þriðjudagur, 31. janúar 2006

Janúarannáll

Þar sem janúarmánuður hefur heldur verið í rólegri kantinum hér í Nordvest langar mig að taka saman hvað ég hef hafst við til að gefa mér tilfinningu fyrir því að ég hafi þó komið einhverju í verk.

Hvað bókmenntir snertir las ég fimm skáldsögur. Í byrjun janúar las ég Hulduslóð eftir Lizu Marklund. Svo var það hún Angela's Ashes eftir Frank McCourt sem kom mér á bragðið með kartöflustöppuna. Fyrir utan augljósan ávinning af því að uppgötva nýjan rétt fannst mér sagan algjört afbragð. Svo las ég líka bókina hans Jóns Kalmans Stefánssonar Sumarljós, og svo kemur nóttin, barnabókina The city of the beasts eftir Isabelle Allende og í lok mánaðarins las ég bók Alexanders McCall Smith The Sunday Philosophy Club (mikil vonbrigði þar á ferð).

Kvikmyndir mánaðarins voru níu talsins. LOTR syrpan var eins og mig minnti afbragðsskemmtun, The Gods Must Be Crazy var mjög fyndin og Ray góð. Aftur á móti var myndin Paris when it sizzles með Audrey Hepburn langdregin og leiðinleg og sama má segja um mynd indversku leikstýrunnar Miru Nair, Kama Sutra: A Tale of Love. Má ég þá frekar biðja um að horfa aftur á Brother Bear, hún var þó fyndin.

Núnú, af fleiri afrekum mánaðarins má nefna að við komumst klakklaust frá föstudeginum þrettánda, mér tókst að ljúka ritgerð og skila henni af mér, ég lagðist í hýði og slasaði mig í svefni, ofkynti heimili mitt og fór í afmælisboð, fékk brenndar möndlur með kanil á Købmagergade og fór í innflutningspartý í Svíþjóð.

Þegar ég lít yfir farin veg sé ég hversu miklu ég kom í raun í verk, þrátt fyrir allt! Lifa í sjálfsblekkingu? Nei, öldungis ekki - sjá hlutina í réttu ljósi öllu heldur :0)

mánudagur, 30. janúar 2006

Af samkvæmislífi Hafnarstúdenta

Í gær yfirgáfum við Sjáland enn á ný ásamt helgargestinum. Að þessu sinni var ferðinni heitið út á Amager að heimsækja froskaheimilið og var sem endranær glatt á hjalla. Á meðan á heimsókninni stóð náðist þessi líka frábæra mynd af okkur félögunum.

Að lokinni skemmtilegri heimsókn og nokkurri tedrykkju var kominn tími á kaffiboð annars staðar í bænum, hjá Einari og Margréti. Kaffiboðið var í raun nokkurs konar upphitunarpartí fyrir kvöldið því hópurinn sem mættur var átti pantað borð á veitingastaðnum Italiano sem staðsettur er milli Jórukleifar og Jómfrúarkirkju. Góður matur, mikið fjör og öll þjónusta á ítölsku.

Nú er Heiddi farinn í lest til Uppsala á vit örlaganna og auðvitað sambýlismanns síns. Við erum að hugsa um að elta hann þangað en ætli við gefum honum ekki svona tveggja til þriggja mánaða forskot. Annars er aldrei að vita, við erum óútreiknanleg.

sunnudagur, 29. janúar 2006

Ógeðslega skemmtilegur dagur

Það er ekki hægt að segja annað en að gærdagurinn hafi verið ógeðslega skemmtilegur. Dagur sem byrjar á nýpressuðum safa úr eplum, appelsínum, gulrótum, sítrónum og engifer getur enda ekki orðið annað en frábær. Við buðum sem sagt gestinum upp á nýpressaðan Gleðigjafa úr Sollubók með morgunverðarhlaðborðinu áður en haldið var út úr húsi.

Eftir morgunmat kíktum við á Sívalaturn (Rundetårn) þar sem við hittum vinafólk Heiðars. Fyrir utan turninn var verið að selja brenndar möndlur og Baldur var svo sætur að muna eftir því að ég ætti þær inni. Ég var búin að bíða lengi eftir þessu og varð ekki fyrir vonbrigðum. Þær voru æði!


Úr Sívalaturni var frábært útsýni yfir borgina og heiðskír himinn spillti ekki fyrir. Baldur las upphátt um Sívalaturn úr Kaupmannahafnar-bókinni okkur hinum til mikillar skemmtunar enda minni hann helst á prest að messa yfir börnum sínum þegar hann stautaði sig úr latneskum frösum á borð við regna firmat pietas eða guðsótti styrkir þjóðríkin. Þess ber að geta að orðin er að finna utan á turninum og voru kjörorð Kristjáns IV konungs, en hann var einmitt sá sem átti hugmyndina að byggingu turnsins.

Kuldinn rak okkur fljótlega aftur niður á jörðina í leit að stað til að verma hendur og tær. Við enduðum á Diamanten, litlu kaffihúsi við Gammel Strand, þar sem við pöntuðum okkur ógeðslega góða samloku með buffala mozzarellu.

Við kvöddum síðan samferðarfólkið og héldum þrjú leið okkar yfir til Nørreport þaðan sem við tókum lestina yfir til Malmö til að komast í innflutningspartý hjá Tati. Við komum við í gjafabúð á lestarstöðinni í Malmö og keyptum hreindýr á ísskápinn í innflutningsgjöf sem hitti í mark hjá gestgjafanum.

Partýið var í stuttu máli svona: fengum ógeðslega góðar innbakaðar, júgóslavneskar grænmetisbökur með spínati og kotasælu og líka fullt af ólívum og fetaostsalati, smökkuðum þurrsteiktan maís, spjölluðum við sænska stelpu og breskan kærasta hennar um tangó og bosníska stelpu um Indland. Blönduðum dönsku og sænsku út í eitt en áttum erfitt með að átta okkur á króatískunni. Þrjátíu manns á 20 fermetrum - þröngt mega sáttir sitja.

Við urðum að yfirgefa gleðskapinn upp úr eitt til að ná lestinni heim. Þar sem leigubíllinn sem við pöntuðum lét aldrei sjá sig húkkuðum við þann næsta sem átti leið hjá. Leigubílstjórinn sá útskýrði fyrir okkur að hann hefði verið á leiðinni að ná í annan farþega en ákveðið að taka okkur upp í í staðinn. Ef allir leigubílsstjórar í Malmö haga sér svona er það engin ráðgáta lengur hvað varð um leigubílinn sem við pöntuðum.

Í lestinni á leiðinni heim ræddum við síðan um stjörnurnar, sólkerfin og vetrarbrautirnar. Við spöruðum okkur líka fargjaldið í næturvagninn þar sem maskínan fyrir klippikortin var biluð. Það var ógeðslega skemmtilegt.

föstudagur, 27. janúar 2006

Kempa í Köben

Í dag fórum við út á Kastrup flugvöll með miða sem á stóð: Ron Jeremy. Með hann á lofti gengum við í humátt að þeim stað sem fólk kemur inn í landið. Ekki þurftum við að ganga lengi í humátt því fljótlega kom að máli við okkur maður sem virtist hlýða þessu nafni.

Sem betur fer var þetta ekki Ron Jeremy sjálfur heldur Heiðar Þór Þrastarson atvinnumaður í eðlisfræðilegri knattspyrnu í úrvalsdeild Uppsala. Til marks um gæðakröfur deildarinnar þá held ég t.d. að Robby Fowler hafi verið meinaður aðgangur í hana. Jamm, Heiddi vinur er semsagt mættur á svæðið og verður hjá okkur um helgina.

Örbylgjukúrinn

Í gær fórum við í frábærar afmælisveislur á heimili froskanna. Í afmælisveislur fer maður að sjálfsögðu með pakka og var pakkinn að þessu sinni í þyngri kantinum, örbylgjuofn. Það er nú ekki mikið mál að fara með svona ofn á milli heimila þegar strætó stoppar beint fyrir utan á báðum stöðum. Eða hvað?

Ferðalagið reyndist hið mesta ævintýri þar sem strætisvagnabílstjórar flestra akstursleiða voru í verkfalli þennan dag. Afleiðingarnar voru þær að ég hlaut hörkuþolþjálfun sem kölluð er örbylgjubrennsla og er fólgin í þrekæfingum með áðurnefnt heimilistæki.

Þegar áfangastað var náð eftir nokkra göngu, tvær lestir og enn frekari göngu tóku á móti okkur fagnandi froskar og afmælisgestir. Glatt var á hjalla og ég réðist samviskulaus á norsku rúllutertuna, muffurnar og ísinn þar sem ígildi þeirra hafði sannarlega bráðnað af mér á leiðinni. Örbylgjukúrnum var formlega lokið.

fimmtudagur, 26. janúar 2006

Tölfræðin að baki

Í dag tók ég munnlegt próf í tölfræði. Ekki hef ég áður tekið munnlegt próf í talnafagi en einhvern tímann er allt fyrst. Prófið samanstóð af tveimur spurningum sem ég átti að svara og ræða við prófdómarana í tuttugu mínútur.

Að prófi loknu var ég svo sendur fram á gang meðan prófdómarar réðu sínum ráðum. Það tók þá fimm mínútur að sammælast um niðurstöðu og að mínu mati er það helsti kostur munnlegra prófa framyfir skrifleg því fimm mínútur eru þægilegri biðtími en fimm vikur.

En eins og vanalega þá ræði ég þetta ekki frekar, aðalatriðið er að prófið skuli vera að baki og að það gekk vel.

Töfrar hversdagsins

Þar sem við eigum von á góðum gesti á morgun hefur dagurinn farið í ofurhreingerningar. Fyrir utan allar hefðbundnar hreingerningar er ég búin að liggja yfir baðherbergisvaskinum og afkalka hann, endurraða í baðherbergisskápinn, endurraða DVD diskunum, viðra sófann, snyrta plönturnar og berja motturnar úti á svölum. Nú á Baldur bara eftir að skúra og þá mun stirna á íbúðina.

Veðrið er vægast sagt frábært: heiðskír himinn og heitt sólskin flæðir inn um suðurgluggann og vermir stofuna. Það drýpur af öllum klakanum og grýlukertin í gluggapóstinum eru óðum að hverfa.

Svo er afmæliskaffi hjá froskunum í eftirmiðdaginn og pabbi á afmæli í dag - þrefaldar afmæliskveðjur!

miðvikudagur, 25. janúar 2006

Tappatogarinn

Í gærkvöldi um hálftíuleytið var bankað á útidyrahurðina. Við áttum svo sem ekki von á neinum, sátum bara í sakleysi okkar og kjömsuðum á kúskúsi sem Ásdís hafði galdrað fram. Ég arka til dyranna eins og ég var klæddur (með svuntu) og er það þá gaurinn í íbúðinni fyrir ofan að biðja um tappatogara. Hann var pínuhissa að sjá mig svona með svuntu og spurði hvort ég væri að elda. Ég kvað að svo væri ekki og jókst þá undrunin í svipnum en málið var ekki rætt frekar.

Nokkuð skondið að hann skyldi banka uppá hjá okkur þar sem við erum sennilega eina fólkið í húsinu sem bragðar ekki áfengi. En jújú við áttum tappatogara og glaðnaði heldur betur yfir kauða.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við erum beðin um tappatogara því þegar við bjuggum á Eggertsgötunni var nokkrum sinnum bankað uppá og spurt eftir tappatogara. Tappatogari bjó ekki hjá okkur þá en við fundum hann hér í nágrenninu þegar við vorum nýflutt og spauguðum með það að nú værum við undirbúin ef einhver bæði um tappatogara. Og viti menn...

þriðjudagur, 24. janúar 2006

Angantínusarheimt

Þetta er mynd af órangútan unga. Þetta er þó ekki hvaða órangútan ungi sem er heldur er þetta hann Angantínus. Svo er mál með vexti að við mamma vorum fyrir mörgum árum að æfa okkur að setja upp heimasíður og notuðum óspart þessa mynd á allar síðurnar. Við nefndum hann líka Angantínus.

Í dag rakst ég svo á þessa mynd fyrir tilviljun og hafði þá í smá tíma verið að velta því fyrir mér hvort og þá hvar ég hefði vistað hana. Nú þarf ég hins vegar ekki á þeim hausverki að halda lengur, nú er hún komin á heimasíðuna þar sem ég ætti að geta nálgast hana ef þess gerist þörf.

Baldur segir að myndin sé af mér á fallegum morgni og mamma kallar mig Angantínus - og þá veit ég ekki hvert heimurinn er að fara.

mánudagur, 23. janúar 2006

Gróðurhúsaáhrif heimilisins

Í kuldakastinu sem hefur staðið yfir undanfarna daga höfum við kynt íbúðina vel og rækilega. Svo kom í ljós að við höfum jafnvel verið að kunda of vel og rækilega.

Um daginn skrúfuðum við fyrir ofnana tvo um tvö leytið í stað tíu að kvöldi og kom það ekki að sök, síður en svo. Hitinn hélst inni í íbúðinni svo okkur varð ekki kalt og auk þess var ekki miðjarðarhafsloftslag í svefnherberginu þegar við tygjuðum okkur í háttinn. Það mætti því segja að við höfum verið að ofhita íbúðina undanfarin misseri, nágrannanum fyrir ofan eflaust til mikillar ánægju. Megi hann hafa notið gólfhitans meðan hann varði.

Þessi uppgötvun minnti mig á skemmtilegan fróðleiksmola sem ég heyrði þegar ég var á Grænlandi. Þar kynda heimamenn híbýli sín víst upp úr öllu valdi til þess að geta valsað um innanhúss á nærfötunum einum fata. Ég vona bara að þessi árátta þeirra flýti ekki fyrir bráðnum Grænlandsjökuls.

laugardagur, 21. janúar 2006

Andvaka

Í nótt lágum við Ásdís andvaka. Fyrst var mér of kalt og þá hnipraði ég mig undir sænginni með aukateppi. Eftir smástund af slíku kúri varð mér skyndilega sjóðandi heitt svo ég henti öllu aukadóti á gólfið, breiddi sæmilega úr mér og gerði slakandi öndunaræfingar með slæmum árangri.

Á þessum tímapunkti taldi ég að mér væri ekki ætlað að sofna strax og reyndist það rétt. Í heila eilífð glumdi um íbúðina brjálæðislegur vélarhávaði en það var snjómokstursdeild kommúnunnar að hreinsa hjá okkur portið, sætt af þeim. Svo fór þó að látunum linnti um síðir og ég gat ekki lengur kennt bæjarstarfsmönnum um eitt né neitt.

Þá er bara að finna eitthvað annað. Já einmitt! Það er of bjart hérna, sennilega er það snjórinn, voðalega er mikil umferð... Svona hélt ég áfram í dágóða stund og svo vissi ég allt í einu ekkert af mér fyrr en klukkan hringdi í morgun.

Ég hafði heldur betur steinsofnað, svaf ótrúlega vel og dreymdi helling af skemmtilegum og léttsteiktum draumum. Það er hreint ekki svo slæmt að liggja andvaka stöku sinnum, það er bara góð leið til að kenna manni að meta svefninn betur.

föstudagur, 20. janúar 2006

Krypplingurinn í Kaupmannahöfn

Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa góða heilsu. Mér verður sjaldan misdægurt og hef lent í fáum óhöppum. Í vikunni tókst mér þó á undraverðan hátt að slasa mig í svefni. Já, í svefni!

Ég var að beygja hálsinn aftur þegar ég vakna við sársaukabylgju sem fór um hálsinn og alla vinstri öxl. Í fyrstu gat ég hvorki hreyft legg né lið af sársauka og þó gat ég ekki legið eins og ég var því það var of sárt. Eftir að hafa yfirfarið líkamann og komist að því að ég gat enn hreyft tær og fingur vakti ég Baldur og sagði honum tíðindin: Ég er slösuð. Hann skipaði mér að liggja fyrir með hitateppi og hitakrem - mér varð frekar heitt.

Í fyrstu gat ég ekki hreyft höfuðið og ég komst ekki fram úr rúminu af sjálfsdáðum. Mér batnaði þó hratt og gat stigið fram úr rúminu seinna um daginn. Göngulagið var hins vegar mjög skrítið, ég minnti helst á hringjarann frá Notre Dame. Það vakti mikla kátínu og hlátur hjá sambýlismanninum en ég varð að binda enda á öll hlátrasköll því þau sendu hverja sársaukabylgjuna á fætur annarri niður hálsinn og öxlina.

Daginn eftir var ég síðan orðin ansi góð og í gærkvöldi gat ég loksins gert jóga, ég komst meira að segja í axlastöðuna og hálsinn er í góðu lagi.

Í dag er ég aftur komin í hlutverk Quasimodos en í þetta sinn var ég undir það búin. Eftir átök á æfingu gærdagsins bjóst ég fastlega við harðsperrum og þær létu ekki á sér standa. Ég komst varla fram úr rúminu í morgun, skjögraði inn í eldhús tinandi eins og gamalmenni en skjögraði síðan aftur upp í rúm.

Ég get varla staðið upprétt, get ómögulega gert jóga og síst af öllu axlarstöðuna. Og samt er ég glöð og kát því ég er heilsuhraust, Guði sé lof fyrir það.

fimmtudagur, 19. janúar 2006

Lögst í hýði

Undanfarna tvo daga má segja að ég hafi legið í hýði. Það er búið að vera frekar kalt utandyra en hlýtt innandyra og auk þess eru búrskápar fullir af mat svo ég hef ekki haft erindi út fyrir hússins dyr.

Við kíktum reyndar í ræktina í dag þrátt fyrir kuldann og þar lenti ég í því að hætta mér varla undir bununa því hún var svo afskaplega heit og hvergi hægt að stilla hitann. Ég var farin að sjá fram á að þurfa halda heim á leið með hárnæringuna enn í hárinu - það kom þó ekki til þess.

Á leiðinni heim úr ræktinni var byrjað að fenna lítillega og nú er allt undir nokkurra sentímetra snjólagi. Snjórinn dempar umferðarhljóðin og milljónfaldar birtumagnið en ég ætla samt að halda mig innandyra, taka þátt í Desperate Housewives maraþoni og helst frysta myndina þegar Mike Delfino bregður fyrir á skjánum.

Já, mikið væri gott að leggjast í vetrardvala eins og múmínálfarnir sem fylla magann af barrnálum og leggjast svo til svefns. Ég gæti alveg hugsað mér það, það er bara verst hvað mér finnast barrnálar beiskar á bragðið.

þriðjudagur, 17. janúar 2006

Í fréttum er þetta helst...

Ég skilaði stóru janúarritgerðinni í dag, þessari sem ég ætla að vinna einn af kenningarköflum MA ritgerðarinnar uppúr. Þar sem ég kem til með að fjalla um kenningar um félagsleg tengslanet innflytjenda í MA ritgerðinni ákvað ég að það skyldi einnig vera viðfangsefni þessarar ritgerðar.

Ritgerðin er hvorki meira né minna en 20 alþjóðlegar einingar en það samsvarar 10 einingum við HÍ. Vinnan sem fór í hana jafnaðist þó hvergi á við tíu eininga vinnu þó svo ég hafi unnið fram á nótt við að leggja lokahönd á hana. Ég er því annað hvort í djúpum skít eða einingahimnaríki, allt eftir því hvort ég nái eða ekki.

Ég þarf þó ekki að hafa áhyggjur af því í bili, niðurstöður koma ekki í hús fyrr en eftir 2-3 vikur. Ég hugsa því að ég verðlauni mig með því að slappa af yfir myndinni The Gods Must Be Crazy í kvöld. Það er reyndar orðið svolítið síðan ég sá hana síðast en ef ég man rétt þá var á henni ákveðinn Charlie Chaplin ljómi sem ég stenst engan veginn.

sunnudagur, 15. janúar 2006

Sumarljós í skammdeginu

Þessa dagana sit ég og les fyrir eitt stykki upptökupróf. Ekki hef ég þó varið öllum mínum stundum í skólabækur því í allt of stuttan tíma átti hug minn allan bókin Sumarljós, en svo kemur nóttin eftir Jón Kalman Stefánsson.

Ekki vil ég skemma neitt fyrir þeim sem eiga eftir að lesa hana með óþarfa útlistunum, en læt það hins vegar uppi að ég lagði bókina varla frá mér, þótti verst að hún væri búin og að ég ætla að lesa meira eftir Jón Kalman við fyrsta hentugleika.

laugardagur, 14. janúar 2006

Hvolfgangnabruninn

Er að hlusta á diskinn Funeral með hljómsveitinni The Arcade Fire. Kynntist þessari hljómsveit í heimsókn á heimili Froskanna og þykir mér hún alveg stórmerkileg. Stíllinn er í þeim dúr að erfitt er að lýsa með orðum. Lögin eru margslungin, skipta um grunntakt og stef eftir köflum, söngurinn er líka skemmtilegur. Mæli með því að sem flestir tékki á þessu bandi.

föstudagur, 13. janúar 2006

Alvöru þrettándi

Það er föstudagurinn þrettándi í dag ef þið skilduð ekki hafa gefið því gaum. Mér finnst þessi dagur vera meira ekta en þrettándinn sem alltaf ber upp á þeim sjötta - hvers konar þrettándi er það?

Ef eitthvert ykkar er meira en hjátrúarfullt á þessum degi, þ.e. ef hjátrúin jaðrar við að vera hreinn og beinn ótti við daginn - og þá einkum töluna 13 - þá getið þið glaðst yfir því að þið eruð ekki ein um þennan ótta. Þið eruð haldin því sem kallast paraskevidekatriaphobia.

Þegar þið hafið náð fullri færni við að bera orðið fram eruð þið orðin albata. Svo einfalt er það.

Skúra, skrúbba, bóna

Fyrsta hreingerning ársins fór fram í gær. Hún var í hefðbundnum dúr: ryki sópað saman - út með það!, vaskað upp, skipt á rúminu, þvottur brotinn saman, óhreina tauið flokkað og gert klárt til þvottar.

Ég tók meira að segja til í skápnum mínum og fann þar ýmsar gjafir sem ekki má gleyma inn í skáp. Það má því segja að nokkrar gjafir hafi komið út úr skápnum í gær.

Nú þarf ég svo að halda áfram þar sem frá var horfið í gær, þ.e. að hendast niður í þvottahús og svo væri ekki úr vegi að skrifa eins og þrjár blaðsíður í ritgerðinni sem ég á að skila þriðjudaginn næsta. Nóg að gera, seisei já.

fimmtudagur, 12. janúar 2006

12. janúar

Í tilefni dagsins langar mig að doka við, hugsa um liðna tíð og verma mér á góðum minningum. Þennan dag fyrir þremur árum vorum við Ásdís ásamt fullt af góðu fólki í hörkupartíi á Skuggabarnum. Allir voru þarna samankomnir til að fagna stórafmæli frábærrar konu.

Veislan fór vel fram og var heldur betur líf í tuskunum, mikið hlegið og mikið kjaftað. Margt var rifjað upp og mátti glögglega sjá að góð manneskja eignast marga vini á 75 árum. Ræður voru haldnar og meira að segja samið lag í tilefni dagsins og frumflutt á staðnum. Þegar veislan var búin hélt svo hver í sína átt með bros á vör.

Afmælisbarnið er Stella Sigurleifsdóttir og var hún amma mín. Það er ekki annað hægt en að hlýna um hjartarætur þegar maður vermir sér á öllum minningunum og vera þakklátur fyrir allt saman.

Draumamaðurinn George Clooney

Ég hef víst viðurkennt á þessum vef að finnast George Clooney sjarmerandi að einhverju leyti. Ég vissi þó ekki hversu djúpstæðar tilfinningar mínar í hans garð væru.

Draumur minn í nótt var á þessa leið: Ég frétti af því að George Clooney væri látinn og ég varð hamstola af sorg, óhuggandi, grét út í eitt alla nóttina. Sárast fannst mér að vita til þess að fá þessar fréttir svona seint, hann hafði nefnilega verið látinn í einhvern tíma og enginn hafði sagt mér frá því! Ég grét enn sárar við þá tilhugsun.

Vissulega hefur maðurinn sjarma en mér datt ekki í hug að mér væri svona umhugað um hann.

Leggur einhver í draumaráðningu?

miðvikudagur, 11. janúar 2006

Lífsraunir

Á afmælidaginn minn var Baldur svo sætur að hunsa bann mitt við að gefa mér afmælisgjöf og færa mér David Attenborough seríuna Dyrelivets Trængsler: Den komplette TV-serie fra BBC.

Undanfarin tvö mánudagskvöld höfum við síðan kúrt okkur yfir tveimur fyrstu þáttum seríunnar og orðið margs vísar. Eða vissuð þið kannski að einhver bjöllutegund í einhverju landi einhverstaðar langt í burtu nær að fjölga sér með því að nokkrar fórnfúsar lirfur skipta sér upp í þrjátíu einstaklinga?

Eða að einhver flugutegund út í heimi notar hinn fullkomna stað til að verpa eggum sínum, þ.e. inn í lirfu sem síðan nokkrum dögum síðar er étin lifandi innanfrá af afkvæmunum sem eru að klekjst út?

Trúið mér, nú veit ég hvaðan rithöfundar fá hugmyndir fyrir vísindaskáldskap sinn. Ég mæli hiklaust með þessari seríu en þó ekki með nasli meðan á áhorfi stendur, það gæti orðið subbulegt.

þriðjudagur, 10. janúar 2006

Koddahjal

Það er alltaf jafn notalegt að skríða upp í rúm að loknum degi, teygja úr sér og vita að nú megi maður sofa eins lengi og maður vill - alveg þar til vekjaraklukkan hringir.

Koddahjalið er ein hlið háttatímans sem er yfirleitt afskaplega notaleg stund þar sem farið er yfir daginn, komandi dagar skipulagðir og fleira hefðbundið í þeim dúr.

Svo má líka hjala um eitthvað óhefðbundið eins og gær þegar við lágum undir sæng hjalandi um nágrannann í íbúðinni fyrir neðan okkar. Við veltum því fyrir okkur hvort hann væri sérvitur námsmaður, atvinnulaus, tölvuleikjafíkill, eiturlyfjaneytandi, eiturlyfjasali... Við komust allavega að þeirri niðurstöðu að hann er sóðalegur hávaðabelgur.

Honum er þó ekki alls varnað, hann sá t.d. um bakgrunnstónlistina fyrir koddahjalið: drunur úr óþekktri mynd, óp og köll leikara myndarinnar og síðast en ekki síst einhvers konar þungarokkar. Þetta ruggaði okkur svo í svefn eins og besta vögguvísa.

Við erum farin að venjast stórborgarlífinu.

laugardagur, 7. janúar 2006

Sérvitur bókaormur

Ég viðurkenni það hér með og horfist í augu við sannleikann: ég er sérdeilis skrýtinn lesandi.

Frá því ég fór að lesa eitthvað af viti, þ.e. á unglingsárunum, hefur ákveðin tilhneiging fylgt mér. Þessi tilhneiging lýsir sér í því að ef einhver í sögunni er að gæða sér á einhverju (sem ég veit af fenginni reynslu að er ætt) þá langar mig í slíkt hið sama - núna.

Þetta gerist svo oft að þegar ég segi Baldri að mig langi í þetta eða hitt matarkyns spyr hann mig að bragði hvort einhver í bókinni sé að fá sér svoleiðis.

Nokkur dæmi máli mínu (og sérvisku) til stuðnings:

Þegar ég horfði á teiknimyndirnar um Heidi í Ölpunum, sem voru að mig minnir á fimmtudögum á RÚV, gladdist ég alltaf mjög þegar í matinn var hrísgrjónagrautur það sama kvöld, það líktist nefnilega svo þessum graut sem Heidi og félagar fengu frá afanum í litla fjallakofanum.

Þegar ég las bækur Jane M. Auel um Aylu var ég alltaf að biðja mömmu að útbúa einhvers konar pottrétt/gúllas því það var sá réttur sem mér fannst helst líkjast þeirri matargerð sem lýst er í bókunum.

Þegar ég las Minningar geisju hans Arthur Goldens var ég alltaf með skál af soðnum, hvítum hrísgrjónum og sojasósu mér við hlið.

Og nýjasta dæmið er frá því í gær. Ég var þá nýlega byrjuð á Angela's Ashes hans Frank McCourt þar sem lýst er mikilli fátækt og sult á Írlandi þriðja og fjórða áratugar 19. aldar. Nema hvað, eitthvað hlaut Frank McCourt að borða til að lifa það að verða rithöfundur: soðnar og stappaðar kartöflur með smjöri og salti. Ég beint inn í eldhús, kartöflur bubbla í potti og áður en ég veit af er ég farin að gæða mér á stöppunni.

Ég kýs að líta svo á að ég lifi mig inn í söguna, Baldri finnst ég bara skrýtin.

fimmtudagur, 5. janúar 2006

Anna kanna

Þeir sem þekkja okkur Ásdísi vita flestir að báðum þykir okkur vatnssopinn góður. Hins vegar hefur okkur þótt sopinn hér í Köben helst til kalkaður og ákváðum við að grennslast fyrir um hvað hægt væri að gera við slíku. Flest benti til þess að einhvers konar síubúnaður væri óhjákvæmilegur.

Eftir svolitla leit gengum við inn í verslunina Helsemin á Strikinu og vorum meira að segja afgreidd á íslensku, mjög þægilegt. Búðin sú selur könnu sem heitir Anna og er með útskiptanlegri síu sem þarf að skipta um á u.þ.b. mánaðarfresti. Eini gallinn var sá að Anna var uppseld.

Í gær hringdi ég svo í búðina og viti menn Anna var komin í hús. Ég rauk að sjálfsögðu til og keypti hana og nú er hún komin heim og farin að sía vatn fyrir okkur og það er sko allt annað líf!

þriðjudagur, 3. janúar 2006

Það sem af er ári

Árið 2006 hóf göngu sína afskaplega vel. Það byrjaði að sjálfsögðu í nýárspartýinu góða sem við yfirgáfum ekki fyrr en undir morgun. Þar sem við vorum svo seint á ferð var næturvagninn okkar N81 hættur að ganga en dagvagninn okkar 5A ekki byrjaður að ganga. Við urðum því að fara krókaleið heim.

Við gengum út í Amagerbro st til að taka M2 metróleiðina til Nørreport st. Margir voru á ferli, svo margir raunar að það hefði allt eins getað verið síðla dags og fólk á þönum eftir vinnudaginn. Þegar við rúlluðum niður í metróið urðum við síðan enn meira undrandi, þar var urmull af fólki á leið sinni heim á nýju ári.

Á þeim stutta tíma sem við þurftum að bíða eftir M2 tókst mér að ná mynd af nýárskveðju til farþega sem birtist á öllum tímatöflum metrósins. Ósköp fannst mér þetta huggó og danskt.

Frá Nørreport st tókum við síðan s-toget til Ryparken og enn annað s-tog til að bera okkur síðasta legginn af leiðinni að Nørrebro. Þaðan röltum við síðan heim, sátt við hve þessi krókaleið hafði mikinn ævintýraljóma yfir sér.

Nýársdag löguðum við síðan kraftmikla cous-cous súpu með harrissu til að byrja árið af krafti. Við leigðum einnig alla Hringadróttinssögu eins og hún leggur sig og horfðum á hana næstu tvo daga. Við höfðum einmitt einsett okkur að rifja upp kynni okkar af henni á nýju ári svo nú getum við með góðri samvisku strax strikað út eitt atriði af Gátlista Ásdísar & Baldurs 2006.

Það er því ekkert nema gott að segja um það sem af er ári.

sunnudagur, 1. janúar 2006

Gleðilegt nýtt ár 2006!

Þá er nýtt ár gengið í garð hér í Danaveldi en hins vegar eru enn tíu mínútur í það heima á klaka. Því óska ég ástvinum nær og fjær gleðilegs nýs árs og þakka fyrir þau gömlu og góðu.

Við erum hér í nýárspartýi hjá froskum í góðum félagsskap, búin að snæða lax og sjóbirting, steikta sveppi og tofuís svo fátt eitt sé nefnt. Upp úr miðnætti var síðan skálað og þust út á svalir til að fylgjast með hvernig Daninn hagar sínum rakettumálum. Þeir virðast ekkert vera að flýta sér að sprengja allt upp á slaginu eins og gert er heima og það fékk mig til að hugsa: Eina skiptið sem Íslendingar eru stundvísir er á áramótum, þegar bomban á helst að springa þegar sekúndan tikkar úr 23:59:59 yfir í miðnætti.

Danir sprengdu hins vegar alveg nóg fyrir minn smekk en virðast haga því öðruvísi, dreifa bombunum yfir lengri tíma og eru að sprengja jafnt og þétt frá miðnætti og fram til hálf eitt en hins vegar fer ekki mikið fyrir sprengjum fyrir miðnætti.

Læt þessa skýrslu duga, verð að fara að fylgjast með töfrabrögðum og svo er tal um að dansa zorba. Djeddjað!