föstudagur, 30. nóvember 2007

Allt í kössum

Í gær og í dag hefur hér á Þinghólsbrautinni átt sér stað lítilsháttar flóð, kassaflóð ef svo má segja, enda voru hér á tímabili einir tólf kassar opnir þegar best lét. Fyrst ber að nefna kassana sem við náðum í úr geymslunni hjá pabba, bara svo við ættum einhverjar spjarir á okkur. Þangað höfðu einnig borist bögglar alla leið frá Indlandi, einn frá Pondicherry, einn frá Kochi og tveir frá Himalaya, og við kipptum þeim að sjálfsögðu með úr geymslunni, forvitnin að drepa okkur. Ofan á þetta allt saman bættust sendingar frá amazon sem höfðu að geyma meginþorra jólagjafanna í ár.

Efri hæðin, sér í lagi hjónaherbergið, hefur því undanfarna tvo daga ekki verið sjálfri sér lík, heldur flæddi hér varningur út um öll gólf, og stundum niður stigann (segi svona). Við tókum á það ráð að bretta upp ermar og hófum að rífa upp úr öllum kössunum. Þegar við vorum að grúska í fatakössunum og jafnvel hálf í kafi ofan í einhverjum þeirra heyrðust oft undrunaróp og niðurbældar stunur: "Þetta hér, ég hélt ég hefði hent þessu", og svarið frá hinu: "Þú hefðir betur átt að henda þessu". Já, margt um lúnar og ljótar flíkur skal ég segja ykkur. En nú þegar búið er að koma þeim fyrir inn í skáp höfum við lítinn hug á því að rífa þær strax út aftur til þess eins að endurmeta fataplöggin, þá er nú einfaldara að geyma þær inní skáp og ganga bara ekkert í þeim.

Indlandsbögglarnir komu að mestu leyti heilu á höldnu heim þó þeir frá Himalaya hafi verið áberandi verr farnir en hinir tveir. Pappakassarnir höfðu liðast í sundur af hita, raka og síðast en ekki síst hroðalegri meðferð, og það eina sem hélt þeim saman var indverska sérviskan að sauma utan um alla póstböggla hvítt léreft. Guði sé lof fyrir það segi ég núna. Marmafíll hafði brotnað, einstaka bók hafði €krumpast og geisladiskahulstur mölvast í hundrað mola, en ég geri ekki meiri kröfur en þær að fá bögglana og innihaldið í fangið. Takk, India Post.

Amazon sendingarnar voru draumur við hlið indversku bögglana, ekkert ryk eða mold þar á bæ, aðeins girnilegar gjafir, sumar hverjar þurfti ég að fela í snarhasti, en aðrar bíða núna upp í skáp eftir því að ég pakki þeim í jólapappír og hnýti á þá slaufu.

Eins og það var nú skemmtilegt að grafa í dótinu sínu og fá algjört flash back við að opna indversku bögglana er ég afskaplega fegin að því verki sé lokið. Nú er allt komið í röð og reglu og einhverra hluta vegna er ég oft og tíðum mikið fyrir röð og reglu.

P.s. Myndin glæsilega af okkur skötuhjúum er í boði Fernando.

fimmtudagur, 29. nóvember 2007

Komin heim!

Fyrirsögnin segir allt sem segja þar: Við erum komin heim á klakann.

Við komum með flugi frá Stokkhólmi í gær og vorum samferða Fernando í vélinni, en eins og menn muna komumst við að því í ryðgaðri rútu í Laos að við ættum sama flug milli Stokkhólms og Keflavíkur. Okkur fannst það skylda okkar að sýna honum það litla sem við gátum af Íslandi og við lendingu reyndist það vera flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þar fundum við íslenska fánann, skemmtileg póstkort og íslenskt sælgæti í tonnatali. Ég reyndi að sannfæra hann um gæði íslenska rjómasúkkulaðisins en lét alveg vera að minnast á lakkrísinn, minnug viðbragða nokkurra Brasilíumanna ("Þið eruð að plata, ykkur finnst lakkrís ekkert góður").

Þrátt fyrir fögur fyrirheit höfum við enn ekki náð að sjóða ýsu, fara í Laugardalinn eða hitta alla fjölskylduna. Við höfum hins vegar fengið okkur lakkrís, Lindubuff, vatnsglas og máltíð Á næstu grösum.

Við erum með gömlu símanúmerinn (sem við áttum í stökustu vandræðum með að rifja upp). Svo er bara að slá á þráðinn!
Baldur: 697 9560
Ásdís: 690 8469

miðvikudagur, 28. nóvember 2007

Vikan í Stokkhólmi

Nú er vikan okkar í Stokkhólmi senn á enda og við hæstánægð með dvöl okkar hér. Borgin er afskaplega falleg; hrein, bein og björt. Við erum þó mestmegnis búin að njóta þess að vera innandyra í hlýjunni hjá Áslaugu og Þórdísi og froskaforeldrum þeirra.

Það sem á daga okkar hefur drifið er göngutúr í frostinu til að kíkja í sjónvarpsturninn og sötra þar á kakói, labb um skóginn og rifrildi um hver fengi að stýra jeppanum sem börnin sofa í. Við höfum líka notið þess að versla inn í alvöru búð og eldað mikið af góðum mat. Já, og smakka nýjan mat því í Stokkhólmi fæst kavíar með banönum og sítrónuís með lakkrís! Við kíktum líka nokkrar ferðir niður í miðbæ Stokkhólms með t-banan niður í T-Centralen og höfum gengið um Hötorget, Drottninggatan, Stureplan og mælt okkur mót undir Sveppnum.

Að sjálfsögðu erum við búin að vera í frænku- og frændahlutverkinu í bland við annað. Þannig erum við búin að heimsækja leikskólann hennar Áslaugar og í anda leikskólans fara í marga leiki við stelpuna, m.a. jóga þar sem frændi fór í hundinn og dömuleik þar sem unga daman fékk lánaðan víetnamska hefðarfrúarhattinn minn og tók fram búðarpoka og fleiri flotterí til að þræða upp á handleggina. Síðan kenndum við henni óvart sérkennilega frasa á borð við obsadeisí og oh la la. Kannski þess vegna sem ég fékk það á hreint frá tveggja ára barninu að við værum bestu vinkonur. Við fylgdumst líka með henni baka piparkökur og skottast um í náttkjólnum sem við færðum henni að gjöf, með hárspennur í hárinu og hárteygjur á litlum, útglenntum fingrum. Loks fengum við að passa Þórdísi sem kúrði í hálsakoti frænda síns meðan ég kúrði í sófahorninu og Baldur las fyrir okkur upp úr Siddhartha hans Hermanns Hesse.

Þá má ekki gleyma því að við hittum einnig kólumbísk-sænska parið þau Fernando & Sofiu, sem við kynntumst í Laos og hittum aftur í Kambódíu. Við gengum með þeim um Gamla Stan og áðum á kaffihúsi sem er í magnaðri kjallarahvelfingu þar sem mér fannst ég helst vera uppi á tímum persóna Alexanders Dumas. Ég beið bara eftir að skytturnar eða greifinn af Monte Cristo kæmu askvaðandi inn með peningapyngju sem þeir myndi vippa undan skykkjunni og kasta á borðið fyrir ölkrús. Við létum okkur hins vegar nægja að smakka heita eplaköku með vanillusósu, hættum okkur því næst út í frostið aftur til þess eins að finna annan stað til að setjast inn á og affrysta limi og lokka. Í millitíðinni náðum við hins vegar að sjá Svía í hinni merku íþrótt íshokkí. Þá var maður nú kominn til Svíþjóðar fyrir víst.

fimmtudagur, 22. nóvember 2007

Lent í Svíaríki

Við erum þá komin til Evrópu, alla leið til Svíþjóðar meira að segja, og erum í góðu yfirlæti hjá froskum.

Flugið milli Asíu og Evrópu var með ljúfasta móti. Við höfðum búið okkur undir löng og þreytandi flug, svefnlaus í þokkabót, en svo reyndist ekki vera. Strax á fyrsta legg ferðarinnar, milli Bangkok og Kúveit, vorum við sett í business class með sínum breiðu sætum og mikla fótaplássi. Eftir kvöldmat náðum við því að lognast út af eins og ekkert væri og sofa fram að morgunmat. Eftir þennan lúr vorum við svo frísk að það var nánast óþarft að sofa meira, við dottuðum þó smá í Kúveit-Frankfurt leggnum eftir góðan hádegismat.

Þegar við lentum loks í Stokkhólmi rétt fyrir tíu um kvöld vorum við að verða sybbin aftur og eftir að hafa faðmað froska, unga sem aldna, skriðum við upp í rúm á afskaplega kristilegum tíma. Vöknuðum síðan við forvitna Áslaugu Eddu sem fékk sitt knús.

Hér er kalt og loftið ferskt og við erum í þann mund að láta undan uppáhaldsiðju okkar: fara út í búð og versla í matinn!

þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Farvel, elsku Asía!

Þá er komið að kveðjustund, eftir klukkutíma hoppum við upp í leigara til a fara út á flugvöll. Við erum sallaróleg enda búin að borða góðan indverskan mat og pakka öllu sem pakka þarf, töskurnar bíða okkar upp í herbergi.

Þær, blessunirnar, skilja ekkert í því að við séum að draga þær í þurrara og kaldara loftslag þar sem þær munu koma að litlu sem engu gagni og fá ekki lengur að vera hluti af okkar daglega lífi. Þær geta prísað sig sælar, þær fá þó að koma með. Handklæðin okkar og sængurfötin og nokkrar slitnar flíkur eru ekki svo heppin, þau verða skilin eftir upp á hótelherbergi í bleika Malasíupokanum okkar ásamt rispuðum sólgleraugum, nýjum sjampóbrúsa, óopnuðum tannkremstúpum, moskítófælum og morgunverðarskál Baldur sem hann hefur dröslast með frá Víetnam. Við erum að vona að einhver gramsi í pokunum og taki úr þeim það sem þá vantar, það væri þá í anda Asíu.

Við kveðjum Asíu með miklum trega en ekki halda að við séum búin með öll Asíuskrif. Við eigum enn eftir að gera heilmikið uppgjör við ferðina, birta og skoða myndir, skrifa niður minningar og gullkorn, yfirfara glósubækurnar okkar og tala heil ósköp um ferðina og Asíu og fólkið og menninguna. Sýnið því skilning :o)

Við erum eins tilbúin að kveðja og hægt er að vera með tárin í augunum. Við erum búin að kveðja Su, fara í litun (er eins og gulrót núna!), kveðja Harry á Koddanum og gefa honum Ian Rankin spennusögu að skilnaði, heilsa upp á Oscar sem heitir víst ekki Oscar (hann bað að heilsa þér pabbi), fá faðmlag frá Býfluga (hann elskar Baldur, blink-blink) og selja bækurnar hjá vinkonum okkar.

Við erum líka tilbúin í næsta kafla og erum að okkar mati vel undirbúin: klædd í nýjar úlpur og jakka, peysur og boli og skó (ég er reyndar í gervi Nike strigaskónum sem ég keypti í Kuala Lumpur, þeir virðast ætla að koma að meiri notum en ég reiknaði með). Núna erum við nefnilega á leið yfir hálfan hnöttinn til að komast til norður Evrópu og þar ku vera vetur.

Við fljúgum klukkan þrjú í nótt (átta að kveldi á Íslandi) frá Bangkok til Kúveit, frá Kúveit til Frankfurt og frá Frankfurt til Stokkhólms. Þar ættu við að lenda annað kvöld upp úr hálf níu. Það er svolítið skrýtið að gráta endaloks einhvers en á sama tíma hlakka til næsta kafla, en það er einmitt það sem ég upplifi núna. Ég á eftir að sakna Asíu óendanlega mikið og ferðalagsins og lífs okkar hér, en á sama tíma get ég ekki beðið eftir að knúsa fallega fólkið mitt. Það er líka alltaf hægt að líta á björtu hliðarnar, það verða í það minnsta engin fleiri móskítóbit í bili!

Yfir og út, við segjum bless elsku Asía: namaste, sabadee, takk fyrir allt.

Síðustu dagarnir í Asíu

Þá er kominn tími á að skrúfa frá tregafullum ekkasogum og harmagrát, við eigum bara einn dag eftir af Asíureisunni okkar! Hvernig gerðist þetta eiginlega? Tíminn líður, trúðu mér. Dagar okkar í Asíu eru taldir (harhar).

Við kvöddum Pétur og Valeriyu og Pattaya í gær eftir þrusuafmæli. Við erum orðin svo góð með okkur að við tókum leigara yfir til Bangkok, þó ekki fyrr en eftir ítarlega leit að besta boði (við erum ekki algjör). Okkar fyrsta verk í Bangkok, verandi búin að versla næstum allt sem við höfðum einsett okkur að kaupa, var að fara í bíó. Því miður var ekki úr miklu að moða í bíóhúsunum en við sáum þó Beowulf og Lions for Lambs og fengum nóg af bíópoppi. Ég er viss um að það hafi tíst í mér af gleði yfir að komast í bíó, við erum ekki búin að sjá kvikmynd síðan í september!

Deginum í dag vörðum við í verslunarmiðstöðinni Central World, nánar tiltekið í ZEN risaversluninni. Við týndumst inn í versluninni og ég verð svo ringluð inn í svona geimum að ég á erfitt með að taka einföldustu ákvarðanir. Þess vegna var svo sniðugt að taka sér matarpásu á FoodLoft og fá sér indverskt dahl (B) og Chiang Mai karrý með steiktum núðlum (seinustu forvöð að prófa eitthvað svo sérstækt).

Á leiðinni heim úr leigubílnum gengum við Khao San á enda og virtum í síðasta sinn götulífið fyrir okkur (sniff). Nú er bara eftir að pakka betur ofan í töskur, dífa tánni ofan í sundlaug og vonast eftir sól á morgun. Og kannski kíkja á Koddann. Og kveðja ávaxtavinkonu okkar hana Su. Og athuga veðrið í Stokkhólmi.

sunnudagur, 18. nóvember 2007

Afmælisveislan

Í gær átti Valeriya 27 ára afmæli, hipp hipp húrra! Okkur var boðið í afmælisveislu, sem við að sjálfsögðu þáðum með þökkum, kjörið að fresta ferðalögum um einn dag í viðbót. Það hefur gjarnan verið háttur okkar að lengja hvert stopp frekar en að stytta og blekki ég sjálfan mig með þeirri hugmynd að ég eigi nógan tíma eftir hér og þurfi ekkert að fara heim.

Afmælisveislan fór öll vel fram, var haldin á frönskum sælkerastað og fengu allir gott í gogginn. Íslendingar voru í hlutfallslegum meirihluta á móti Rússum, þrír á móti fimm. Eftir mat og drjúgt tjill á veitingastaðnum röltum við um Walking Street og Boys Town með vertunum.

Það er gaman að vera á lifandi stað í góðum félagsskap og margt sem hægt er að læra af frjórri umræðu. Þá koma upp hugmyndir um einn dag enn, bara einn... Nú er það bara allt í einu ekki hægt. Af þeim sökum kvöddum við Valeriyu eftir velheppnaða og skemmtilega afmælisveislu í gær og Pétur frænda fyrir u.þ.b. fjórum tímum.

Nú erum við hins vegar komin til Bangkok, tveir dagar í flugtak. Mjög, mjög skrítið.

fimmtudagur, 15. nóvember 2007

Tiffany's

Í kvöld fórum við á flottustu kabarettsýningu Pattaya, TIFFANY'S SHOW! Það er víst óhætt að segja að þessur stelpustrákar (ladyboys) eru sannarlega engir venjulegir.

Sýningin hófst með lúðrablæstri sem dramatískustu höfðingjar fortíðarinnar hefður orðið stoltir af og þegar lúðrunum sleppti var lítið kynningaratriði. Eins og í öllum veluppbyggðum sýningum er fundin leið til að fá áhorfendur til að slappa aðeins af og eru fáar leiðir betri til þess en svolítið grín.

Tveir gaurar í litríkum kjólum með uppblásin brjóst voru fengnir til verksins með svolítilli hjálp frá mér. Þeir stukku nefnilega niður af sviðinu og áður en ég vissi af var sviðsljósinu beint á mig, gaurinn sem var kominn að mér lyfti upp pilsinu sínu svo nú var ég líka í því og hlammaði sér í kjöltuna á mér. Hvað á maður eiginlega að gera? Jú, það er nú einfalt. Auðvitað athugaði ég hvort ekki væri nóg loft í bobbingunum og uppskar eldheitan rembingskoss á ennið í kaupbæti sem skildi eftir sig hið fullkomna varafar. Ef þetta hefði gengið aðeins lengra héti færslan kannski Breakfast at Tiffany's...

Sýningin hélt svo áfram og hafði nú rækilega tekist að koma sýningargestum í gott skap. Atriðin voru hverju öðru fallegra og mörg ansi fyndin í þokkabót. Sviðsmyndir og búningar voru slík snilld að ég efast um að þau eigi sinn líka nokkurs staðar í heiminum.

Þegar dansatriðunum lauk hélt ég áfram að skemmta fólki því hið fullkomna varafar vakti mikla lukku þegar risastórir kínverskir eða tævanskir túristahópar gengu framhjá mér og bentu brosandi á ennið á mér, kannski þeirra leið til að þakka fyrir ómetanlegt framlag mitt.

Eftir að hafa fengið myndir af mér með hinum kossaglöðu varamönnum skutlaði bílstjórinn okkur í eina kringluna þar sem ég dreif mig inn á klósett til að þvo minjagripinn af andlitinu. Það var nú hægara sagt en gert því þetta var sko ekki bara vatnshelt, þetta var varalitur fyrir kafara og geimfara og samkvæmt gögnum frá geimferðastofnunum þarf leisermeðferð til að ná slíku af sér.

Ein manneskja hafði þó voðalega gaman af þessu, skúringakonan á klósettinu, og náði í vinkonu sína til að sýna henni þennan litríka falang. Einhvern veginn hafðist þetta nú allt saman með óhóflegri sápunotkun, miklu vatni og hágæða andlitsnuddi. Mér segir svo hugur um að þetta kvöld verði mér algerlega ógleymanlegt og mæli með Tiffany kabarettinum við alla sem eiga ferð í námunda við Pattaya.

miðvikudagur, 14. nóvember 2007

Verslað, verslað, verslað

Nú erum við búin að vera rúma viku í Pattaya og gefist góður tími til að fylla sálina af sóli, sundi og almennri afslöppun. Við erum búin að púla á þrekhjólinu í litla lyftingasalnum og taka kraftgöngu á hlaupabrautinni, flatmaga við sundlaugarbakkann, taka góð vítamín og borða mikið af ávöxtum.

En það er ekki bara sálin sem er að fyllast, bakpokarnir okkar eru það líka! Við erum búin að álpast inn í nokkrar góðar kringlur, Royal Garden Plaza þar á meðal, en höfðum ekki hugsað okur að versla þar sem ætlunin var alltaf að gera innkaupin í Bangkok. En svo reyndist vera til þessi fallega úlpa í Bossini, þessar fínu flauelsbuxur í Lee, góðir skór fyrir norðlæga veðráttur í Clarks, töff pólóbolir og gallabuxur í Ten&Co og smart buxur og peysur í Esprit. Við þefuðum meira að segja uppi Yves Rocher verslun og stórglöddum starfsfólkið þar á bæ.

Nú þurfum við bara að kaupa væna tösku undir allar fínu flíkurnar sem hlaðist hafa upp í fína hótelherberginu okkar.

mánudagur, 12. nóvember 2007

Púlað með gestgjöfum

Pilates og spinning voru aðalréttir dagsins. Pétur og Valeriya buðu okkur að koma með sér í gymmið og fá smásmakk af æfingaprógrammi þeirra. Ég þáði boðið með þökkum enda alltaf til í að læra nýja hluti þegar kemur að þjálfunar- og heilsufræðum.

Þjálfari Péturs og Valeriyu, Mike, var hreint út sagt frábær og greinilegt að 40 ára reynsla í bransanum hefur eitthvað að segja. Pilates æfingarnar áttu ansi vel við mig enda hef ég nýtt mér ýmislegt úr þeim geira til að krydda æfingarútínurnar á ferðalaginu. Gestgjafarnir voru greinilega engir nýgræðlingar og var Pétur alla jafna notaður sem módel til að sýna hvernig ætti að gera hlutina rétt.

Beint eftir Pilates leikfimina þrömmuðum við í annan sal og hófst þá spinningtími. Ekki er neinu logið upp á þá íþrótt þegar sagt er að hún sé hörkupúl. Ég er greinilega ekki jafnmikill spinningmaður og held mig áfram við járnfáksreiðar utandyra en er þó þeirrar skoðunar að þetta sé góð leið til að styrkja hjarta, lungu og bræða smá lýsi.

Kaffistofa æfingastöðvarinnar kom í góðar þarfir eftir púlið og naut ég þess að lepja safa ungrar kókoshnetu í mig. Nú þegar reisan er komin svo langt á seinni helminginn verður allt sérasískt gotterí nefnilega að algerri nautn og mun ég vafalaust hugsa um kókoshnetusafann með nostalgíuglampa í augum innan fárra vikna, alltof fárra vikna.

Pattaya á vespu

Við heimsóttum Pétur og Valeriyu í gær. Þar fengum við kynningartúr um sætu íbúðina þeirra og nutum mikillar gestrisni sem náði hámarki með frábæru flatbökunni sem Pétur eldaði með nokkrum einföldum handtökum í símanum sínum.

Þegar blaðrið í sumum var komið upp fyrir almennt þol vitiborinna manneskja bauð Valeriya mér á rúntinn. Við kvöddum strákana með loforði um að finna fyrir þá kraftajötnatímarit og skelltum svo hurðinni á eftir okkur. Skelltum því næst á okkur hjálmum og þeystumst af stað á rauðri vespu.

Við kíktum á helgarmarkað í suður Pattaya þar sem við fundum kraftakarlablöð fyrir karlana okkar og skáldsögur fyrir okkur skvísurnar: 6. áratugs New York skáldsögu annars vegar og rússneskan reifara í kýrillísku letri hins vegar, þið megið tengja bók við skvísu ef þið getið.

Þegar við yfirgáfum helgarmarkaðinn tók Valeriya mig í allsherjarskoðunarferð um Pattaya. Við keyrðum framhjá flottum byggingum og sáum ófáar verslunarmiðstöðvarnar, við þræddum þröngar götur á rauðu vespunni og tróðum okkur gegnum mannþröngina, okkur var boðið inn á bari af stúlkum sem héldu á áletruðum skiltum um ódýra bjórdrykkju, sáum súludans á opnum börum og heilan hóp af trönsum á leiðinni út á lífið. Allsstaðar var umferð fólks, bíla og skellinaðra og í hverju húsasundi voru hundruðir ljósaskilta. Pattayabúar elska nefnilega ljósaskiltin sín, marglit og stór. Best ef þau blikka í þokkabót.

Við enduðum rúntinn á því að keyra gegnum Arabahverfið og sáum þar ófáa veitingastaði með fallegt, arabískt letrið á rúðunum, einn danskan pulsuvagn (ég er jafn ráðvillt og þið) og fundum yndislegan ilminn af eplavatnspípu. Þegar við snérum heim drógumst við óhugnanlega fljótt inn í hinn almenna kjaftagang og það er með herkjum að ég rifja upp þessa frábæru ferð um Pattaya á vespu með fararstjóranum Valeriyu.

laugardagur, 10. nóvember 2007

Í lyftingasalnum

Á hótelinu okkar er pínkulítill lyftingasalur með tíu handlóðum, hlaupabraut, þrekhjóli, fjölnota æfingatæki og bekkpressu sem nýtist einnig í réttstöðuna. Salurinn er við eina af sundlaugum hótelsins svo útsýnið er afskaplega aðlaðandi, í þeirri merkingu að sundlaugarvatnið heillar (ekki þó gestirnir, því miður). Eina sem setja má út á staðsetninguna er að maður gengur gegnum lítinn bar við sundlaugina þar sem fólk snarlar stundum í skugganum frá sólinni. Þá gengur maður framhjá sveittum hamborgurum og frönskum með ketsjöp og finnst það ekki alveg vera rétti undirbúningurinn fyrir góða æfingu.

Við kíktum í litla salinn í dag og meðan Baldur tók út fjölnota tækið lagðist ég í bekkpressuna og fékk næstum kökk í hálsinn af geðshræringu: elsku bekkpressa, hvar hefurður verið fram til þessa? Með sömu stöng, en laus við geðhræringuna, gerði ég líka nokkrar réttstöður. Það var algjört nammi.

Talandi um nammi, eftir æfinguna fengum við okkur smá bita af því sem var til upp á herbergi. Inn í ísskáp kenndi ýmissa grasa, m.a. fundum við jackfruit, epli, papaya og pomelo. Við gæddum okkur líka á kasjúhnetum, þurrkuðum en djúsí apríkósum, smábanönum og hnetusmjöri. Öllum að óvörum þótti okkur það afskaplega ljúffengt.

fimmtudagur, 8. nóvember 2007

Ættarmót

Í gær var haldið ættarmót fyrir fallegasta fólk í Pattaya á dönskum veitingastað. Fjöldi þátttakenda var fjórir; Pétur, Valeriya og að sjálfsögðu hnotskurnarritararnir. Fyrsta klukkutíma ættarmótsins var smjattað á ferðasögum og góðum mat, svona eins og gengur á fundum þeim sem kenndir eru við endur.

Eftir matinn voru svo haldnir ólympíuleikar í keilu og eftir harkalega útsláttarkeppni kom í ljós að allir voru svo góðir að enginn var sleginn út, allir náðu verðlaunasæti. Leikarnir enduðu svo á að vera ógiltir þar sem allir keppendur neituðu að fara í lyfjapróf, ásakanir um kínín- og talkúmnotkun liggja því enn í rafmögnuðu loftinu.

Í stuttu máli þá urðu fagnaðarfundir þegar við hittum þau skötuhjú, mikið var hlegið, etið og engu hef ég logið um keiluna, við vorum öll ógeðslega góð.

miðvikudagur, 7. nóvember 2007

Lúxus

Þá erum við komin í lúxuslífið í Tælandi. Við lögðu af stað eldsnemma frá Siem Reap og endurtókum leikinn frá því síðast þegar við tókum leigubíl að landamærunum og ég haltraði yfir til Tælands. Að þessu sinni gat ég gengið á báðum og að þessu sinni tókum við ekki rútuna til Bangkok heldur beint til Pattaya. Og þar erum við núna, á hinu fínasta lúxushóteli sem fær okkur dollara ferðalangana til að súpa hveljur yfir verðlaginu. Við erum orðnar algjörar fimm dollara sálir eftir Laos og Kambódíu!

Þegar við gengum inn að afgreiðslunni á Grand Jomtien Palace rak starfsfólkið upp stór augu. Það var ekki endilega útgangurinn á okkur sem var svo slæmur heldur voru það bakpokarnir sem þau ráku augun í. Það er nefnilega ákveðin yfirlýsing að ferðast með bakpoka: við ferðumst ódýrt. Til að tryggja að við vissum hvað við værum að fara út í endurtók daman í afgreiðslunni verðið á herberginu nokkrum sinnum, eins og við værum aumustu rónar að skrá okkur inn á Ritz hótel . Við brostum okkar blíðasta og létum það ekki á okkur fá því þó þetta sé ekkert fimm dollara hótel þá er þetta heldur ekkert Ritz hótel.

Kannski daman hafi vitað hve nísk við höfum verið í ferðinni, svo nísk að við höfum rifist við rickshaw bílstjóra í Indlandi út af 15 krónum. Kannski þess vegna sem hún hélt að við tímdum þessu ekki. En þá hefur hún bara ekki heyrt af plönum okkar um að dekra við okkur undir lok ferðarinnar til að tryggja að við snúum ekki heim eins og rónar sem komast ekki inn á Ritz.

Og þess vegna erum við núna í stóru herbergi á efstu hæð hótelsins, þeirri 12., með útsýni af góðu svölunum okkar yfir suður Pattaya, ströndina, flóann og flottu sundlaugina. Hér er líka lyftingasalur og gufa og morgunverðahlaðborð sem hæfir pattaralegri hirð. Það er hvítt lín á rúmum og stór og þykk handklæði til að þurrka sér í, baðkar inn á baði og sápur og freyðibað til að hella í það.

Mitt fyrsta verk var að leggja sjálfa mig í bleyti í blessuðu baðkarinu. Þar lá ég og marraði í hálfu kafi í góðan tíma og ímyndað mér að ég þryfi af mér skítinn sem ég varð mér úti um í Siem Reap. Sá bær er sko aldeilis mengaður og ekki hjálpar sturta mikið til því aðeins er hægt að baða sig upp úr köldu vatni (fimm dollara ferðalangar) og járnhlöðnu og súru í þokkabót. Maður angar eins og lifrapylsa eftir hvert bað.

En nú verður vonandi ekki meira um lifrapylsuböð. Nú ætlum við að næra okkur á sól og sundi og sjóböðum, fylla sálina upp í topp af hitabeltinu áður en heim er haldið. Til þess þarf lúxus.

mánudagur, 5. nóvember 2007

Jóla hvað?

Það er von að menn spyrji sig, jóla-hvað er þetta á hnotskurninni? Eru bændur ekki enn í Asíu á flakki? Jú, en við erum samt að verða búin að kaupa allar jólagjafirnar í ár!

Einhverjar gjafir keyptum við á næturmarkaðnum í Luang Prabang, einhverjar verða keyptar í Bangkok eða Stokkhólmi, en flestar hafa hingað til verið keyptar á netinu. Sem þýðir að sjálfsögðu að við höfum setið á netkaffi hér í Siem Reap og velt vöngum af mikilli yfirvegun í eins ójólalegu umhverfi og hægt er. Ljósaseríur veitingastaðana bæta reyndar margt upp, svo Kambódíumönnum er fyrirgefið jólaleysið.

Ég sakna helst þess að fá smá jólatónlist með í spilið en um það er ekki að ræða á þessu kaffihúsi. Ég held ég fengi einhvern svip ef ég færi að spila jólalög hér á netkaffinu innan um stuttbuxurnar og sandalana og gestina sem eru ekki að raula með sjálfum sér Jólin, jólin allsstaðar.

sunnudagur, 4. nóvember 2007

Með þrjár í takinu

Hver hefði trúða því, ég er með þrjár í takinu. Þrjár mismunandi þykkar á velli og klæddar ólíkum kápum en allar jafn fínar fyrir því. Þær krefjast að sjálfsögðu allar athygli sem ég get átt erfitt með að veita þeim, verandi á flakki og flandri, en ég get sjálfri mér um kennt að koma þessu bókabúri á laggirnar.

Sú fyrsta sem ég varð mér út um í búrið er The Greek Way eftir Edith Hamilton en hana fann ég á ólíklegasta stað, í stultukofagesthúsinu á Boliven hásléttunni. Þar sem um er að ræða kynningu á grískri heimspeki, og þar sem henni er ætlað að bjarga heimi í vanda, verður maður að sjálfsögðu að fara hægum skrefum yfir hana og gaumgæfa hvert horn. Svo ég les hana hæææægt. En ægilega þykir mér mikið til rökhusunarinnar koma, eins og ferskur andvari eftir póst-móderískt völundahús þar sem maður er flæktur í eigin heilafellingar áður en maður nær að vinna úr heilli hugsun.

Þeirri næstu, sem ég bætti í búrið, stal ég eiginlega frá Baldri og er sú athöfn afskaplega í takt við titil bókarinnar sem heitir svo fallega The Virtue of Selfishness og er eftir rithöfundinn og heimspekinginn Ayn Rand. Mér þykir ég hafa svo merkan grip í höndum að ég titra og skelf þegar ég handleik bókina og þessi ofurvirðing gerir mér hægara um vik að lesa mikið í einu. Ég þarf að smjatta svo óskaplega á því sem frú Rand hefur fram að færa, það er eins og ég sé með saltpillur í munninum.

Síðast en ekki síst eru það endurminningar Dr. Azar Nafisi í bókinni Reading Lolita in Tehran. Þar skrifa hún um tíma sinn sem prófessor við háskóla í Tehran í tíð Ayatollah Khohmeinis og lýsir átökunum milli ólíkra fylkinga í Íslamska lýðveldinu Íran. Ekki nóg með að sögusviðið sé áhugavert með meiru heldur eru nálgun hennar það líka, hún talar um tímann í gegnum skáldsögur og gerir því afskaplega góð skil.

Maður myndi halda að hér væru þrjár gjörólíkar bækur á ferðinni en svo vill til að oft hef ég hrasað um setningar og hugsun sem ég man eftir að hafa lesið í einni hinna. Þannig hafa þær frá fyrsta degi tengst órjúfanlegum böndum, allavega í mínum huga.

--------
UPPFÆRT: Þær eru orðnar fimm í bókabúrinu, og örugglega fleiri ef ég gefði mér tíma til að gramsa í bakpokanum hans Baldur. Allavega, ég bara varð að kaupa mér The Jane Austen book club og The Poisonwood Bible. Munið þið eftir Helgu Brögu í ostaauglýsingunni? Svo hagkvæmt! Þannig er ég með bækur, það er alltaf Svo hagkvæmt! að kaupa þær.

laugardagur, 3. nóvember 2007

Fólkið í landinu

Það er áhugavert að sjá hve Suðaustur Asíu þjóðirnar eru frábrugðnar hver annarri. Að sjálfsögðu er ekki um æpandi mun að ræða heldur frekar blæbrigði. Kambódíumenn eru ekkert öðruvísi en hin löndin að skera sig örlítið úr.

Hér er betl til að mynda mun sýnilegra en nokkurn tímann í Tælandi, Laos eða Víetnam. Börnin ganga um með útrétta lófa, bendandi á vatnsflöskuna manns eða jógúrtina svo maður á allt í einu erfitt með að kyngja. Hins vegar erum við mjög ströng, við gefum aldrei betlurum, það þarf þá eitthvað mikið að koma til. Þetta kann að hljóma svakalega kaldlynt en það er ekki ástæðan, við erum ekki sérlega kaldlynd að eðlisfari. Það er einfaldlega eina sem við sjáum í stöðunni, að gefa ekki betlurum en versla hins vegar við heimamenn sem meðvitað rífa sig upp úr eymdinni. Þannig keyptum við t.d. póstkort af handalausum manni sem rétti okkur spjald þar sem stóð að hann kysi frekar að vinna fyrir sér með sölu á bókum og kortum heldur en að betla. Og nú erum við búin að skrifa og senda þessi kort svo þeir sem fá vita hvaðan þau koma.

Börnin sem betla eru þau allra skítugustu sem ég hef séð síðan í Indlandi. Þau ganga um í óhreinum fötum og eru illa lyktandi. Þau eru send út að selja póstkort og glingur og eflaust sagt að koma ekki heim nema með einhvern pening. Það myndi í það minnsta útskýra þrautseigju þeirra því nei takk þýðir ekki nei takk. Þau væla í manni fram eftir öllu og það þarf sterkar taugar til að hlíða á. Þegar það rennur upp fyrir þeim að við erum engir viðskiptavinir ganga þau á brott með krækta arma. Stundum held ég að þau eigi engan að nema hvert annað.

Túk-túk bílstjórarnir hafa ekki undan að bjóða manni far, jafnvel þó maður sér aðeins að fara yfir götuna. Ma'am, you want tuk-tuk? Sir, where you go? Þeir sem ekki ná túri til rústanna hanga í vögnunum sínum í miðbænum og sæta færis eða liggja og slappa af. En þeir eru engu að síður vakandi, ekki vanmeta þá, því þó maður sitji á veitingastað með matinn fyrir framan sig og lítur í kringum sig eitt augnablik og lendir í því að ná augnasambandi við einn af bílstjórunum þá er hann samstundis sestur upp og farin að bjóða manni túk-túk. Já, auðvitað skal ég þiggja far í túk-túk, augnablik meðan ég fæ enchiladönu minni pakkað inn. Þeir eru skondnar skrúfur, það verður ekki skafið af þeim.

Það skemmtilegasta sem ég hef hingað til séð og fellur vel undir færsluna Fólkið í landinu eru konurnar sem ganga um í náttfötum að deginum til. Og ekki bara einhvern veginn náttfötum, heldur samstæðum. Flottasta flott í kventískunni hér í Kambódíu eru samstæð náttföt. Maður sér margar konur í náttbuxum en flottast þykir að eiga líka náttbol í stíl, það sýnir að viðkomandi hafi efni á slíkum fatnaði og tímann fyrir sér til að klæðast náttfötum að degi til. Í stuttu máli sagt þýða náttfötin ríkidæmi. Hvernig væri nú að taka upp á þessu heima á klaka? Bara moon boots og góð flónil náttföt í skammdegið og slabbið.

föstudagur, 2. nóvember 2007

Endurfundir

Í gærkvöldi gengum við Ásdís einu sinni sem oftar um miðbæ Siem Reap. Alla jafna erum við mjög örugg á þessum slóðum og ekkert misjafnt um bæjarlífið að segja. Að þessu sinni brá þó öðru við. Næsti kafli gerðist allur í einni andrá, svo lesið hratt og leyfið hjartanu að slá í takt við það.

Einhver kom á harðahlaupum aftan að mér og gerði ákafa tilraun til að rífa af mér hliðartöskuna sem ég nota undir myndavél, seðlaveski og allt draslið sem þarf að hafa á sér. Vitanlega næst taskan ekki af mér, hengd yfir báðar axlir, og gaurinn hangir fastur við mig og lá ansi vel við uppreiddum hnefa mínum og lamandi augnaráði.

Ég áttaði mig þó í tæka tíð því þarna var enginn annar á ferðinni en Fernando vinur okkar frá Kólumbíu. Það sem stefndi í að verða að leiðindaveseni reyndist upphafið að milljónasta hláturskastinu okkar og fylgdum við Fernando svo á veitingastað þar sem Sofia beið unnustans.

Hún hafði ekki verið með í ráðum og skildi ekkert í því að Fernando skyldi stökkva svo skyndilega frá hálfkláruðum mat og ráðast á ókunnugan mann úti á götu, hugsa að hún hafi verið jafnfegin og við þegar hún sá hverslags var í raun. Það er nú meira.

Þetta var fyrsti í endurfundum, leiðir skildi í Vientiane, því ráðgert er að hittast í Stokkhólmi innan tíðar og svo deilum við náttúrulega flugvél með Fernando til Íslands frá Stokkhólmi, talandi um stalkera ;-)