn 2004
10.57.02 Vettvangsaðferðir
10.15.06 Klám og vændi
10.53.42 Eigindlegar rannsóknaraðferðir I
10.57.04 Lesnámskeið um sérsvið

Vorönn 2005
05.61.43 Stríðsátök, friðarferli og kyngervi
10.07.27 Mannfræði Miðausturlanda
10.53.43 Eigindlegar rannsóknaraðferðir II
10.57.34 Hnattvæðing

Meira ohhh (en bara ponsu)

Jæja, þá er komið að mér að vera andvaka. Einhverra hluta vegna get ég ómögulega fest svefn og finnst mér það einstaklega taugatrekkjandi. Og hver þekkir ekki afleiðingar þess að stessast upp við slíkar aðstæður og verða fyrir ofsóknum hugsana á borð við: Ef ég sofna núna fæ ég svo og svo mikinn svefn...

Fátt er þó svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Við Baldur kíktum síðdegis á borgarbókasafnið til að skila bók sem ég var með á skammtímaláni. Rakst ég þá á aðra bók á skammtímaláni sem mig hefur langað að lesa síðan um jólin. Þetta er bókin Friðþægin eftir Ian McEwan. Nú held ég að sé ráð að glugga í skruddu og sjá hvort hún búi yfir svæfingarmætti.

miðvikudagur, 24. mars 2004

Gettu hvað!

Hvað gerði ég núna? Ég skilaði verkefni. Vei...júhú-jæjíhaha! Ég held ég fari og taki þýska hamstrahugleiðslu í tuttugu mínútur eða svo.

Ýmislegt

Rakst á eitthvert það ljótasta sýnishorn sem tungumál vort hefur upp á að bjóða. Ábyrgðina á þessum óhugnaði, svo ekki sé meira sagt, bera aðstandendur femin.is:

H20 vs gosdrykkir
Vatnið er okkur lífsnauðsynlegt. Líkami okkar og líffæri þarfnast viss magns vatns daglega og ef við fáum ekki þetta vatnsmagn þá fara ýmsir kvillar að gera vart við sig. Við erum að fá þó nokkurn hluta af dagsneyslu okkar í gegnum matinn eða aðra vökva en hreint vatn og því miður eru mörg okkar að fá alltof stóran hluta af þessu magni í gegnum gosdrykki. Íslendingar eru að fá tvöfaldan til þrefaldan dagsskammt af sykri daglega og er stór hluti þess í gegnum gosdrykki. Þetta er alltof mikið af sykri og því birtum við þessa grein því ég lofa þér því að þú hugsar þig tvisvar um áður en þú færð þér gos með matnum næst.

Fyrirgefið að ég skuli leggja þetta á ykkur kæru lesendur en mér fannst bara að ég yrði að vara ykkur við þróun (tungu)mála. Að einhverjum skuli detta í hug að tala svona! Sá hinn sami virðist vera haldinn svo miklum sadisma og mannhatri að ekki er staðar numið við talmál heldur er þessu lekið á netið í formi málfræðilegrar farsóttar. Jæja nóg um það, fnæs.

Í sárabætur færi ég ykkur þetta geggjaða stuð frá Þýskalandi. Munið bara að hafa kveikt á hljóðinu þegar þið smellið á linkinn.

þriðjudagur, 23. mars 2004

Ohhhh

Dagurinn sem hófst á ansi góðri lyftingaæfingu og góðri kynningu á starfi UNIFEM á Íslandi hefur ekki náð að halda sama flugi og á við engan annan en mig að sakast í þeim efnum. Ég nennti nefnilega ekki að læra uppí í Bókhlöðu í dag - fannst vera of mikil umhverfishljóð - svo ég rölti heim og ætlaði mér að læra af krafti þar.

Ég veit ekki hvaða lygasögu ég sagði sjálfri mér í Bókhlöðunni en svo er víst að ég hef ekki lært hót eftir að ég kom heim. Þvert á móti, ég hef hangið á netinu lesandi gamlar dagbókarfærslur. Eins gaman og það var nú er ég ansi hrædd um að það hjálpi mér ekki í ritgerðarskrifum sem bíða nú og eru enn brýnni en áður.

Dagurinn er þó ekki að kveldi kominn og enn er von að úr honum rætist. Þá á ég þó ekki við lærdómslega séð heldur frekar svona í tengslum við mannsleg samskipti og félagslegt mingl. Okkur snöffuls er nebbla boðið til kvöldverðar hjá herra og frú Karli og Ólöfu. Þau unnu víst í einhvers konar happdrætti og fengu ekki vinning af verri endanum: kokkur kemur til þeirra í kvöld og eldar ofan í átta manns. Óóó, það verður gaman að sjá hvað hann hristir fram úr erminni - ég er sko búin að borða sem minnst í dag og er því orðin ansi svöng.

mánudagur, 22. mars 2004

Verkefniverkefniverkefni

Júhú ég flutti lokaverkefni í einum tíma í dag, gekk vel. Þegar ég var búinn að því fór ég beint í Odda og hitti félaga mína og við kláruðum enn annað verkefni. Nú þegar það er búið mætti ætla að ég sé á heimleið en neeeeei. Ég er nefnilega að fara í enn eitt verkefnið og reikna með að vera hættur þessu rugli svona um tíu í kvöld.

Fréttir: Skólagjöldum var mótmælt fyrir framan aðalbygginguna í dag og froskarnir öppdeituðu lúkkið á síðunni sinni.

fimmtudagur, 18. mars 2004

Fyrir háttinn

Áður en ég fer að sofa langar mig að deila nýjustu lífsreynslu minni með ykkur. Ég fékk mér lífræna jógúrt sem mér finnst alveg hreint frábær. Í gærkvöldi gaukaði Pétur afi að okkur tveimur skömmtum af lífrænni jógúrt og er ég hræddur um að hann hljóti að vera á prósentum því ég er húkkaður á fyrsta skammti. Voðavoða gott :)

miðvikudagur, 17. mars 2004

Gínnganngúllígúllívissevass

Lýst er eftir Baldri. Hann fór að heiman snemma í morgun og hefur ekkert til hans spurst síðan. Talið er sennilegt að hann hafi flækt sig í dæmi tengdu rekstrarhagfræði eða ráfi villtur um skóga Perloffs. Baldur er rúmlega meðalmaður á hæð, vöðvastæltur, með brún og falleg augu. Hann var klæddur í föt.

Nei hættu nú alveg! Ég get ekki fengið af mér að bulla meira. Ég er hér á bókhlöðunni og er búinn að lesa heil ósköp af ósköpum og öðru. Fer heim eftir hálftíma en datt í hug að droppa einni línu á bloggið.

Stanslaus veisla

Strax og ég kom úr tímanum áðan hitti ég Ásdísi heima og fórum við beinustu leið í kvöldverðarboð til Péturs afa. Þar var borðaður enn meiri fiskur og enn ein tegundin í dag, ýsa. Hún var soðin og fengum við kartöflur og tvær tegundir af salati með. Eins og þeir vita sem þekkja til þá er fiskur minn uppáhaldsmatur. Þannig að það má nú aldeilis segja að dagurinn í dag hafi verið góður í mallakút :)

þriðjudagur, 16. mars 2004

Hádegisveisla

Í hádeginu komu til mín í heimsókn félagarnir Biggi og Hákon. Þegar þessi hópur stórmenna og matgæðinga hittist þá verður gjarnan eitthvað sniðugt úr. Ég átti tvö væn flök af silungi, slatta af smjöri og fullt af grænmeti. Strákarnir komu með rjóma og lax og ekki þarf háa greindarvísitölu til að giska á hvað við gerðum. Með þetta hráefni og þennan félagsskap er ekki hægt að klikka.

Eftir matinn stökk ég upp á hjólið mitt, svolítið silalega, og dreif mig í hagfræðitíma.

mánudagur, 15. mars 2004

Liggaliggalái

Fjóla í Baunaveldi var að lýsa ánægju sinni yfir því að loksins væri komið vor þar um slóðir - það þýðir að loksins fór hitastigið yfir frostmarkið. Ég segi nú hí á Baunana því við erum búin að vera í vorfíling í allan mars. Í morgun tók ég til að mynda eftir því að grasið er farið að grænka á túnum hér í kring. Í þessu tilviki er leyfilegt að vera með smá aulahúmor og segja að nú sé grasið bókstaflega grænna hinum megin, thíhí.

Annars er allt ljómandi fínt að frétta af mér enda ekki annað hægt þegar daginn er tekið að lengja svo að nánast er orðið bjart klukkan sjö á morgnana. Ég er núna komin í það sem ég kalla annan helming annarinnar þar sem fyrri helmingurinn einkenndist af vikulegum verkefnaskilum, framsögum og fleiri verkefnum.

Þessi síðari helmingur samanstendur af ritgerðum sem ég þarf að klára, fjögur stykki, og er ég um þessar mundir á fullu að lesa heimildir. Ég hef sankað að mér bókum og greinum og er nú svo komið að ég hef að ég held tæplega 20 bækur á skrifborðinu sem ég ætla að lesa misvel og misvandlega. Það er því heljarinnar törn framundan og sem betur fer er ég að fara að vinna að áhugaverðum ritgerðum.

Áður en ég sný mér að þessari törn ætla ég þó út að hjóla smá, veðrið bíður bara ekki upp á neitt annað.

sunnudagur, 14. mars 2004

Fullt af fjöri

Jæææja! Síðan ég skrifaði síðast hefur ýmislegt gengið á og slatti af smjörsteiktum silungi runnið ljúflega niður í maga.

Í gærkvöldi vorum við hjá Elfari, pizzakvöld frestaðist um sólarhring. Það virðist hafa góð áhrif á pizzur að gerjast í sólarhring því þegar á hólminn var komið reyndist smjörsteiktur silungur og rjómasósa á borðum. Ekki slæm skipti það :) Eftir matinn var svo farið í bílaumboðið Heklu og nýi Golfinn skoðaður.

Í morgun svaf ég svo út en var afar ötull í lærdómi seinnipartinn, eftir að hafa fengið silungsskammt dagsins. Er að pakka skóladótinu saman núna og kominn með nóg næstu 9 tímana. Gúnatt...

þriðjudagur, 9. mars 2004

Rugl

Rakst á þessa áhugaverðu frétt á mbl. Ég held að þingmenn á Indónesíu hljóti að hafa eitthvað þarfara að gera. Ég vona það að minnsta kosti.

laugardagur, 6. mars 2004

Nýrmæli

Í gær settist hin bitra moldvarpa undir stýri á bláa drekanum í fyrsta sinn eftir hinn ógnvænlega storm. Leiðin lá í gleraugnabúð og var sjónin mæld eftir kúnstarinnar reglum. Ekki var fjárfest í gleraugum heldur nýrum en eins og allir vita sér maður betur hafi maður góð nýru fyrir augunum. Nýrun voru svo prófuð á bíómyndinni American splendor sem var splendid og nýrun störfuðu mjög vel.

Fyrir þá sem sitja agndofa yfir þessum splatterkennda hryllingi þá heita linsur nýru í minni fjölskyldu.

miðvikudagur, 3. mars 2004

Hin bitra moldvarpa

Í gær var vont veður. Sennilega þarf ég ekki að skýra það nánar en mér fannst veðrið í gær vera mjög vont. Þegar ég var á leið í Lögberg frá Þjóðarbókhlöðunni skall á mér og kunningja mínum harkaleg vindhviða. Báðir misstum við jafnvægið eins og við hefðum verið slegnir.

Þessi illkvittna vindhviða reif af mér gleraugun og flugu þau ásamt laufblöðum og öðru drasli út í buskann. Vinur minn, sem hér eftir verður kallaður Ásgeir, lagði hjólið sitt á hliðina og hljóp á eftir gleraugunum. Þetta var vonlaus barátta, eins og kálormur í keppni við blettatígur. Vindurinn var meira að segja svo sterkur að hjólið sem enn lá á hliðinni fauk á fullri ferð eftir götunni og hljóp ég það uppi.

Nú geng ég um göturnar bitur og blindur eins og kvekkt moldvarpa með pírð augu og skeifu í andliti.