Það tilkynnist hér með að ég kláraði ekki eina einustu bók í mars. Ég gluggaði vissulega í margar en hafði ekki eirð í mér til að sitja lengi við og lesa þær spjaldanna á milli. Reyndar kláraði ég eina bók, The Red Queen sem ég talaði um í síðasta mánaðarannál, en það er eiginlega hálfgert svindl að tala um sömu bókina í tveimur annálum, ég hleyp því yfir það.
Ég var ekki nærri því eins áhugalaus um kvikmyndir eins og um bækur og hafði ég alveg næga eirð í mér til að horfa á nokkrar þeirra (þær eru mun fljótar afgreiddar en bækur). Tvær myndir sá ég sem ég hef lengi verið á leiðinni að kíkja á: Magnoliu og Festen. Þá síðarnefndu hef ég verið á leiðinni að sjá alveg síðan við Baldur sáum uppfærslu á Veislunni í Þjóðleikhúsinu hér um árið. Þrælgóð mynd sem ég sé nú að Þjóðleikhúsinum hefur vel tekist að koma til skila.
Svo má ekki gleyma sjónvarpsefni sem ég hef mjög lengi ætlað að kíkja á og var hvað spenntust fyrir, það er Pride & Predjudice þáttaröðinni. Hún var alveg frábær, og þó mér hafi ekki tekist að fara eftir hernaðaráætlun minni og gera þættina að lærdómsgulrót, naut ég þess bara betur að horfa á þá í einni bendu.
Af öðru efni má nefna að ég horfði á myndirnar Pi og Mansfield Park, seinni seríuna af Riget og síðustu þættina af Nikolaj & Julie. Ágætt efni en afskaplega ólíkt.
Mánuðurinn var góður í alla staði og er því sama hvar drepið er niður. Það sem ber þó óneitanlega hæst er að ég byrjaði formlega á MA verkefninu mínu og beitti til þess mikilli talnasálfræði. Það merkilega við þessa tilraun er að hún tókst svona glimrandi vel, áður en ég vissi af var ég farin að lesa greinar og vinna að kaflaskrifum án þess að þurfa að snúa upp á handlegginn á sjálfri mér.
Annað ekki síður merkilegt er að við skötuhjú tókum okkur til og gerðumst meðlimir að Kaupmannahafnardeild AIESEC. Við byrjuðum á því að kíkja á kynningarfund hjá þeim og enduðum á því að skrá okkur í workshop á þeirra vegum sem við síðan sóttum einn góðan laugardag. Sá dagur var afspyrnu skemmtilegur enda nett lið á ferðinni. Nú erum við að tala saman sykurpúði!
Það sem telst til ómerkilegri atburða en ekki síður áhugaverðra er að ég lét undan alfræðiorðabókaunnandanum í mér og reyndi fyrir mér í alfræðiorðabókaskrifum, við Baldur gengum tímabundið í hlutverk Holmes og Watsonar, ég uppgötvaði að ég get hlustað á Bowie, varð síðan kvebbin og fór að þrá betri tíð með blóm í haga. Þá lærði ég að snúa lyklinum í rétta átt á nokkrum hurðum hússins, fann upp nýja upphrópun og hellti í fyrsta sinn upp á kaffi í hellukönnu.
Eins og sjá má á myndunum fyrir neðan bakaði ég líka pönnsur og það meira að segja tvisvar!
Svo stolt af pönnsunum og glöggir lesendur taka eftir Dannebrog.
Hvor er eiginlega sætari - Baldur broskall eða Pannsa broskelling?