laugardagur, 31. desember 2005

Uppgjör ársins 2005

Seinasti dagur ársins er nú runninn upp og kjörið við það tilefni að líta um öxl og taka út árið 2005. Ég útbjó lítinn lista til að auðvelda mér verkið og hafði gaman af.

Afrek ársins: Rífa sig upp og flytja til Kaupmannahafnar.
Besta bókin: The No. 1 Ladies Detective Agency serían eins og hún leggur sig.
Besta platan: The Beekeeper eftir Tori Amos.
Besta myndin: Hotel Rwanda.
Besta lagið: Somewhere Over The Rainbow/What A Wonderful World með Israel Kamakawiwo'ole.
Mesta gleðin: Þegar við fluttum inn á Frederikssundsvej og komumst að því að íbúðin var ekki hrörleg og óspennandi eins og við höfðum búið okkur undir heldur frábær. Líka að eyða ágústmánuði í Kaupmannahöfn.
Mestu vonbrigðin: Að finna hvergi Laugardalslaugina í Kaupmannahöfn.
Besta gjöfin: Lífsgleðin.
Skemmtilegasta uppgötvunin: Amadou & Mariam.
Skondnasta atvikið: Þegar ég hljóp upp vitlausan stigagang og fannst eins og einhver hefði fært til nöfnin á hurðunum þar sem okkar nafn var ekki á hurðinni til hægri á fjórðu hæð.
Einkennisdýr ársins 2005: Tígrisdýr.
Litur ársins 2005: Fjólublár.
Ljósmynd ársins: Af okkur skötuhjúum í Rutschebanen á Bakken.

föstudagur, 30. desember 2005

Allt eins og það á að vera

Þá eru bækurnar þrjár sem mér áskotnuðust um jólin allar upplestnar. Ég las fyrst Hrafninn eftir Vilborgu Davíðsdóttur og þrátt fyrir áhugavert sögusvið fangaði sagan mig ekki sem skyldi.

Bókin sem ég las þar á eftir, Flugdrekahlauparinn eftir Khaled Hosseini, heillaði mig hins vegar upp úr skónum. Bæði er sögusviðið, Afganistan á 7. og 8. áratugnum, mjög spennandi en auk þess er eitthvað svo óumdeilanlega væntumþykjanlegt við aðalpersónur sögunnar. Ég vil þó ekki slá ryk í augu neins, bókin er nefnilega líka afskaplega átakanleg.

Síðasta bókin sem ég las var Þriðja táknið eftir Yrsu Sigurðardóttur. Þar er á ferðinni saga sem hélt mér fanginni svo ekki kom annað til greina en að lesa langt fram á nætur. Mér fannst plottið nefnilega alveg ágætt og allur sögulegi fróðleikurinn líka en samtölin fundust mér skemmtilegust.

Inn á milli bókalesturs höfum við spilað óhóflega oft Settlers, svo oft reyndar að við erum komin með eigin reglur. Það er nefnilega ekki nærri eins spennandi að spila bara tvö svo við höfum reynt að gera leikinn meira krassandi.

Á heimilinu ríkir sem sagt mikil ró og hefur okkur tekist að slappa af út í eitt. Þannig á það líka að vera á jólunum.

fimmtudagur, 29. desember 2005

Úti er alltaf að snjóa

Í gærkvöldi byrjaði að snjóa og gerir enn. Í fyrstu virtist þetta ekki stefna í neitt rosalegt en núna að sólarhring liðnum er ég aldeilis á öðru máli. Allar götur eru fullar af snjó og almennt allt á bólakafi, gaman.

Þar sem við Ásdís erum bæði hrifin af svona löguðu drifum við okkur í gönguferð um hverfið. Í þessu vetrarferðalagi bar ýmislegt fyrir augu en helst ber þó að nefna snjóskrímsli, nývaknað úr dvala. Það hefði betur fengið sér barrnálagraut í haust.

Hér að neðan fylgir síðan texti að laginu sem ég er með á heilanum og er tilvalið að syngja meðan myndir dagsins eru skoðaðar.

Úti er alltaf að snjóa
því komið er að jólunum
og kólna fer í Pólunum
En sussum og sussum og róa
ekki gráta elskan mín
þó þig vanti vítamín
Ávexti eigum við nóga
handa litlu krökkunum
sem kúra sig í brökkunum
Þú færð í magann þinn mjóa
melónur og vínber fín

Þótt kinnin þín litla sé kannski soldið
köld og blá
áttu samt vini sem aldrei bregðast
Af ávöxtunum skuluð þér nú þekkja þá
Sussum og sussum og róa
ekki gráta elskan mín
þó þig vanti vítamín
Þú færð í magann þinn mjóa
melónur og vínber fín.

Úr Deleríum búbónis eftir Jónas og Jón Múla Árnasyni


Undir snjónum leynist Glasvej.

Snjóskrímslið

Kjarasamningar varðhunda 1. gr. Öllum varðhundum er skylt að hafa eigin vinnusíma.

Já þetta er ég :-)

Þreyttur fákur. Þessi fákur á að vera þreyttur.

þriðjudagur, 27. desember 2005

Vakað pínu frameftir

Klukkan er rúmlega hálf sjö að morgni í Danaveldi. Umferðin er hægt og rólega að aukast hér við Frederikssundsvej og úti er hvorki meira né minna en snjór á stéttum. Á meðan fólk er að vakna til daglegra starfa allt í kring erum við skötuhjú að tygja okkur í háttinn; við vorum sko að spila Settlers í alla nótt.

Svona eru jólin hjá þeim sem ekki þurfa að vinna milli jóla og nýárs - það er ansi ljúft.

mánudagur, 26. desember 2005

Jólakveðja

Eg bið guð að gleðja þig
gleðinni sinni fyrir mig.
Lausnarinn góði: lífsins sól
ljómi þér blíð um þessi jól.
B. J.

sunnudagur, 25. desember 2005

Afmæli: 26 ára

Nú á ég bara tvær mínútur eftir af þessum yndislega afmælisdegi. Afmælisgestirnir góðu - froskarnir, halakartan og Ingvaldur amma - voru að ganga út úr dyrunum eftir dýrindis pizzaveislu, mergjaða spilamennsku í Settlers og almennt jólasukk í sætindum.

Ég fékk að sjálfsögðu afmæliskveðjur frá klakanum og í samtalinu við pabba rifjuðum við upp að fyrir tíu árum hélt ég upp á 16 ára afmælið á Kanaríeyjum. Þá fékk ég perlueyrnalokka að gjöf (sem ég var hæstánægð með) og sopa af kampavíni (sem olli mér svo miklum vonbrigðum að ég er enn ekki búin að jafna mig).

Á 26 ára afmælinu fékk ég íslenskan lakkrís (sem ég var hæstánægð með) en náði hins vegar ekki að vinna í Settlers (sem olli mér svo miklum vonbrigðum að ég á eftir að syrgja það sem eftir lifir dags).

Það er sko gaman að eiga afmæli!

laugardagur, 24. desember 2005

Gleðileg jól!

Gleðileg jól allir saman og farsælt komandi ár. Þakka fyrir það sem liðið er og hlakka til þess sem koma skal.

Leiðiskertin í ár

Undanfarin tvö ár höfum við Baldur lagt leið okkar í Fossvogskirkjugarð snemma á aðfangadagsmorgun til að vitja leiða ættingja. Við höfum yfirleitt skilið eftir kerti við leiðin, en veður og vindar hafa alveg ráðið því hvort þau hafi verið logandi.

Í ár kemst ég hins vegar ekki að vitja leiða Rut ömmu, Ásdísar ömmu og Óla afa. Þess í stað langar mig að birta hérna minningargreinar sem ég skrifaði fyrir tíu árum þegar ömmurnar mínar dóu. Ég fann þær nefnilega á mbl.is um daginn og hafði gaman af.

Rut Gróa Þórðardóttir (25. mars 1917 - 10. júní 1995)

Okkur systkinin langar að minnast elskulegrar ömmu okkar. Alltaf tók hún vel á móti okkur á Vífilsgötu þegar mamma og pabbi þurftu á pössun að halda. Frá samverustundum inni í hlýrri stofunni með gulu, hlýlegu veggjunum eigum við góðar minningar. Aldrei munum við gleyma því þegar hún gaf okkur sveskju og söl, og eftirvæntingunni þegar hún náði í lakkrísinn sem hún geymdi bak við sófa.

Amma hafði mjög gaman af því að spila á píanó. Við munum sérstaklega eftir því að hún spilaði oft "Nú er frost á Fróni" og vildi að við tækjum undir. Við eigum einnig mjög góðar minningar frá dvöl okkar í sumarbústaðnum með ömmu og Siggu frænku. Þar var oft glatt á hjalla og leið ömmu mjög vel þar.

Elsku Rut amma, við viljum þakka þér fyrir allar þær góðu samverustundir sem við áttum með þér og fyrir umhyggjuna sem þú sýndir okkur ávallt. Með þessum orðum kveðjum við þig.
Ásdís og Andri.

Ásdís María Sigurðardóttir (26. nóvember 1928 - 12. júlí 1995)

Við erum hér saman komnar frænkurnar tvær til að minnast elsku ömmu okkar. Heima hjá ömmu og afa ríkti ávallt mikil gleði. Alltaf var stutt í brosið og hláturinn hjá ömmu og munum við ekki eftir að hafa séð hana öðruvísi en káta og hressa. Amma var mjög músíkölsk, hún spilaði á gítar og söng fyrir okkur í afmælunum. Hún átti orgel og leyfði hún okkur oft að glamra á það.

Amma var dugleg að skrifa dagbók um helstu atburði og geymdi hún hana undir púðunum í sófanum. Amma bakaði alltaf mjög góðar kökur, við hlökkuðum alltaf til að fara í afmæli til ömmu og afa og smakka góðu terturnar hennar ömmu og að fá brauðterturnar frá afa. Við minnumst ömmu þegar hún trítlaði á inniskónum og sloppnum með rúllurnar í hárinu og þegar hún sat í sófanum með teppið sitt.

Elsku amma, minning þín mun ávallt vera í huga okkar og viljum við þakka þér fyrir stundirnar sem við áttum saman. Þínar nöfnur,
Ásdís María og María Björk.

miðvikudagur, 21. desember 2005

Prófalok og jólaskap

Í gær tók ég síðasta próf þessarar annar og held ég að óhætt sé að segja að það hafi gengið vel. Námskeiðið var af markaðsfræðitoga og gekk fyrst og fremst út á það sem heitir branding og hvernig best sé að standa að því. Jammjamm en nóg um það, búið, búið, búið, vei!

Hvað á maður að gera þegar maður er búinn í prófum? Nú, koma sér í jólaskap. Besta leiðin til þess er að vera innan um gott fólk, borða góðan mat og baka kökur. Við heimsóttum semsé froskafjölskylduna, settum jólamúsík á fóninn (epla aflbókina), borðuðum frábæran mat og réðumst í baksturinn. Eftir svolítið sprell voru marenstoppar og hafrakökur með súkkulaði á boðstólum auk þess sem dreypt var á te.

mánudagur, 19. desember 2005

Æskuminning

Um daginn horfðum við á hina óviðjafnanlegu E.T. Við það tækifæri minntist Baldur þess að hafa átt E.T. dúkku sem Pétur frændi hafði gefið honum.

Ég gerðist nú aldrei svo fræg að eignast E.T. dúkku en í dúkku- og bangsasafni mínu var hins vegar að finna einn Gremlingsbangsa. Ég hafði gaman af honum og leit á hann sem hluta af bangsasafninu mínu. Það átti þó eftir að breytast. Eitt kvöld var barnapían að horfa á Gremlings 2 sem var bönnuð innan 12 ára og ég læddist inn til að kíkja á. Ég þurfti endilega að sjá atriðið þar sem allir Gremlingsarnir eru breyttir: slímugir, slóttugir og hræðilegir!

Viðmót mitt gagnvart Gremlingsbangsanum breyttist varanlega eftir þessa upplifun. Á hverju kvöldi, eftir að hafa raðað böngsum og dúkkum á lak og breytt teppi yfir, var Gremlings stungið inn í skáp - svona til öryggis.

sunnudagur, 18. desember 2005

Alfræðibrölt

Hver kannast ekki við fletta wikipediu fram og til baka þegar skólabækurnar heilla ekki lengur? Stundum kemst ég þó á það stig að þessar eilífu staðreyndir úr wikipediu eru ekki alveg nógu beyglaðar fyrir próflestrarmig. Þá er gott að glugga aðeins í uncyclopediu, sem er einmitt beygluð wikipedia, og er að finna ýmsan fróðleik m.a. um kexverksmiðjuna.

föstudagur, 16. desember 2005

Tilkynningar

Hér koma nokkrar mikilvægar tilkynningar um það sem ég kýs að kalla hliðar (saman hliðar) heimasíður, harhar.

  1. Brandarasíðan er aftur tekin til starfa. Við hendum inn þeim bröndurum sem við rekumst á á netinu eða fáum senda í tölvupósti. Sumir eru afskaplega dónalegir og því ekki fyrir viðkvæma en aðrir eru hóflegri. Brandarasíðan er með link hér í hægri dálki en svo má líka nálgast hana hér: glens & gaman
  2. Ég er búin að uppfæra Evrópureisufærsluna okkar og er hún nú í máli og myndum. Linkur á hana er hér til hægri en einnig hér: Evrópureisan 2001
  3. Fyrir áramót er gott að hreinsa upp gamlar syndir. Við lofuðum ykkur víst á sínum tíma að skrifa um hringferðina okkar í ágúst 2002 og nú er sú færsla komin á netið í máli og myndum. Betra seint en aldrei, ekki satt? Linkur á ferðasöguna er hér til hægri en einnig hér: Hringferðin 2002
Ah, á meðan ég man, þetta er mín jólagjöf til ykkar - jólagjöfin mín í ár, ekki metin er til fjár...

fimmtudagur, 15. desember 2005

Óhefðbundið prófstress

Í dag tók ég próf í tölfræði og eins og venjulega tók ég með mér skriffæri, strokleður, reiknivél og klukku til að hafa á borðinu. Áður en ég lagði af stað athugaði ég hvort ég hefði aukablý meðferðis og hvort klukkan góða væri rétt stillt. Allt reyndist í orden.

Ég mætti tímanlega á prófstað og kom mér vel fyrir við borð í fremstu röð. Prófið byrjaði svo á slaginu níu, það veit ég því ég leit á klukkuna um leið og ég fékk prófið í hendur. Það leið eins og önnur próf, hratt, og þegar 10 mínútur voru eftir fór ég í rólegheitum að skrifa inn á svarblaðið hvaða krossa ég hefði valið. Þetta gerði ég af vandvirkni og reyndi að nota spariskriftina mína.

Ég var einmitt nýbyrjaður á því þegar ein yfirsetukonan kemur og gerir sig líklega til að taka prófið af mér. Ég tók úr mér eyrnatappana, var svolítið undrandi, og þá sagði hún mér stórtíðindin: Prófið er búið. Sem betur fer leit hún á klukkuna mína og gat sagt mér að hún væri tíu mínútum á eftir áætlun. Fyrir vikið gaf hún mér séns á að klára að skrifa upp restina meðan hún sópaði að sér prófum kollega minna, sem betur fer. Spariskriftin bíður betri tíma.

miðvikudagur, 14. desember 2005

Námsfréttir

Ég sótti seinasta tímann í kúrsinum mínum um innflytjendur í Skandinavíu í dag. Ólíkt kúrsinum sem ég sótti fyrri hluta annar (Power of Consumption), var ég mjög sátt við þennan kúrs. Ég fékk líka ritgerðina mína til baka með ummælum um að hún væri vel upp byggð og ítarleg. Þessar ritgerðir eru metnar á staðið/fallið skala og það stóð hvergi að ég hefði staðist... ég held ég geri samt bara ráð fyrir því.

Nú tekur við lestrartörn því ég á að skila af mér stórri ritgerði í janúar. Þá ritgerð kem ég síðan til með að nota sem kafla í kenningarhlutanum í MA ritgerðinni minni - svo hagkvæmt!!

þriðjudagur, 13. desember 2005

Hvornår bliver det rigtig jul på Nørrebro?

Ég geri ráð fyrir að jólaundirbúningurinn sé um þessar mundir að ná hámarki heima á skeri. Við höfum farið varhluta af honum hér í Kaupmannahöfn því jafnvel þó borgarbúar séu farnir að skreyta fyrir komandi ljósahátíð er lítið um svoleiðis pjátur í okkar hverfi, hér eru nefnilega svo fáir af múslimunum sem halda upp á jólin.

Við kristna parið ætlum okkur nú að halda upp á jólin með glæsibrag en það yrði erfitt að sannfæra ykkur um það ef þið kæmuð til okkar í heimsókn. Þar er nefnilega ekki að finna eitt einasta jólaskraut - jú reyndar var lítil mynd af jólasveini á einu bakkelsinu sem við keyptum um daginn og ég límdi hana á útidyrahurðina. Þá höfum við ekki sett eitt einasta jólalag á fóninn, engar jólagjafir hafa verið keyptar og jólakortin í ár verða á formi ástúðlegra hugsana. Við ákváðum nefnilega að taka okkur frí frá jólaundirbúningi þetta árið og njóta hans þeim mun betur næstu jól.

Ég get því ekki sagt að ég sakni jólaundirbúningsins í ár. Það væri þá helst að ég sæi eftir mínu árlega eintaki af Bókatíðindum sem alltaf hafa verið mér kær boðberi jólanna. En þar sem ég er í Danaveldi er að sjálfsögðu ekki um neitt slíkt að ræða. Í staðinn skoðaði ég þau á netinu: rafræn jól 2005.

Kannski ég kaupi jólarós til að setja á stofuborðið, hver veit?

mánudagur, 12. desember 2005

Grúskað í ættfræði

Ég sat í gær í sakleysi mínu við lestur og hlustaði með hálfum hug á samtal Baldurs við afa sinn. Ég fékk fljótlega á tilfinninguna að ég sæti og hlustaði á tal tveggja gamalla vina sem staddir væru á Eir eða einhverju álíka virðulegu hjúkrunarheimili. Samtalið hafði nefnilega leiðst út á brautir sem manni finnast einkenna slíkar stofnanir.

Það sem ég heyrði af samtalinu var framlag Baldurs og það var einhvern veginn svona: Hvað er að frétta af Jónu? Já, já vill hún ekki flytjast nei. Já, það er nú gott, það er á jarðhæð, það verður auðveldara fyrir hana. Já, er hún slöpp í mjöðminni greyið, erfið til gangs, seisei. Já, já hvernig veiktist hann? Nú já er hann dáinn. Er langlífi í ættinni? Látum okkur nú sjá, ég er kominn hér inn á Íslendingabók...

Og svona hélt það áfram nema hvað ég hafði smitast og var nú sjálf komin inn á Íslendingabók að grúska í gömlum ættliðum. Forvitnust var ég að skoða þá laufguðu grein ættartrésins sem sprottið hefur frá langafa mínum í móðurætt, honum Sigurði Sigurðssyni frá Pálsbæ á Seltjarnarnesi. Ég hafði alltaf heyrt talað um hann sem kvennamann mikinn og eftir smá rannsókn sá ég með eigin augum að svo var. Eða hvað annað er hægt að kalla mann sem eignaðist 15 börn með átta konum? Sum árin tókst honum meira að segja að eignast tvö börn, þó ekki með sömu konunni.

Alls ekki svo slæmt ættartréð mitt með svona litskrúðugum, fjölfjöðruðum fugli inn á milli laufanna - ef maður sér að glasið er hálffullt altsvo.

föstudagur, 9. desember 2005

Afrek dagsins

Ég fór í klippingu áðan og er nú orðin stutthærð. Gekk bara um útidyrnar, beið eftir græna kallinum, gekk svo yfir götuna og inn hjá Frisør Tonni. Gæti ekki verið einfaldara þegar ég hugsa út í það.

Sú sem klippti mig spurði hvernig ég vildi hafa hárið og varð undrandi þegar ég svaraði að bragði: Kort! Þegar hún leysti síðan hárið úr hnútnum og það liðaðist niður eftir bakinu slapp fram yfir varir hennar þessi danska upphrópun: hold det op!

Þegar hún tók fyrstu handtökin með hnífinn leit hún á mig og sagði mér að nú væri of seint að hætta við. Ég kinkaði bara brosandi kolli. Meðan hún klippti mig velti ég því fyrir mér hvort ég ætti að finna til trega en þar sem ég gat ekki hætt að brosa vissi ég að þess þyrfti ekki, ég var nefnilega bara ánægð.

Þegar allt var um garð gengið og ég sat brosandi í allar áttir, eins og barn sem hefur fengið verðlaun fyrir góða hegðun hjá tannlækninum, spurði hún mig hvort þetta væri ekki skrýtið og varð litið á hrúguna af hári sem lág við fætur hennar. Þegar ég játti því dró hún af mér risasmekkinn og sagði að nú væri ég hálfu kílói léttari.

Þegar ég síðan hljóp upp stigann heima fann ég að það munaði um þetta hálfa kíló, ég flaug upp eins og ekkert væri.

Fyrir

Eftir

miðvikudagur, 7. desember 2005

Áfanga lokið

Áðan kláraði ég munnlegt próf úr námskeiði sem heitir Organising Global Markets & Trade. Prófið fór þannig fram að ég og fjórir félagar mínir fluttum framsögu um verkefni sem við höfðum unnið á önninni. Prófdómararnir voru tveir og gengu þeir ötullega til verks, spurðu okkur spjörunum úr að fyrirlestri loknum. Eftir klukkutíma yfirheyrslu var okkur svo hent út og biðum við eftir niðurstöðu. Biðin var ekki löng og niðurstaðan var góð.

Ég verð að segja að mér hefur aldrei þótt svona gaman í prófi áður. Spurningarnar voru flugbeittar og greinilegt var að kennarinn hafði lesið ritgerðina okkar ansi vel yfir. Þegar einkunnin var í höfn fóru strákarnir á barinn en ég lét mér nægja eina kalda pintu af mjólk heima.

Ekki var ég einn um að ljúka áfanga í dag því Ásdís lauk einnig námskeiði, Changing Social Practices: (Middle Eastern) immigration to Scandinavia and United Kingdom. Áfangamatið þar á bæ var ekki ósvipað, fyrirlestur og ritgerð. Í tilefni af áföngum beggja ætlum við að slaka rækilega á í kvöld.

þriðjudagur, 6. desember 2005

Pásutíð

Prófatíð er gengin í garð með tilheyrandi vinnuskorpum. Að loknum lestrardegi þykir mér oft gott að gera eitthvað allt annað en að lesa skólabækur eins og t.d. að horfa á bíómynd eða spila tölvuleik.

Ásdís kynnti mig fyrir þessum tölvuleik og þótti mér hann skrambi fínn. Nánar tiltekið svo fínn að ég er hættur að spila hann í bili þar sem smápása teygðist einum of auðveldlega í langa pásu. Ég mæli því ekki með honum við þá sem eiga auðvelt með að gleyma sér dundi og blöðrustrategíu en eiga að vera í próflestri.

Að lokum langar mig til að tilnefna Slowblow diskinn úr Nóa albinóa sem próflestrardisk ársins 2005. Ég held bara svei mér þá að maður verði gáfaður af þessu stöffi.

mánudagur, 5. desember 2005

Refhvörf

Mér varð skemmt þegar ég rakst á orðið oxymoron í texta sem ég er þessa stundina að lesa (af því það endar svo flippað á orðinu moron). Mér varð þó ekki eins skemmt þegar ég hafði flett orðinu upp í orðabók og sá íslensku þýðinguna: Refhvörf h. (ft.). Þau refhvörfin. Hvað í ósköpunum eru refhvörf og hvernig eiga þau heima í texta um tyrkneska Gastarbeiter í Þýskalandi?

Allt í einu rifjaðist upp fyrir mér þessi sama aðstaða og sama uppgjöf, ég hef nefnilega áður upplifað það að rekast á þetta orð, flett því upp og orðið að leggja árar í bát hjá refhvörfum. Þetta var því eins og að upplifa déjà vu nema hvað þetta var frekar svona déjà fait.

Í þetta sinn gafst ég þó ekki svo auðveldlega upp heldur náði í íslenska orðabók. Svo í staðinn fyrir rödd fréttaþularins sem drundi í hausnum á mér (Skæð plága herjar nú á refabyggðir heimsins, svo virðist sem refir hverfi af engri sjáanlegri ástæðu. Hafa vísindamenn nefnt þetta dulafulla fyrirbæri refhvörf) heyrði ég loksins í rödd skynseminnar sem færði mér þá þekkingu að refhvörf er það þegar valin eru saman orð gagnstæðrar merkingar eins og t.d. í kveðskap bjartur-svartur.

Þannig varð setninging 'Therefore, an "immigrant Gastarbeiter" would be an oxymoron' allt í einu skiljanleg og nú get ég haldið áfram lestrinum, einu íslensku orði bættari og betri.

föstudagur, 2. desember 2005

Litla lagið okkar

Mig langaði bara að rifja þetta litla lag upp fyrir aðdáendum Ren & Stimpy og ekki síður að kynna það fyrir nýjum hlustendum.

Jólasveinn í felulitum

Af hverju þarf jólasveinninn endilega að vera með hvítt skegg? Má hann ekki eins vera rauðskeggjaður? Og af hverju er alltaf gert ráð fyrir að hann sé klæddur rauðum búningi, getur hann ekki allt eins klæðst bláum vinnugalla?

Ef svo er þá sá ég hann nefnilega áðan.

fimmtudagur, 1. desember 2005

Kaldar jakdyr

Einhverjum kann að finnast þetta óskiljanleg fyrirsögn og lái ég þeim það ekki. Ég varð nefnilega alveg hvummsa þegar ég rak augun í orðið jakdyr rétt í þessu á tölvuskjánum mínum. Ég hefði samt ekki átt að verða svo hissa því ég skrifaði það niður sjálf og er því í raun formóðir orðsins.

Ég var sem sagt að reyna að skrifa orðið kaldur en staðsetti hægri hönd einum staf of langt til vinstri á lyklaborðinu. Þegar maður svo vélritar orðið kaldur í þessari stöðu fær maður út hið skemmtilega nýyrði jakdyr. Hverskonar dyr ætli það séu?