þriðjudagur, 28. febrúar 2006

Febrúarannáll

Mér fannst svo ljómandi gaman að taka saman janúarannálinn að ég ákvað að gera það sama fyrir febrúarmánuð. Nú, nú þetta var mánuður í styttra lagi, varla hafinn en þó strax á enda kominn. Það útskýrir kannski dræma frammistöðu í bókalestri enda aðeins tvær bækur sem komast á lista fyrir þennan mánuðinn: Hroki og hleypidómar og The Good Earth.

Ég hef þeim mun fleiri bækur á takteinunum, einar sjö ef mér telst rétt til. Ég skilaði reyndar Atómsstöð Halldórs Laxness en ætla að halda áfram með Vefarann enda hálfnað verk þá hafði er. Ég hef líka verið að grípa í bók Evu Hoffman, Lost in Translation, sem fjallar um upplifun höfundar af því að flytjast í æsku búferlum frá Póllandi. Þá er barnabókin Emil og Skundi líka á náttborðinu og ætlunin er að endurnýja kynnin við þá sögu hvað úr hverju.

Að lokum er ég með bækur sem tengjast kúrsinum The Asian Mystique. Ég er eitthvað komin af stað með The Red Queen eftir Margaret Drabble og hef gaman af því að skyggnast inn í hirðlíf kóresku konungsfjölskyldunnar. Ég er líka aðeins farin að blaða í Vild Ingefær eftir Anchee Min en Madame Mao eftir sama höfund og I Am the Clay eftir Chaim Potok eru verk sem bíða frekari flettinga.

Þó ég hafi ekki sýnt af mér mikla takta í bókalestri hef ég verið þeim mun duglegri að glápa á kvikmyndir, margar hverjar sem hafa verið á leiðinni í tækið í langan tíma. Má þar helst nefna myndirnar In the bedroom og A beautiful mind, tvær myndir sem ég er afskaplega ánægð með að vera búin að sjá en kem ekki til með að kíkja á aftur í bráð. Af léttara efni sá ég m.a. Zoolander, Madagascar, Pride & Prejudice, Chinatown, Amadeus og Charlie's Angles 1 & 2.

Af annarri iðju mánaðarins má nefna að við urðum okkur úti um fjalla af góðri tónlist, gerðumst áskrifendur að Politiken og fyrir vikið viðræfuhæfari um landsins gagn og nauðsynjar, ég byrjaði að sækja tíma í The Asian Mystique þar sem ég fékk meðal annars að sjá verstu kvikmynd veraldar og við fengum froskafjölskylduna í heimsókn til að spila Settlers. Við skötuhjú héldum upp á fimm ára sambandsafmæli þann 14. febrúar með rómantískum hætti og ég lét loks gamlan draum rætast, vona bara að það endi ekki svona: one of these days these boots are gonna walk all over you.

Síðar í mánuðinum skruppum við í sveitarferð, ég fékk kennslu í hvernig skal afvopna þjóf með Netto poka, við ferðuðumst aftur til miðalda þegar smávaxnir sjóræningar, Ninja skjaldbökur og prinsessur ráfuðu um sveitir og ég tók mína fyrstu dýfu niður á við en tókst að koma mér upp aftur. Það var góður endir á góðum mánuði.

Hér koma síðan örfáar myndir frá annars vegar Settlersspiladegi og hins vegar Valentínusardegi.

Hver er sætust með apa í bananahýði á smekknum sínum?

Froskur úr bakaríinu - hann var Nammi

Veltir fyrir sér næsta leik onkel Baldurs

Með rósir og handunnið Valentínusarkort frá sætum gæja

Baldur með "Blue Steal" á hreinu

mánudagur, 27. febrúar 2006

Fyrsta dippan

Nú er ég sko stolt og ánægð með sjálfa mig. Í um þrjár vikur hef ég verið að stefna að því að taka fulla þríhöfðadýfu - dippu - án fótstigs. Ég byrjaði á því að æfa mig á negatívum, þ.e. að láta mig síga niður hægt en ýta mér ekki upp. Samkvæmt einkaþjálfaranum mínum auka negatívurnar heildarstyrkinn töluvert.

Ég fékk þó fljótlega leið á negatívunum og tók upp á því að gera partial/hálflyftur í staðinn, þ.e. fara eins langt niður og ég treysti mér og ýta mér svo upp. Partiölurnar hafa gefið mér öryggi í hreyfingunni og á undanförnum æfingum hef ég sífellt orðið kjarkaðri við að síga lengra niður.

Í dag kom síðan að því, ég tók mína fyrstu dippu og einkaþjálfarinn var viðstaddur til að staðfesta að um fullgilda dýfu væri að ræða. Ótrúlega skemmtilegt að ná þessu takmarki, nú er bara stefnan að ná fleiri en einni í einu án þess að springa á limminu. Gaman, gaman.

sunnudagur, 26. febrúar 2006

Fastelavn

Við kíktum í bæinn í gær til að sjá hvernig Danir halda upp á fastelavn. Fastelavn er eins konar sambland af ösku- og bolludegi því þá eru borðaðar fastelavnbollur og börnin klæða sig upp í hina ýmsu grímubúninga.

Á vefnum karneval.dk las ég mér til um fastelavn. Þar segir m.a. að nú til dag sé um að ræða hátíð fyrir börn en svo hafi þó ekki alltaf verið. Orðið fastelavn þýðir nefnilega föstuinngangur og vísar til nákvæmlega þess, þ.e. hátíðar sem á sér stað áður en fasta hefst. Þessi hátíð á rætur að rekja til miðalda þegar Danmörk var kaþólsk og trúarföstur tíðkuðust í ríkari mæli í Vesturheimi en nú til dags. Þá lagði fólk í 40 daga föstu sem vísaði til hinna 40 daga sem liðu frá því Kristur var grafinn og þar til hann steig upp til himna. Áður en fastan hófst var sem sagt slegið upp í allsherjar veislu - fastelavn - þar sem fólk kom saman og dansaði, lék og borðaði góðan mat.

Eins og gefur að skilja hefur mikil hefð skapast í kringum þessa hátíð; börnin vekja foreldrana með bolluvendi, klæða sig í allra kvikinda líki, slá köttinn úr tunnu og borða fastelavnboller. Við vildum ekki vera eftirbátar Dana á þessum degi og byrjuðum því daginn á því að kíkja til bakarans á horninu og kaupa fastelavnsboller. Við kíktum síðan á Kultorvet og fylgdumst með smáfólkinu slá köttinn úr tunnu. Þegar það tókst kom í ljós að köttinn vantaði (sem betur fer) en úr tunnunni streymdu nammipokar í staðinn.

Hvað skemmtilegar fígúrur snertir var af nógu að taka; þarna voru tígrisdýr og kolkrabbi, asninn Eyrnaslapi og flóðhesturinn úr Wulffmorgenthaler, nokkur stykki ofurhetja eins og Batman, Súperman og Ninja skjaldbaka, prinsessur og indíánar, sjóræningjar og nornir, gíraffar og prinsa. Á Strikinu sáum við þó tvímælalaust flottasta grímubúninginn: jögglara á einhjóli. Mig grunar þó að kauði myndi jöggla á einhjóli hvort sem um fastelavn væri að ræða eður ei.

Fastelavn bollurnar góðu

Þessi var Pony hestur með bleika vængi og kröftuga sveiflu

Þessi var kotbóndi frá Íslandi

Þessi með hattinn og slörið stjórnaði með harðri hendi

Flóðhesturinn góði (eða ekki svo góði)

Á einhjóli

föstudagur, 24. febrúar 2006

Á síðustu stundu

Í upphafi þessarar viku fékk ég tilkynningu um að ég ætti eftir að skrá mig í lokapróf fyrir þessa önn og að ég hefði frest til hádegis þann 24. febrúar sem ég fattaði nýverið (um ellefu leytið) að væri einmitt dagurinn í dag.

Eftir að uppgötvunin hafði skilað sér í gegnum heilabörkinn fór af stað óumflýjanlegt og flókið ferli, nánar tiltekið: Hlaupa niður stigann, stökkva á stálfákinn, beygja til vinstri, hjóla hratt, beygja til hægri og hjóla hratt í svolitla stund, stoppa á rauðu, hjóla hratt, stökkva af stála, skrifa nafnið mitt á eitthvað blað og varpa öndinni léttar.

Hjá CBS eru hlutirnir nefnilega aðeins öðruvísi en hjá HÍ. Hér skráir maður sig fyrst í námskeið, situr í nokkrar vikur og skráir sig svo í próf. Heima í HÍ gera menn bara ráð fyrir því að maður ætli sér í próf ef maður skráir sig í námskeið.

fimmtudagur, 23. febrúar 2006

Nettó-löggan

Ég varð vitni að sérkennilegu atviki á leiðinni heim úr ræktinni í gær. Ég stóð með hjólið mitt við rautt ljós, við hlið mér er par sem ég veitti nokkra athygli fyrir einhverjar sakir sem ég get ekki skilið. Eflaust var það þó af því maðurinn stendur þarna tuðandi ofan í bringuna á sér, ég skildi þó minnst af því.

Allt í einu birtast þrjú ungmenni mér við hlið, merkt Netto versluninni í bak og fyrir og taka að tala við manninn. Mér heyrist þau segja manninum að hann geti ekki gengið út með vörur sem hann hefur ekki greitt fyrir og tek ég þá eftir því að hann heldur á Netto poka. Þau biðja hann að skila pokanum og koma með sér inn í búðina en hann neitar staðfastlega og segist ekki hafa gert neitt rangt.

Ungmennin virðast ekki vita hvernig höndla eigi aðstæður sem þessar og tvö þeirra hverfa á brott með kærustuna sem ekki var eins ósveigjanleg. Einn Netto starfsmaður verður eftir á ljósunum hjá mér og okkar manni með Netto pokann og er nú kominn með síma í hönd, virðist vera að þiggja leiðbeiningar frá þeim sem er hinum megin á línunni.

Loksins kemur grænt ljós og okkar maður heldur af stað yfir götuna en einhvern veginn æxlast það svo að þegar ég og Netto-strákurinn-í-símanum leggjum af stað kemur rauður kall á okkur svo við náum aðeins yfir miðja götuna og neyðumst til að nemar þar staðar, á meðan heldur okkar maður ótrauður áfram með pokann í hönd. Netto-strákurinn-í-símanum virðist ekki kippa sér upp við það að vera stopp á rauðum kalli enda okkar maður ekki líklegur til að stinga af með pokann, eins hægt og hann gengur.

Hins vegar bætast nú tveir þrekvaxnir Netto strákar í hópinn og þeir eru í miklum ham. Netto-strákurinn-í-símanum lýkur samtalinu og virðist nú vita betur hvernig ber að bregðast við og strax og græni kallinn kemur stökkva þeir þrír yfir götuna og hlaupa að okkar manni. Sá er næstum kominn í hvarf við tré og runnugróður en ég sé þó þegar þeir þrír stökkva á hann eins og þeir væru í Vestra og fella manninn með Netto pokann.

Þetta vakti þó nokkra athygli vegfarenda sem margir hverjir ráku upp stór augu enda ekki á hverju degi sem maður sér Netto lögguna að störfum. Þar sem ég var komin út á hjólabrautina þegar hér er komið sögu veit ég ekki hvernig allt fór að lokum, eflaust hefur okkar maður þó verið dreginn inn í Netto og látinn bíða þar annars konar lögreglu.

miðvikudagur, 22. febrúar 2006

Gott land - vond mynd

Ég mætti í þriðja tímann af The Asian Mystique í gær. Þar sem ég er yfirleitt að heiman í tæpa fimm tíma vegna þessa fannst mér ráðlegast að mæta með smurt nesti, en það er eitthvað sem ég hef ekki gert í háa herrans tíð. Það kom í ljós að handtökin voru ekki eins æfð og áður því það tók mig drjúga stund að smyrja brauð með osti og sultu, taka fram Lille Lise kakómjólk og Danone jógúrt, flysja appelsínu og bisa við að koma salthnetum í plasfilmu. Það hafðist þó á endanum og ég varð nestinu fegin seinna um daginn.

Í tímanum var horft á kvikmyndina The Good Earth. Þar sem ég hafði nýlokið við að lesa bókina var ég spennt að sjá hvernig til hefði tekist að koma sögunni á tjald. Ég gerði kannski of miklar væntingar því eftir tvo og hálfan tíma af því að horfa á bandarískan leikara og þýska leikkonu gera lífi Wang Lung og O-Lan skil á yfirdrifinn og ótrúverðugan hátt, svo ég minnist nú ekki á frammistöðu aukaleikaranna sem töluðu í sérkennilegri tónhæð og hlógu alltaf eins og brjálæðingar HA HA HA, komst bara þessi hugsun að: versta kvikmynd veraldar!

Eftir slíkar pyndingar var gott að komast heim og afeitra sig yfir kvikmyndinni The Usual Suspects. Baldur kom með þá kenningu að Keyser Söze stæði á baki þess að við vorum látin horfa á The Good Earth og finnst mér það ekki svo fjarstæðukennt. Það þarf einhvern illa innrættan og grimman til að gera öðrum annað eins, ég segi nú bara ekki annað.

mánudagur, 20. febrúar 2006

Sveitarferð

Við brugðum okkur af bæ í gær til að kíkja á Fjólu, Ingólf og Kjartan. Þar sem þau búa í Trørød kollegiet við Vedbæk (lengst út í sveit) urðum við að taka strætó, lest og aftur strætó til að komast til þeirra. Það var sannarlega þess virði því við fengum að upplifa aftur þá Danmörku sem við kynntumst á tjaldstæðinu í Rødovre árið 2001, þ.e. hina ofurrólegu og sem-klippt-út-úr-barnabók Danmörku. Í Vedbæk er allt svo snyrtilegt og öllu svo vel komið fyrir að maður áttaði sig allt í einu á því hve miðbær Kaupmannahafnar og nærliggjandi hverfi eru... ekki alveg þannig.

Það var líka fleira nýtt sem við fengum að sjá fyrir utan Vedbæk, við vorum nefnilega að hitta litla Kjartan í fyrsta sinn. Við færðum honum að gjöf litla skó með bjöllu í sem á að hvetja börn til að grípa í fæturna og þannig þroska hreyfingar sína. Okkur fannst við kræf að gefa fjögurra mánaða barni skó sem ætlaðir eru níu mánaða en aldeilis ekki, þeir voru of litlir! Hversu lítil númer eru þetta? Eða hversu stór er Kjartan?

Eftir stórgóðar pönnsur með jarðarberjasultu og rjóma, skemmtilegt spjall og túr um huggulegu íbúðina kvöddum við þau skötuhjú og kút og héldum aftur heim í Nordvest. Þó sveitakyrrðin sem svífur yfir vötnum við Vedbæk sé frábær tilbreyting frá hávaðanum í borginni á ég samt erfitt með að ímynda mér hvernig ég færi að hefði ég ekki allt þetta sem ég hef - grænmetissalann, bakaríið, bókasafnið, ræktina - hér í næstu húsum. Ég býst við að ég sé algjört borgarbarn.

Hér stend ég fyrir framan loppemarked-inn í Mariehøjcentret á lestarstöðinni í Vedbæk

Beðið eftir vagni 195 - þá er gott ráða að gretta sig smá

Sá sæti í bjölluskónum

laugardagur, 18. febrúar 2006

These boots are made for walking

Ég lét verða af því! Ég keypti mér æðislega mergjuð, hnéhá leðurstígvél í dag í versluninni Bianco á Strikinu. Það setti ekki strik í reikninginn að afgreiðslustúlkan var íslensk svo við gátum rætt kosti og galla skónna án vandkvæða. Það kom í ljós að það voru engir gallar.

Nú þarf ég bara að berjast við sjálfa mig um eitt: að tíma að ganga í skónum. Þeir eru bara svo fínir að grófar götur borgarinnar eiga ekkert með að eyðileggja þá. Ó, þvílík togstreita!

En ætli ég fái nokkru ráðið um þetta? Eða segir ekki einhversstaðar: These boots are made for walking, and that's just what they'll do...

föstudagur, 17. febrúar 2006

Færslan um fiskinn

Nú ætla ég að rekja tvær tilraunir okkar úr eldhúsinu. Sagan hefst þann 13. febrúar, höfðum við Ásdís keypt hálft kíló af rauðsprettuflökum skömmu áður. Úr varð að við mölluðum saman í ofnrétt eftir uppskrift sem við fundum á netinu. Hún er sem hér segir:

500 g ýsa, þorskur, rauðspretta
2 msk sítrónusafi
400 g kartöflur
1-2 stk græn paprika
1 stk laukur
2 stk hvítlauksrif
1 dós niðursoðnir tómatar
1 tsk grænmetiskraftur
½ tsk pipar
½ tsk salt
1 tsk basilikum
40 g rifinn ostur

Þetta matreiddum við sumsé eftir kúnstarinnar reglum og bárum fram með nýbakaðri hvítlauksbagettu. Rétturinn smakkaðist þokkalega en okkur þótti helst til mikið vanta upp á krydderínguna (höfundarleyfi). Það gengur bara betur næst, hugsuðum við með okkur.

Þess má til gamans geta að um sama leyti árs fimm árum áður hafði ég rænt Ásdísi Maríu úr föðurhúsum undir því yfirskini að um kvöldverðarboð væri að ræða. Í tilefni af því að hún hefur enn ekki snúið aftur var viðbúnaður hinn mesti: kveikt á kertum, spariglösin tekin fram og lagt á borð af mikilli natni, servíettur og allt!

Meðan ég man, myndin hér að neðan er í algjöru ósamræmi við frásögnina og er hreint ekki af okkur skötuhjúum (rauðsprettuhjúum?) eins og ætla mætti. Hún fannst þvert á móti á fréttavef Baggalúts og er af dúettnum Wham.

Í kvöld gerðum við aðra atlögu að áðurnefndum fiskrétti. Að þessu sinni skiptum við rauðsprettunni út fyrir þorsk og samræmdum krydd og innihald í takt við það sem tíðkast í kúskús réttum. Í grófum dráttum var innihaldið einhvern veginn svona: kartöflur, gulrætur, laukur, hvítlaukur, niðursoðnir tómatar og krydd ýmiss konar, svo sem karrý, chili, kóríander, cumin og að sjálfsögðu salt og pipar.

Þessi atrenna heppnaðist að mörgu leyti betur en að sumu leyti verr. Af einhverjum ástæðum ákváðu nokkrar kartöfluskífur að eldast hægt, þær hafa kannski tilheyrt stofni æskujarðepla. Að öðru leyti var atrennan mjög góð og þá sérstaklega hvað krydderínguna varðar. Einnig á þorskurinn betur heima í þessu kombói en rauðsprettan. Varla þarf að taka fram að hvaða fiskréttur sem er smakkast betur sé fiskurinn keyptur á Íslandi.

Að lokum langar mig að þakka þeim sem á erindið hlýddu og sérstakar þakkir fær ritari minn, Ásdís María, fyrir óbilandi eljusemi og sérdeilis nytsamlegar tillögur við gerð textans. Því hvar væri maður ef maður þyrfti að vélrita sjálfur?

fimmtudagur, 16. febrúar 2006

Klukkan þrjú

Var klukkaður aftur! Að þessu sinni voru það Móa frænka og mamma sem klukkuðu mig og hefst nú lesturinn:

Fjórar vinnur:
1. Blaðberi hjá Morgunblaðinu
2. Fiskverkamaður á Skagen
3. Flokkstjóri í unglingavinnunni
4. Háseti á Loka

Fjórar bíómyndir sem ég get horft á aftur og aftur:
1. Rocky
2. Rocky Horror Picture show
3. Legally Blond
4. Amelie

Fjórir staðir sem ég hef búið á:
1. Bræðratunga 17
2. Sæbólsbraut 28
3. Digranesvegur 70
4. Hrauntunga 39

Fjórir sjónvarpsþættir sem ég fíla:
1. Nikolaj og Julie
2. Riget
3. Frasier
4. Friends

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum
1. Kaupmannahöfn
2. Bretagne skaginn
3. Barcelona
4. Terracina

Fjórir réttir:
1. Soðin ýsa með kartöflum, sítrónuólífuolíu, góðu salati og ölgeri
2. Kúskús
3. Egg a la Frederikssundsvej
4. Grænmetissúpa Ásdísar

Fjórar heimasíður:
1. google.com
2. gmail.com
3. Dave Draper
4. Wikipedia

Fjórir staðir sem ég vildi heldur vera á:
1. Muscle Beach, Kaliforníu, 1965
2. Við Hringborðið
3. Sötrandi te í Baggabotni, Héraði
4. Viðskiptafræðingur

Fórnarlömb klukksins eru engin þar sem ég ætla að freista gæfunnar og slíta keðjuna mér til skemmtunar.

þriðjudagur, 14. febrúar 2006

Í tilefni dagsins

Í dag er bjart yfir hvernig sem á það er litið. Himinninn er heiður, sólin sendir geisla sína yfir okkur og ég er búin að lesa fyrir tímann í dag! Ég var nefnilega ekkert alltof duglega að mæta lesin fyrir tímana á haustönn en nú verður breyting á.

Ég er meira að segja farin að huga að lesefni næstu viku. Þá komum við til með að horfa á myndina The Good Earth og er mælt með því að lesa skáldsöguna fyrir tímann. Ég er einmitt á leiðinni út úr dyrunum til að ná í bókina sem nú bíður mín á bókasafninu. Ég hef þá eitthvað að lesa í strætó á leiðinni í tíma, en slík nýting á tíma er mér alls ekki þvert um geð.

Það sem gefur þessum degi þó mest gildi er að ég á stefnumót við frábæran gæja í kvöld. Sá ætlar að bjóða mér út að borða á tælenska veitingastaðinn Alissa, síðan á Baresso kaffihúsið fyrir eftirréttinn og að lokum ætlar hann með mig í bíó að sjá myndina Mit liv som geisha.

Í tilefni af þessu er ég búin að klæða mig í nýja dressið og gera mig sæta og fína. Það er nefnilega ekki á hverjum degi sem manni er boðið á stefnumót. Það er heldur ekki á hverjum degi sem maður heldur upp á fimm ára sambandsafmæli.

sunnudagur, 12. febrúar 2006

Ljúfur laugardagur

Gærdagurinn var akkúrat eins og laugardagar eiga að vera. Við spásseruðum í rólegheitum frá Nørreport og niður Købmagergade. Þar kennir ýmissa grasa og var margt skoðað og sumt keypt. Eitt af því fyrsta sem við sáum var tveggja hæða sælgætisverslun. Fórum tómhent inn en komum út með vænan poka af gúmmulaði.

Með nammipokann í aðalhlutverki soguðumst við inn í bókabúð Arnold & Busck og eins og lög gera ráð fyrir gleymdum við alveg stund og stað og fórum í fjársjóðsleit. Þegar við vorum komin út heyrðum við að einhver var að kalla á okkur. Hver var það?

Við gengum á köllin og fundum eiganda þeirra, gínu sem stóð innst inni í verslun Esprit, svona líka smekklega klædda. Eftir litla umhugsun og fáar vangaveltur keyptum við allt heila settið á Dísuskvísu, ekkert smákúl. Aðeins ein leið til að enda svona bæjarferð, samloka með bufflamozarellu á Diamanten.

föstudagur, 10. febrúar 2006

Út um gluggann á strætó

Mér finnst mjög notalegt að sitja í strætó og glápa út um gluggann á borgina: byggingar sem æða framhjá, hjólandi fólk og gangandi vegfarendur. Maður veitir ýmsu athygli sem maður einfaldlega sér ekki þegar maður hjólar um. Allt í einu tekur maður til dæmis eftir huggulegu kaffihúsi og einsetur sér að kíkja þangað einhvern daginn eða veltir vöngum yfir því hvers konar varningur sé í boði hjá kínverska kaupmanninum.

Svo ef maður þreytist á því að gjóa augum að verslununum má alltaf virða fyrir sér samferðafólkið sem hjólar samsíða vagninum. Það gerði ég einmitt um daginn með það í huga að sjá hver tískan í kvenskófatnaði væri um þessar mundir. Ég varð þess meðal annars vísari að margar konur klæddast loðnum skinnstígvélum sem ná hálfa leið að hnjám. Þó mér finnist það smart þá er það ekki alveg minn stíll.

Þessi könnun leiddi einnig í ljós að enn fleiri klæðast hefðbundnum leðurstígvélum en þeim hef ég alltaf verið skotin í. Ég hef gert heiðarlegar tilraunir til að eignast slík stígvél og á mínum unglingsárum lagði ég reglulega leið mína í vinnuna til pabba til að kíkja til skóheildsalans sem var í sama húsi. Sá lofaði í hvert sinn að leðurstígvélin, sem ég hafði augastað á, kæmu í vikunni á eftir en allt kom fyrir ekki, ég fékk aldrei blessuð stígvélin.

Það vill svo til að við ætlum í bæjarferð á morgun, kannski ég láti slag standa og drauminn rætast.

fimmtudagur, 9. febrúar 2006

Ashura-hátíðin

Ég var á mínu daglega rápi um vef Morgunblaðsins þegar ég rakst á frétt um ashura-hátíð múslima. Fréttin af hátíðinni kom til af því að óttast er að frekari ofbeldisverk verði framin í tengslum við mótmæli vegna dönsku skopmyndateikninganna nú þegar þessi helsta trúarhátíð sjía-múslima stendur yfir.

Fréttin rifjaði upp fyrir mér það sem Marianne Pedersen, kennari minn í námskeiðinu Middle Eastern immigration to Scandinavia, sagði okkur af þessum hátíðarhöldum þegar við ræddum um ritúöl. Marianne gerði vettvangsrannsókn meðal múslima í Sýrlandi og Líbanon og einnig meðal aðfluttra múslima í Kaupmannahöfn. Hún hefur því við ólíkar aðstæður tekið þátt í þessum hátíðarhöldum, en þó aðeins fengið að fylgja konunum eftir.

Um þessar mundir er tími Muharram, fyrsta mánuðar íslamska dagatalsins, og er hann einn af fjórum heilögum mánuðum ársins. Í þessum mánuði minnast síja múslimar bardagans við Karbala og þá einkum píslarvættis Husseins, barnabarns Múhameðs. Hámarki sínu ná hátíðarhöldin á tíunda degi mánaðarins með Ashura hátíðinni. Samkvæmt vef Moggans fyllast margir miklum trúarhita á þessum tímamótum og berja sig gjarnan með svipum og er það í takt við það sem Marianne lýsti.

Á fyrstu tíu dögum Muharram hittast vinir og ættingjar til að minnast hörmunganna við Karbala. Marianne sagði samkomurnar sem hún sótti allar hafa haft svipað form á sér. Fyrst var lesið upp úr Kóraninum og síðan farið með marthiya sem eru ljóðsöguleg harmakvein. Því næst var fyrirlestur um eitthvað sem laut að Kóraninum, íslamskri heimspeki og Muharram.

Þá tóku við ýmsir helgisiðir, má þar helst nefna matam, þ.e. þegar samkoman rís á fætur og tekur að berja á brjóst sér. Um er að ræða táknræna leið til að sýna sorg sína á þessum tímamótum og misjant hversu langt fólk gengur. Marianne sagði að sumar konurnar grétu hástöfum og berðu sig kröftuglega meðan aðrar létu sér nægja táknrænni hreyfingar.

Hefði ég verið heima á Íslandi hefði þessi frétt eflaust ekki setið í mér lengi þar sem tilvera múslima í íslensku samfélagi er mun ósýnilegri en hún er í Kaupmannahöfn. Þar verður maður ekki var við helgidaga annarra trúarhópa en kristinna og finnst að jólahátíðin hljóti að vera alþjóðlega. Hins vegar var grænmetissalinn okkar á horninu með opið öll jólin en í dag er lokað hjá honum.

þriðjudagur, 7. febrúar 2006

Geisjur & Dragon Ladies

Ég mætti í fyrsta tíma annarinnar í dag. Það var reyndar hrein heppni að ég skildi yfirhöfuð mæta þar sem ég taldi víst að tímarnir í námskeiðinu hæfust ekki fyrr en þann 9. Af algjörri rælni álpaðist ég inn á síðu námskeiðsins og sá þá að fyrsti tími hæfist eftir tvo tíma. Það svigrúm nægði mér sem betur fer til að koma mér niður á Snorresgade og inn í kennslustund í tæka tíð.

Námskeiðið sem um ræðir kallast The Asian Mystique og er kennt við Institut for Tværkulturelle og Regionale Studier, Afdeling for Asienstudier, nánar tiltekið Sydøstasienstudiet. Í námskeiðinu er skoðað hvernig Asía og Asíubúar hafa verið sýndir og hvaða mynd hefur verið dregin upp af þeim á Vesturlöndum í kvikmyndum og skáldskap.

Það felur að sjálfsögðu í sér að við komum til með að lesa nokkrar skáldsögur og horfa á kvikmynd í hverjum tíma, t.d. The Good Earth (Gott land) eftir Pearl S. Buck og James Bond myndina You Only Live Twice. Mikið verður það gaman! Ég hlakka virkilega til þess að rífa nefið aðeins upp úr fræðibókunum og prufa annars konar nálgun að námi.

Ein af aðalbókum námskeiðsins kallast The Asian Mystique: Dragon Ladies, Geisha Girls, & Our Fantasies of the Exotic Orient. Ef eitthvað er að marka titilinn virðist mér hér vera komin áhugaverð bók og er ég ansi spennt að hefja lesturinn.

sunnudagur, 5. febrúar 2006

Með á nótunum

Við höfum verið óvenju vel með á nótunum þessa helgina. Í gær horfðum við á undankeppni íslensku eurovision keppninnar og vorum sátt að sjá Sylvíu Nótt komast áfram. Veit þó ekki hvort ég sé til í að hún fari alla leið til Aþenu en það er víst ekki í mínum höndum þar sem ég kem ekki til með að taka þátt í símakosningunni þann 18.

Við horfðum einnig á spurningaþáttinn Tíminn líður hratt og ég er ekki frá því að heimþrá hafi hellst yfir mann á þeirri stundu. Svo enduðum við kvöldið á að horfa á Spaugstofuna en það hef ég ekki gert í háa herrans tíð. Ég veit ekki hvort það sé til marks um fyrrnefnda heimþrá, breytt skopskyn, bætt vinnubrögð Spaugstofumanna eða aldurinn að færast yfir en hvað sem það var þá hafði ég mjög gaman af Spaugstofunni! Síðast þegar ég hafði gaman af þessum fimm vitlausuköllum var þegar þættirnir kölluðust á Stöðinni, man best eftir 89' á Stöðinni.

Í dag fengum við síðan í fyrsta sinn heim í hús Politiken og lágum yfir því í dag. Við ákváðum nefnilega á dögunum að taka dönskunámið fastari tökum og keyptum okkur þriggja mánaða helgaráskrift að blaðinu. Það góða við blaðið er að það kemur í mörgum aðskildum lögum svo ég get verið að lesa fréttirnar eða gluggað í menningarblaðið meðan Baldur kíkir í Søndagsliv eða Videnskab & Debat.

Til að setja punktinn yfir i-ið horfðum við svo á fréttir RÚV í kvöld. Það voru að vísu fréttir gærdagsins þar sem tengingin okkar ræður ekki við að horft sé á fréttirnar í beinni en það breytir ekki öllu. Kannski maður fari svo bara að venja sig á að kíkja á fréttir DR1, það væri þá í takt við ætlun okkar að tala betri dönsku. Það væri hins vegar algjör bónus/hliðarverkun að verða betri að sér í heimsmálunum.

laugardagur, 4. febrúar 2006

Vefarinn Darcy frá Kasmír

Við Stella og Áslaug Edda horfðum um daginn á myndina Pride & Predjudice og höfðum gaman af. Í framhaldi af því lánaði Stella mér bókina sjálfa í íslenskri þýðingu en ég hafði fram til þessa aðeins lesið hana á ensku.

Ég las bókina síðan í einum rykk í gær og vitaskuld varð mér hugsað til þess þegar ég las hana síðast. Það var árið 2000 þegar ég var au-pair í Bordeaux og hafði bara enskar bókmenntir og höfunda eins og Jane Austen og Brontë systur til að halla höfði mínu að.

Síðar sama kvöld og ég hafði lokið við Hroka og hleypidóma var ég komin upp í rúm og ætlaði að halda áfram þar sem ég hafði horfið frá Vefaranum mikla frá Kasmír. Ég flettir upp að síðu 101 og las: Steinn var vanur því að heiman að sannfæra á fimm mínútum þá sem á hann hlýddu, og ekkert hefði honum fundist eðlilegra hér en múnkurinn hefði risið á fætur, kastað kufli sínum, afneitað hinni einu trú og æpt: Eviva la bandiera rossa!

Meðan ég las þessa klausu velti ég því fyrir mér hve í takt við persónu Darcy þetta væri, það væri sko honum líkt að hugsa svona... Svo mundi ég að þetta var alls ekki Darcy að tala heldur Steinn Elliði úr Vefaranum mikla frá Kasmír. Ég ákvað að sýna skáldinu meiri virðingu og halda ekki lestrinum áfram fyrr en ég hefði almennilega sagt skilið við persónur fyrri skáldsögunnar. Því þó Jane Austen og Halldór Laxness séu bæði góðir höfundar eru þau það á sínu hvoru sviðinu og ég held það sé farsælast að blanda þeim ekki um of saman.

föstudagur, 3. febrúar 2006

Nýr haus, nýtt líf

Við fengum svo að segja nýjan haus um daginn. Sko sturtuhaus. Hann er reyndar ekki alveg nýr, bara endurbættur.

Við lögðum hann kalkstíflaðan í mínus kalkbað eins og lög kveða á um og því má segja að við höfum lagt höfuð í bleyti (aha). Við höfðum vanrækt það þar til nú og vorum lengi búin að klóra okkur í hausnum (þeim líffræðilega) yfir því dularfulla minnkandi vatnsmagni sem sprautaðist úr hausnum (sturtunnar).

Þegar við svo prufuðum gripinn eftir afkölkunina fundum við stórmun. Ef ekki er hægt að tala um nýjan haus þá er allavega hægt að tala um nýtt líf.

fimmtudagur, 2. febrúar 2006

Ostur veislukostur?

Við gerðumst djörf fyrir stuttu - við keyptum nýja tegund af osti. Fyrir síðustu helgi vorum við að versla í Netto og rákumst á ostinn Lille Lise sem auglýstur er sem mildur og bragðgóður. Hann er líka klæddur rauðu vaxi svo okkur fannst að hann hlyti að vera bragðdaufur og áþekkur brauðostinum heima. Svo við kipptum Lille Lise með.

Það kom svo á daginn þegar við opnuðum ostinn að hann er ansi lyktarmikill og aðeins of bragðsterkur fyrir okkur. Við hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að láta Heidda greyið spæna honum ofan í sig meðan hann væri gestur okkar en ekki varð okkur kápan úr því klæðinu, þetta er nefnilega frekar veglegt oststykki.

Við sátum sum sé uppi með oststykkið og urðum að koma því í góðar þarfir, helst af öllu að koma ostinum ofan í okkur. Síðan uppgötvuðum við að með því að smyrja góðu lagi af syltetøj ofan á brauðsneið með Lille Lise væri hægur vandi að snæða ostinn. Nú þurfum við bara að kaupa meiri sultu.

miðvikudagur, 1. febrúar 2006

Herfang

Við fórum á bókasafnið áðan til að ná í fjóra geisladiska sem við áttum pantaða. Við komum klyfjuð til baka, með hvorki meira né minna en 25 diska í farteskinu. Við gleymdum okkur aðeins í tónlistarekkanum og því fór sem fór: okkur leið eins og við hefðum rænt hálfu bókasafninu þegar við snerum heim á leið.

Í engri sérstakri röð samanstendur herfangið af eftirtöldu:

1. Café del Mar - The Best Of
2. Bob Marley & The Wailers - Exodus
3. Tori Amos - StrangeLittleGirls
4. Tori Amos - Boys for Pele
5. Lisa Ekdahl - Bortom det blå
6. Celine Dion - Miracle
7. Leonard Cohen - Ten new songs
8. Iggy Pop - Skull ring
9. Jethro Tull - The very best of
10. Pearl Jam - Binaural
11. Nirvana - Nirvana
12. Pixies - Best of Pixies
13. Nirvana - In utero
14. Little Richard - The masters
15. the mamas & the papas - Greatest hits
16. Neil Young - Greatest hits
17. Kim Larsen - Luft under vingerne
18. Kim Larsen - 7-9-13
19. Supertramp - Famous last words
20. Roxy music - Avalon
21. Creedence Clearwater Revival - CCR forever
22. Era - The very best of Era
23. Richard O'Brien - The Rocky horror picture show
24. Bob Marley and the Wailers - Fy-ah, fy-ah
25. Leonard Cohen - Dear Heather

Útlán á geisladiskum eru til einnar viku. Ég veit ekki með ykkur en mér finnst ansi metnaðarfullt af okkur að ætla að hlusta á allt þetta á einni viku. Við verðum þvílíkt upptekin.