sunnudagur, 30. apríl 2006

Aprílannáll

Það er komið að samantekt mánaðarins. Ég held mig við það form sem annálarnir hafa tekið síðustu þrjú skiptin, þ.e. byrja að tíunda fréttir úr heimi bókmennta og kvikmynda og tek síðan fyrir hnitmiðaða upprifjun á helstu atburðum. Hljómar þetta ekki ábúðarfullt? Ég ætla rétt að vona það.

Mér tókst að ljúka við þrjár bækur í apríl og er nokkuð sátt við þá frammistöðu, einkum ef ég ber hana saman við marsmánuð með sína einu bók. Ég las Himnaför eins og ég hef þegar greint frá og hafði gaman af. Sú ánægja var ekki síst tilkomin af gleðinni yfir að fá nýja bók sem maður tekur úr plastinu, les og kemur síðan haganlega fyrir í bókahillunni að lestri loknum.

Á bókasafninu fann ég stóran og mikinn doðrant sem mér leist dável á. Ég er nefnilega ein af þeim sem dæmir bækur mikið til eftir þykkt. Um var að ræða bókina All My Sisters eftir Judith Lennox, sögusviðið er England og Ceylon (nú Sri Lanka) fyrir, um og eftir fyrri heimsstyrjöld. Í stuttu máli sagt fjölskyldudrama með stóru F-i.

Þannig bækur höfða til mín svo strax og ég hafði lokið við söguna fór mín aftur á safnið og þefaði uppi næsta doðrant eftir sama höfund, Written on Glass. Sama sögusvið (fyrir utan Ceylon reyndar) nema önnur tímasetning: eftir seinni heimsstyrjöld. Þrátt fyrir að hafa notið þess að lesa þá bók líka held ég að ég segi það gott í bili af verkum frú Lennox, ég hef hreinlega ekki tíma til að lesa fleiri klumpa í andarblikinu.

Ég sá margar áhugaverðar kvikmyndir í apríl. Sumar hafði ég nú séð áður en vildi endilega kíkja á aftur, eins og t.d. hina óborganlegu Tilsammans, klassíkerinn Falling in Love og í veikindunum Lion King, hún læknar kramið hjarta og flensupest.

Þar sem þema mánaðarins var páskar í öllu sínu veldi tengdum við glápið inn á þá bylgjulengd og á Föstudaginn langa sáum við The Passion of the Christ og eins og áður var greint frá fór Charlie and the Chocolate Factory í tækið á páskadag sjálfan.

Af öðrum myndum má nefna hina furðulegu Napoleon Dynamite, Woodie Allen myndina Manhattan, óskarsverðlaunamyndina Crash og nýjasta uppáhaldið mitt: Corpse Bride. Svo munu tvær til viðbótar bætast á listann í kvöld: Million Dollar Baby og In her shoes.

Í almennri samantekt má nefna að mánuðurinn byrjaði á púkalátum sumra heimilismeðlima á alþjóðlegum degi prakkara þann 1. apríl. Ég lét það ekki mikið á mig fá og hélt ótrauð inn í það verk að byrja að greina viðtölin fyrir MA verkefnið mitt. Var til að byrja með á áætlun en er það hins vegar ekki lengur (gisp).

PG kom í heimsókn til Kaupmannahafnar og kíkti með okkur skötuhjú á veitingastaðinn Vesuvio við Rådhuspladsen þar sem við fengum ljúffengan ítalskan mat. Þá kíktum við Baldur á okkar fyrsta LC fund hjá UNIC og heyrðum af upplifun Rolfs af Indlandi, lentum í nágrannaerjum vegna þvottar, hittum Pétur & Valeryi á skírdag, þefuðum uppi páskahéra á páskadag og vörðum restinni af þeim degi með Stellu & Áslaugu Eddu.

Að lokum má nefna að við sóttum AIESEC ráðstefnu á Suður-Jótlandi, veiktumst og láum í sleni en héldum þó afmælisdaginn heilagann.

Hér að neðan eru síðan nokkrar myndir frá þessum viðburðaríka mánuði, njótið :0)

Lesið heima

Skriflegar nágrannaerjur

Afmælisdinner í öllu sínu veldi: borgarar og bakaðar kartöflur, namm

Matseðillinn meðan flensupestin var í heimsókn

föstudagur, 28. apríl 2006

Flensus

Það er ekki mikið að frétta af okkur skötuhjúum. Liggjum bæði fyrir með einhverja flensupest. Höfum varið lunganum úr deginum sofandi, þess á milli nartandi í vítamínríka ávexti.

Baldur er með hita en ég er bara með slen. Ég veiktist nefnilega fyrr en Baldur eða meðan á AIESEC ráðstefnunni stóð. Þar fór ég að finna til óþæginda, það var eins og ég væri kvefuð og samt ekki. Ég hnerraði mjög mikið og mig klæjaði óstjórnlega í góminn og hef ég sterkar grunsemdir um að þetta séu ofnæmisviðbrögð.

Ég gleðst ekki beint yfir þessu, hingað til hef ég alveg verið laus við allt ofnæmi. En það gengur víst ekki að stinga hausnum í sandinn, ætli það sé ekki best að ég láti athuga þetta. Ó mig auma.

miðvikudagur, 26. apríl 2006

27 ára

Jæja þá er maður orðinn 27 ára. Síðustu dagana sem ég var 26 ára fann ég hvernig heilsu minni fjaraði rólega út og þegar dagurinn í dag rann upp var það komið á hreint, ég er orðinn heilsulaus. Það hefur flensa tekið bólfestu í mér og er hún eini afmælisgesturinn í dag. Þannig að í kvöld munum ég, Ásdís og flensan fá okkur eitthvað gott að borða saman.

Skemmst er frá því að segja að fyrir 13 árum hélt ég upp á fertugsafmælið mitt. Síðan þá hef ég öðlast kosningarétt, fengið bílpróf og margt fleira. Á hverju ári yngist töframaðurinn Merlin um eitt ár en ég virðist ekki lifa í tímaröð, hvorki afturábak né áfram. Ég kann ágætlega við það.

þriðjudagur, 25. apríl 2006

Rødgrød med fløde

Í gær hitti ég nýjan nágranna í stigaganginum. Tókum við spjall saman og komst ég að því mér til mikillar gleði að dönskunni minni hefur heldur betur farið fram. Fram til þessa hef ég álitið sjálfan mig nokkuð góðan en í dag talaði ég algerlega flydende án nokkurrar áreynslu.

Ég tel að annars vegar sé þrjósku minni fyrir að þakka því þeir Danir sem ég þekki eru helst til viljugir til að skipta yfir á ensku. Hitt úrslitaatriðið að mínu mati er AIESEC, en í gegnum samtökin hef ég eignast enn fleiri danska vini en áður og þarmeð enn fleiri tækifæri til að æfa mig í að tala þetta fallega tungumál.

mánudagur, 24. apríl 2006

AIESEC ráðstefnan

Þá erum við komin heim eftir heljarinnar ráðstefnu. Um var að ræða árlega AIESEC ráðstefnu fyrir öll LC í Danmörku sem þýðir að við fengum að hitta meginþorra AIESEC meðlima Danaveldis. Við tókum ráðstefnuna með svo miklu trukki að við komum heim hálfveik og erum í dag að jafna okkur. Og samt vorum við fólkið sem fór snemma í háttinn! Ekki skil ég hvernig hinir komust af með svona lítinn nætursvefn.

Stutta útgáfan: Skemmtum okkur ótrúúúlega vel, kynntumst svo mikið af frábæru fólki héðan og þaðan: Rúmeníu, Indlandi, Þýskalandi, Guatemala, Brasilíu, Kenía, Tælandi, Filippseyjum, Líbanon, Kína, Austurríki, Bólivíu, Pakistan, Ástralíu, Nýja Sjálandi, Póllandi, Víetnam og Malasíu. Auk þessa kynntumst við UNIC félögum okkar enn betur. Það var mikið dansað, mikið hlegið, mikið hlustað, mikið talað, mikið unnið, mikið hugsað, mikið íhugað, lítið sofið, lítið borðað.

Langa útgáfan: Ferðalagið á ráðstefnuna gekk vel. Við mættum afskaplega sybbin á Forum metróstöðina klukkan sjö á föstudagsmorgun og hittum þar fyrir tveggjahæða rútu, UNIC meðlimina og CBS meðlimina. Leiðin lá til bæjarins Kliplev í Åbenrå, nánar tiltekið var ráðstefnan haldin í Stevninghus sem eru skátabúðir.

Til að komast á áfangastað þurftum við að keyra þvert yfir Sjáland og yfir Storebæltsbroen til að komast á Fjón. Ökuferðin yfir brúnna tekur um 20 mínútur og ekkert nema haf og sjóndeildarhring að sjá. Komið var við í Óðinvéum til að ná í fleiri AIESEC meðlimi en einnig til að leyfa okkur hinum að teygja úr okkur og anda að okkur fersku Odense lofti.

Stutt stopp í Óðinsvéum notað til að smella mynd af súperflottu rútunni okkar

Skjaldarmerki Óðinsvéa (höldum við)

Tíminn í rútunni var nýttur til að æfa nafnakall UNIC. Baldur hafði stungið upp á að við sýndum Tæ-kvon-dó æfingar og þar sem öllum leyst vel á það var ákveðið að æfa munstrin á stundinni. Hér má sjá Baldur kenna okkur hvernig maður blokkar með vinstri.

Þegar rútan renndi svo í hlað hjá Stevninghus var haldið með okkur beint inn í aðalfundasalinn og þar tók á móti okkur dynjandi tónlist, söngur og síðast en ekki síst dans. Að móttökuathöfninni lokinni tók við þétt dagskrá sem endaði í partýinu Global Village. UNIC meðlimir héldu þó ekki þangað fyrr en eftir eitt gott hópnudd.

Þemað á Global village í ár var frumskógurinn

Laugardagurinn hófst á því að hlusta á hvatningarræðu Derek Small. Honum finnst gott að láta hlustendur sína gera líkamsæfingar til að koma boðskap sínum á framfæri og þar sem hann vildi fá sterkan og stæðilegan sjálfboðaliða á svið var Baldur kallaður fram. Hann stóð sig síðan svona líka vel og gott ef gestir ráðstefnunnar hafi ekki fengið að heyra hann öskra á okkar ástkæra ylhýra: Ég er sterkasti maður í heimi!

Eftir hvatningarræðuna deildust gestir ráðstefnunnar niður í ólíka hópa. Þar sem við Baldur erum að hugsa um að fara í starfsnám fórum við í Working abroad brautina. Í þeim hópi voru saman komnir allir þeir meðlimir AIESEC sem ætlar sér í starfsnám á næstu mánuðum auk þeirra sem nú þegar eru í starfsnámi í Danmörku.

Leiðbeinendur þessarar brautar, þeir Rolf og José, veittu okkur hagnýtar upplýsingar um hverju búast má við í starfsnáminu og hvernig best er að undirbúa sig. Þessum fróðleik komu þeir á framfæri m.a. með því að láta okkur spila Bafa Bafa leikinn, hann var afspyrnuskemmtilegur.

Stund milli stríða

Kanínan Eyrnaslapi

Geitin Esmeralde

Um kvöldið klæddu allir sig upp í sitt fínasta púss fyrir galakvöldverð og verðlaunaafhendingu. Það er gaman frá því að segja að UNIC vann verðlaunin Frumkvæði ársins.

Fríður UNIC hópur. Vinstri efri röð: Sigrid (nýkjörin LCP), Baldur, Christian (nýkjörinn VP), Sannah (VPX), Sarah (nýkjörin VP) og Michael. Vinstri neðri röð: Ásdís, Benedikte (nýkjörin VP), Maria (nýkjörin VPF), Nina (VPPD), Trine (LCP) og Maria. Á myndina vantar Laurence, Fernando, Kötju og Rolf.


Reuben ráðstefnustjóri, flaug frá Amsterdam til að vera viðstaddur ráðstefnuna

Trine tekur á móti Frumkvæði ársins verðlaununum, nokkur gleðitár fengu að fylgja þakkarræðunni :0)


UNIC meðlimir í Boat race drykkjukeppni, töpuðu fyrir liði CBS

Á sunnudeginum sóttum við fleiri málþing og fundi og nýttum svo frímínúturnar á milli til að skrifa svokallaða sykurmola til þeirra sem við höfðum kynnst á ráðstefnunni. Hver gestur ráðstefnunnar átti sitt umslag og þessum sykurmolum stakk maður í umslag viðkomand. Á löngu leiðinni heim var virkilega notalegt að kúra sig með umslagið sitt og veiða upp sykurmolana.

Baldur hripar nokkra sykurmola á blað

Indverski AIESEC dansinn (einn af mörgum)

Sykurmolum laumað í umslög

Smáhesturinn Sleipnir

Baldur og Tushar

fimmtudagur, 20. apríl 2006

Skundað til Suður-Jótlands

Við Baldur erum á leið á AIESEC ráðstefnu á morgun. Lagt verður af stað eldsnemma í fyrramálið með krökkunum úr UNIC (það er deildin okkar innan AIESEC).

Ráðstefnan stendur yfir alla helgina og dagskráin er þétt. Það stefnir sem sagt í mikla vinnuhelgi hjá okkur skötuhjúum. Meðal efnis á dagskrá eru umræður um ímynd AIESEC, hvatningarræður, útivist, global village og gala kvöld. Spennó.

Á gala kvöldinu ber að vera fínn í tauinu og þar sem mín tók fátt af fínu með sér út til Köben var farin sérferð fyrr í dag í leit að hentugum gala klæðnaði. Ótrúlegt en satt þá fann ég fínan og sumarlegan kjól og smart hælaskó við og það allt hér í næsta nágrenni.

Við komum svo heim seint á sunnudagskvöldið. Það fyndna er að við vitum ekkert hvert við erum að fara, bara það að við erum að fara til Suður-Jótlands og að rútuferðin þangað tekur fimm tíma, úff.

Gleðilegt sumar!

Já nú er komið sumar og allt það góða sem því fylgir. Dagurinn byrjaði samt ekki sérlega sumarlega að mínu mati, bara svona grár. En jafnt og þétt varð hann sumarlegur t.d. rigndi inn sumarkveðjum í tölvupóstinn auk þess sem mamma og pabbi skæpuðu sumarið inn.

Áður en ég vissi af höfðu gráu skýin kíkt á vaktatöflurnar sínar og fattað að í dag væri hinn helgi hvíldardagur grárra skýja. Sólin mætti í staðinn geislandi og glaðleg og þóttu mér skiptin góð.

Í tilefni dagsins og veðurblíðunnar spásseruðum við niður að Nørrebro og ekki höfðum við spásserað lengi þegar ég sé allt í einu heldur betur kunnuglegt andlit. Það var Hreiðar, vinur minn úr viðskiptafræðinni, ásamt konu sinni Elísabetu. Eftir stutt spjall kom í ljós að við erum nágrannar og er ráðgert að fara yfir til þeirra í kvöldkaffi við fyrsta tækifæri.

miðvikudagur, 19. apríl 2006

Barnapíur og kosningar

Við tókum það að okkur í dag að gerast barnapíur Áslaugar Eddu í smá tíma meðan Stella skvís útréttaði. Skemmst er frá því að segja að okkur fórst starfið mjög vel úr hendi og efa ég að litlu skvís hafi leiðst í okkar umsjá. Hvernig væri það líka hægt eftir að ég dansaði fyrir hana í heilar tíu mínútur?

Úr barnapíustarfinu urðum við því miður að rífa okkur seinni partinn til að mæta upp á skrifstofu UNIC, kosningar í embætti innan EB (Executive Board) voru nefnilega yfirvofandi. Fyrst þurftum við að hlusta á ræður þeirra tveggja sem buðu sig fram sem LCP (Local Committee President) og síðan þeirra sem buðu sig fram til annarra embætta.

Þrátt fyrir smæð hópsins fór allt formlega fram og var kosið leynilega. AIESEC hefur sérkennilega hefð í tengslum við kosningar, þeir sem ná kosningu í embætti fá yfir sig vatnsgusu í tilefni af því. Þegar ég sá aðfarirnar var ég bara hálffeginn að hafa ekki látið á þetta reyna.

En aftur að fyrri störfum sem barnapíur, hér eru nokkrar myndir af þessum merka atburði. Tökum við okkur ekki vel út sem barnapíur? Það finnst mér.

Í fyrstu voru barnapíurnar stilltar og höguðu sér vel...

Svo fór önnur þeirra að einoka myndavélina...

...og afskræma sitt annars fríða andlit

Það datt okkur dömunum ekki í hug að gera

þriðjudagur, 18. apríl 2006

SRB umsókn

Ég var harðákveðin í því að skila af mér SRB umsókninni í dag og mér tókst það, hjúkket. Skilafrestur rennur reyndar ekki út fyrr en um hádegi þann 20. en mér fannst bara best að ljúka þessu af.

SRB stendur fyrir Student Review Board en fyrir þá nefnd ber manni að fara ef maður ætlar í starfsnám á vegum AIESEC. Og til að fá að fara fyrir nefndina þarf maður að sækja um það sérstaklega, þar með er maður kominn með SRB umsókn.

Í umsókninni eru m.a. lagðar fyrir mann fimm spurningar og varð ég að klóra mér dálengi í hausnum áður en mér tókst að svara einni þeirra. Eða hvernig mynduð þið eiginlega lýsa grænum lit fyrir blindri manneskju?

mánudagur, 17. apríl 2006

Páskadagur

Gærdagurinn var afbragð. Við fengum góða heimsókn frá þeim mæðgum á Amager um hádegisbil og eyddum með þeim indæliseftirmiðdegi.

Baldur skrapp í Ørnebagariet og eftir magafylli af rúnstykkjum var sest í sófann fyrir makkarónusnittur og te- og kaffisopa. Ásla tásla lék á alls oddi og var eins og vera bera algjör senuþjófur.

Við kíktum síðan með Stellu og Áslaugu í fínan göngutúr um Nordvest (hverfið okkar) og niður að Nørrebro (sem er hverfið sem liggur að Nordvest). Við Baldur fengum að keyra barnavagninn og vorum rígmontin með það. Annað sem gladdi okkur var að í göngutúrnum tókum við eftir því að brumið er loksins komið á trjágreinar og krókósar og ýmis konar blóm eru farin að stinga upp kollinum. Mikið var!

Um kvöldið snæddum við fína páskamáltíð og í eftirrétt voru tveir sviknir hérar. Meðan við jöpluðum á súkkulaðihérunum horfðum við á Charlie and the Chocolate Factory, það var bara svo ómótstæðilega viðeigandi.

Svo sæt að sólin er feimin!

Onkel Baldur strax kominn með mann í þjálfun

Ef ég teygi mig aaaaðeins lengra....


sunnudagur, 16. apríl 2006

Leitað að páskahérum

Í morgun átti sér stað ratleikur í litlu íbúðinni okkar. Baldur hafði nefnilega útbúið svo skemmtilegan páskaratleik og í verðlaun voru tveir súkkulaðipáskahérar.

Fyrsta vísbending var ofan á bókinni sem Baldur gaukaði að mér meðan ég var enn í svefnrofunum. Það tók mig nokkra stund að átta mig á að eitthvað lægi að baki þessu bókagauki og rak þá augun í miða skreyttum kanínusporum sem hafði að fela þessi skilaboð: Eru þetta kanínuspor? Nei! Þetta eru héraspor. En hvar eru hérarnir? Fóru þeir að vaska upp?

Greinilega kominn tími til að vakna og dröslast fram í eldhús. Á þornandi leirtaui í grindinni fann ég síðan aðra vísbendingu: Kæra hvolparófa, þetta eru gömul spor. Það er langt síðan þeir fóru í teboð (Lísa í Undralandi) í skápinn hjá pokarottunni.

Inn í teskáp fann ég þriðju vísbendinguna límda innan á skápshurðina: Pokarottan kjaftar frá: Þeir fóru ekki saman og þeir sögðu að ef enginn fyndi þá báða yrðu engir páskar! Annar þeirra var víst svikinn (180°C).

Inn í ofninum fann ég annan hérann og fjórðu vísbendinguna: Ó takk fyrir að bjarga mér fagra fljóð! Ég get sagt þér að páskahéri frændi minn ætlaði í gymmið.

Ég inn í anddyri til að finna íþróttatöskuna, rakst þar á fimmtu vísbendinguna: Ha, ha! Löngu búinn á æfingu og farinn í Irmu að kaupa prótínsjeik...

Aftur inn í eldhús að gramsa í Irmu pokanum okkar, í botni hans var sjötta vísbendingin: Sjeikarnir voru búnir svo ég skýst frekar í Nettó. Kv. Páskahérinn.

Þegar þarna var komið sögu var ég að verða hálfringluð á ratleiknum og í stað þess að finna sjöundu vísbendinguna fann ég hinn hérann. Ég sá glitta í hann ofan á eldhúsinnréttingunni falinn bak við morgunverðarkorn.

Baldur var ekki allskostar sáttur við þetta og heimtaði að ég héldi leiknum áfram. Undir Nettó poka sem lá á eldhúsborðinu fann ég sjöttu vísbendinguna: Ég trúi þessu ekki, Kornflex á tilboði! Gamli pakkinn kominn aftur. Vei, vei, víííí.

Og þá varð ég að ná í stól, klifra upp á hann og ná í páskahérann minn sem óskaði mér gleðilegra páska. Þess óska ég ykkur líka.

Og hér eru svo þeir félagar.

laugardagur, 15. apríl 2006

Af dúfum og rottum

Hjólandi úr ræktinni fyrr í dag áttaði ég mig á því að dvölin í Kaupmannahöfn hefur hert hjarta mitt gagnvart dúfum. Ég hef hægt og rólega þróað með mér andstyggð á þeim. Ekki hjálpar fuglaflensan svo upp á ímyndina. Né að finna þær hálfétnar og fiðurlausar í morgunsárið.

Þær virka á mig sem sóðalegar og afspyrnu vitlausar, en það er eflaust bara af því þær líta hvorki til hægri né vinstri áður en þær vappa út á hjólabrautina og beint fyrir hjólið mitt. Eða af því þær horfa ekki í kringum sig áður en þær fljúga upp og næstum í fangið á manni.

Ég skil alltaf betur og betur áróðurinn sem við Baldur sáum í Holland Park í London 2003. Þar var verið að hveta almenning til að gefa ekki dúfunum og það sagt vera álíka heimskulegt og ef maður færi að brauðfæða rottur borgarinnar.

föstudagur, 14. apríl 2006

Enn fleiri páskaungar

Ég tók eftir því áðan þegar ég var að skoða teljarann á síðunni að margir hafa verið að slæðast inn á síðuna og þá einkum og sér í lagi inn á þessa færslu hér: Páskaungar.

Ef þið prufið að fara á google.com og slá inn leitarorðið Páskaungar þá sjáið þið af hverju straumurinn stendur hingað, síðan okkar er sú fyrsta sem kemur upp.

Greinilegt er að einhverjir eru leitandi að páskaungum á veraldarvefnum en því miður bíður ofangreind færsla upp á lítið annað en sæta mynd. Ég get ímyndað mér að það séu nokkur vonbrigði að fá aðeins þessa einu mynd af páskaungum sem fylgja færslunni svo ég ætla að gera aðeins betur með því að bæta einni við. Bon appétit!

fimmtudagur, 13. apríl 2006

Skemmtilegur skírdagur

Í dag var óvenjumikið fjör hjá okkur Nordvestlingum. Eins og allir vita er skírdagur en auk þess fengum við skemmtilega heimsókn frá Tælandi og fórum með gestunum í skemmtilega heimsókn á litla eyju hér í nágrenninu.

Þegar við komum heim úr gymminu í hádeginu heyrðum við hróp og köll og voru það þá Pétur og Valeria sem voru mætt á svæðið í fylgd Sigga og Soffíu. Við tókum að sjálfsögðu ítarlega skýrslu af ferðalöngunum og ekki voru mótmælin hávær þegar Pétur heimtaði að fara í bakaríið og redda einhverju með kaffinu, enda ekkert til frekar en fyrri daginn og yfirheyrslur á fastandi maga vitagagnslausar og ómannúðlegar.

Nokkrum rúnstykkjum og alls konar slumsi síðar var ferðinni heitið á Froskaheimilið. Þar fengum við góðar móttökur og að vanda heillaði Áslaug Edda nærstadda með ýmsum trikkum sem hún lumar á. Náðum við einnig enn meiri upplýsingum upp úr ferðalöngunum og kom það sér vel þar sem við erum í óða önn að undirbúa landvinninga vora í Asíu. Eins og Leonard Cohen söng first we take Pondicherry, then we take the rest. Eða var það kannski aðeins öðruvísi?

Hratt líður stund þá gaman er. Áður en við vissum af var dagurinn liðinn og Pétur og Valeria farin að sýna á sér fararsnið. Við fylgdum þeim á brautarstöðina og náðum meira að segja að stúta nokkrum falafelum á leiðinni en þau eru sérdeilisgóð hjá King of kebab á Nørrebrogade, það er hvítlaukssósan sem gerir gæfumuninn.

Slumsinu slumsað

Á leið til froska

miðvikudagur, 12. apríl 2006

Sögur úr ræktinni

Í ræktinni sem við sækjum liggja karla- og kvennaklefarnir samhliða og auk þess er hátt til lofts en engir veggir liggja að loftinu svo það heyrist vel á milli klefanna. Það gerir það að verkum að ég heyri ef Baldur er að spjalla við einhvern. Ég heyri líka ef hárþurrkan í karlaklefanum fer í gang, þá veit ég að Baldur er að þurrka á sér tærnar.

Um sturtuklefana gildi það sama, þeir eru hólfaðir af með álþili sem nær ekki alveg niður að gólfi og sánurnar eru samliggjandi. Þetta gerir það að verkum að við Baldur getum spjallað í sturtunni og sánunni ef við kærum okkur um.

Í dag bar svo við að sánan beggja megin var óvenjugóð og eftir svona góða æfingu fannst okkur kjörið að slappa aðeins af í hitanum. Við vorum á dauðum tíma í ræktinni svo við höfðum sitthvora sánuna út af fyrir okkur. Við notuðum því tækifærið og röbbuðum milli veggja.

Rétt áður en ég gat ekki meira vegna hitans heyri ég einhvern koma inn í sánuna til Baldurs. Ég heyri líka að Baldur byrjar aðeins að spjalla en kauði tekur fálega undir kveðjur hans. Eftir æfingu fékk ég síðan að heyra hvernig í málunum lá. Þegar ég stóð upp til að fara úr sánunni kvaddi ég Baldur gegnum þilið. Þegar gaurinn heyrir í mér tekur hann viðbragð, lítur á Baldur og segir: Mikið er ég feginn að þú varst ekki að tala við sjálfan þig allan tímann, ég hélt þú værir stórundarlegur!

þriðjudagur, 11. apríl 2006

Ég hringi af netinu

Í dag tókst okkur í fyrsta sinn að kaupa inneign í Skype, sem þýðir að hægt er að hringja í venjulega síma af netinu.

Við biðum ekki boðanna heldur nýttum okkur strax tæknina til að hringja nokkur símtöl, þar á meðal eitt í stofnun á Íslandi og eitt í heimasíma í Svíþjóð. Samanlagt kostuðu þessi alþjóðlegu símtöl okkur nokkra Evru aura, sem sagt hræódýrt.

Skemmtilegast finnst mér samt að hugsa til þess að hringja í einhvern sem síðan spyr úr hvaða síma maður hringi. Þá getur maður nefnilega sagt: Ég hringi af netinu.

Nágrannaerjur

Á gulum post-it miða fyrir framan mig standa orðin uforskammet, vasketøj, våd og tøjsnor. Við þurftum að fletta þeim sérstaklega upp í litlu gulu dönsk-íslensku orðabókinni minni. Síðan skrifuðum við stutta orðsendingu sem var svohljóðandi:

Til dig der har taget våd vasketøj af tøjsnoren!
Hvis der ikke er plads til dit tøj er det ikke vores problem. Det er uforskammet at tage våd vasketøj af snoren og beder vi dig venligst at ikke gøre det igen.
Mvh,
Naboerne

Þegar við vorum að skrifa orðsendinguna minntist ég eins þáttar af Frasier þar sem einhver ökumaður hafði lagt í bílastæði Frasiers. Þar sem okkar maður ætlaði aldeilis ekki að láta vaða yfir sig skrifaði hann orðsendingu til ökumannsins og hófst hún á orðunum Dear discourteous driver. Roz vildi nú meina að þetta hefði ekkert að segja og ráðlagði honum að hleypa loftinu úr dekkjum bifreiðarinnar svo ökumaðurinn fengi almennilega refsingu.

Í okkar tilviki hefði Roz eflaust ráðlagt okkur að taka þvottinn sem hengdur hafði verið upp á snúruna í stað okkar þvottar, bleyta hann í vaskinum, vinda hann og brjóta síðan snyrtilega saman. Það hvarflaði hins vegar aaaaaldrei að mér, ne-hei.

mánudagur, 10. apríl 2006

Eldibrandur

Það var eins og ég væri á örvandi í dag. Kannski það hafi verið því að þakka hversu snemma ég fór á fætur, hugsanlega hefur það haft svona góð áhrif á boðefnabúskapinn. Hvað sem það var þá kom ég heim eftir erfiða æfingu í ræktinni og í stað þess að skríða uppgefin upp stigann tölti ég upp tröppurnar og blés varla úr nös.

Þegar inn var komið tók ég síðan til við að sópa og, það sem meira er um vert, skúra. Þetta var í allrafyrsta sinn sem ég skúra þessa íbúð. Það þýðir ekki að þetta var í fyrsta skiptið sem íbúðin var skúruð, það viðurkennist sem sagt hér með að Baldur hefur hingað til alfarið séð um þann pakka.

Það var síðan ekki fyrr en ég var búin að ganga frá hreina þvottinum, pússa upp baðherbergisgólfið og viðra mottuna að ég gaf mér tíma til að hvílast. Ég veit ekki hvað gekk að mér en ég veit þó að mér líkaði mjög vel að vera eins og eldibrandur.

laugardagur, 8. apríl 2006

Græna áherslan

Það byrjaði allt með draumi. Einu broti úr draumi meira að segja. Seint á árinu 2004 dreymdi mig draum: Ég var klædd í græna peysu og mér leið vel í grænu peysunni. Svo vel að þegar ég losaði svefn ákvað ég að kaupa mér græna peysu. Ég gerði það nokkrum mánuðum síðar, mín fyrstu meðvituðu litakaup.

Í afmælisgjöf það árið fékk ég afskaplega fallegt grænt sjal frá mömmu og ljósgrænan/túrkisbláan klút frá Gry - alltaf streymdi grænt til mín. Ég ákvað síðan þegar nýtt ár gekk í garð að taka þessari ábendingu eða hvað þetta var, og klæða umhvefi mitt og mig sjálfa grænu.Svo ég ákvað að kaupa mér græna skipulagsmöppu, ég fór að máta grænar peysur og keypti.

Þegar við keyptum nýtt innbú í Kaupmannahöfn fékk litadýrð að ráða för og græna litinn má nú sjá í sófasettinu, mynd upp á vegg, púða og að sjálfsögðu plöntunum okkar.

Ég uppfærði líka heimasíðuna okkar í september í fyrra og hvaða snið varð fyrir valinu? Græna sniðið. Það var allt ómeðvitað. Merkilegt.

föstudagur, 7. apríl 2006

Færslur komnar í leitirnar

Ég hef að undanförnu verið að taka til í tölvunni og rakst ég um daginn á nokkrar óbirtar bloggfærslur. Um er að ræða færslur sem ég skrifaði 2003-2004 í NotePad sem uppkast en síðan virðist ég hafa gleymt þeim og því hafa þær aldrei náð inn á síðuna okkar. Þessar færslur gera lítið gagn inn á tölvunni svo ég hef ákveðið að birta þær núna.

Færslurnar eru fjórar:
Seinasta próf BA námsins (2003)
Þúsund eikur (2003)
Af bein- og sjálfskiptingum (2003)
Erindi og ný aðstaða (2004)

Ég hafði mjög gaman af því að finna færslurnar en ég vona þó að ég lumi ekki á fleirum sem hafa gleymst.

fimmtudagur, 6. apríl 2006

Nýju hlaupaskórnir keisarans

Nei, ég hleyp ekki berfættur eins og fyrirsögnin gefur til kynna, þetta hljómaði bara svo vel.

Nýverið gerðum við Ásdís okkur ferð í verslunarmiðstöðina Fields á Amager til þess að kaupa svakafína Asics hlaupaskó á mig. Skórnir kostuðu ekki nema 300 danskar krónur sem er um það bil fimmtipartur verðsins á Íslandi og vel innan við helmingur almenns verðs hér. Við keyptum að sjálfsögðu 10 pör til að spara sem mest.

Nú eru dýrgripirnir komnir á sinn stað og standa ásamt öðrum skrautmunum uppi á hillu inni í stofu (neinei). Síðan ég eignaðist skóna er ég búinn að hlaupa eins og vitleysingur tvisvar í viku og er ansi ánægður með þá. Alla jafna hleyp ég á færibandi í gymminu sem gerir mér auðveldara fyrir að fylgjast með bætingum og forðast reykjandi Dani.

Mér finnast hlaupin koma ágætlega út samhliða lyftingaæfingunum en ég verð að játa að ég er persónulega ekki mikið fyrir að þolæfingar fari mikið yfir hálftímann svo ég sé nú ekki fram á að fara upp fyrir 8 kílómetrana alveg á næstunni. Núna er markmiðið mitt að ná gamla 5 km tímanum en hann er 18 mínútur sléttar. Læt ykkur vita þegar það tekst.

miðvikudagur, 5. apríl 2006

Fróðlegur fundur

Við vorum á AIESEC fundi í kvöld, svokölluðum local committee (LC) fundi. Við Baldur erum meðlimir í UNIC hlutanum sem er einskonar útibú AIESEC fyrir Kaupmannahafnarháskóla (KU) og Hróarskelduháskóla (RUC) og var fundurinn á vegum þeirra.

Á fundinum voru nokkrir stjórnarmeðlimir UNIC staddir, m.a. Nina sem er VPPD, Sannah sem er VPX og Niels sem er VPF. Eins og sjá má er mikið um skammstafanir innan AIESEC. Það skondna er að ég er með á hreinu hvað allar þessar ofannefndu skammstafanir standa fyrir en ég veit enn ekki hvað AIESEC stendur fyrir.

Fundurinn var fyrst og fremst ætlaður að kynna hin ýmsu embætti innan UNIC en kosið verður í embætti nú í apríl og nýir meðlimir eru hvattir til að bjóða sig fram. Reyndar getum við Baldur ekki gert neitt slíkt þar sem gegna þarf stöðum fram í júlí á næsta ári en svo lengi verðum við ekki í Danmörku.

Helsti hvatinn fyrir okkur að mæta á fundinn var að heyra frá Rolf en hann var fyrir stuttu í starfsnámi í Indlandi á vegum AIESEC. Rolf vann fyrir grasrótarsamtök/áhugahóp (NGO) í borginni Chandigarh. Sú borg er höfuðborg Punjab héraðs í norðurhluta Indlands og gengur hún einnig undir nafninu Borgin fagra. Hann lét vel af dvölinni en hafði þó út á ýmislegt að setja, þá helst vinnumenningu Indverja. Hann ferðaðist einnig um landið og þá helst um Himalajafjöllin og myndirnar sem hann sýndi þaðan voru hreint út sagt stórkostlegar.

Eftir þennan fund er ég orðin ansi spennt fyrir að fara í starfsnám til Indlands. Best að fara að vinna í umsókninni.

þriðjudagur, 4. apríl 2006

Teiknimyndir og herrakvöld

Í gær hitti ég Pétur afa niðri á Nørreport og gengum við þaðan í átt að miðbænum. Ég hafði regnhlífina Lorenzo með til öryggis en ekki var þjónustu hans þörf. Eftir svolítið rölt og mikið rabb gengum við inn Snaregade til þess að rannsaka höfuðvígi Baugsmanna hér í Danmörku. Hér voru samlandar vorir augljóslega á ferðinni og sást það best á því að þrír jeppar stóðu í götunni. Til staðfestingar á að ekki væri um tilviljun að ræða rákum við augun í lógó íslensk-danska hestamannafélagsins, gaman af því.

Þvínæst var ferðinni heitið á National Museet til að skoða eldgamla áróðursteiknimynd. Nánar tiltekið var þetta hið víðfræga Bayeuxteppi og geta áhugasamir lesið meira um það hér. Eftir nokkra tugi skrípamyndametra sagði til sín ægilegur kaffiþorsti. Var því haldið í humátt að Magasin du Nord því þar er auðvelt að fá gott kaffi (Segafredo) og kíkja að auki í bókabúð en það er hátt skrifað áhugamál hér á bæ.

Ég veit ekki hvort ég þori að byrja næstu setningu á að segja frá því að eftir bókabúðina hafi almennt hungur sagt svakalega til sín því þá gæti fólk haldið að maður stjórnaðist bara af einhverju garnagauli. Hin virðulega karlaferð í bæinn endaði á grískum veitingastað sem ber nafnið Eros og liggur út af Grábræðratorgi. Við gaumgæfðum matseðilinn og gestina til að vera vissir um að herrakvöldið færi ekki eins og hjá KR-ingunum og yrði einhvers konar perrakvöld, seisei það gengi ekki.

Matur og þjónusta voru með ágætum og mæli ég tvímælalaust með þessum stað fyrir þá sem langar í eitthvað gott en ekki allt of dýrt. Ég fékk mér í forrétt steiktan fetaost og salat (slurp), þorsk í einhverri dýrindissósu í aðalrétt og gríska jógúrt með hunangi og hnetum í desert. Þarf að segja meira?

mánudagur, 3. apríl 2006

Á áætlun

Ég byrjaði að greina viðtölin úr MA rannsókninni í dag. Þar sem planið, sem ég útbjó um hvernig-skal-klára-MA verkefnið, gerði ráð fyrir þessu má segja að ég sé alveg á áætlun. Reyndar greini ég bara eitt viðtal í einu, vitaskuld, annað væri til þess fallið að rugla mig alveg í ríminu.

Svo ég útskýri aðeins hvað ég á við með að greina viðtöl: Viðtölin sem ég tók á tímabilinu september 2004-júní 2005 afritaði ég orð frá orði eins og lög eigindlegra rannsóknaraðferða gera ráð fyrir. Síðan prentaði ég þau út og var komin með hálfgert handrit í hendurnar. Þegar ég greini viðtölin er ég í raun að lesa þessi handrit spjaldanna á milli, lesa í þau, lesa milli línanna, finna þemu og kóða þau. Þetta geri ég allt eftir kúnstarinnar reglum.

Þessi fyrsti dagur í greiningu gagna snerist fyrst og fremst um að lita og því skemmti ég mér stórvel. Ég nota yfirstrikunarpenna í ýmsum litum til að aðgreina textann og hver litur táknar ákveðið þema. Þetta auðveldar og flýtir fyrir mér þegar ég síðar meir þarf að hafa yfirsýn yfir öll viðtölin.

Þessi fyrsti dagur gagnagreiningar var ekki síður skemmtilegur fyrir þær sakir að ég kveikti á kertum hér og þar í íbúðinni, hellti upp á bláberjate og útbjó mér ávaxtabakka til að hafa við höndina. Svo kom ég mér fyrir í hægindastólnum og tók til við að lesa og lita. Það er ekki á hverjum degi sem maður gerir það.

sunnudagur, 2. apríl 2006

Himnaför

Ég nýtti mér tækifærið fyrir nokkru og pantaði mér tvær bækur af netbókaútsölu. Bækurnar voru síðan sendar á lögheimilið á Íslandi og var hugmyndin að þær fengju far með hverjum þeim sem ætti næst leið frá Íslandi til Kaupmannahafnar. Svo heppilega vildi til að það var einmitt PG og kom hann færandi hendi með böggulinn mér til mikillar gleði. Kann ég honum bestu þakkir fyrir.

Önnur bókanna er Himnaför eftir kínverska rithöfundinn Xinran, en hún skrifaði einnig bókina Dætur Kína. Ég byrjaði að lesa Himnaförina í gær og lauk henni í dag enda auðlesin bók sem gaman er af. Sagan er um kínverska konu, Shu Wen, sem leggur upp í mikið ferðalag til Tíbet í leit að eiginmanni sínum sem henni hafði verið tjáð að fallið hafði í átökum milli Kínverja og Tíbeta. Á ferð sinni lendir hún í hremmingum en er svo gæfusöm að vera tekin undir verndarvæng tíbeskrar hirðingjafjölskyldu.

Lýsingar á lifnaðarháttum hirðingja í Tíbet eru áhugaverðar og sagan vissulega skemmtileg. Mest um vert þótt mér þó að sagan kveikti ferðaþrá í mér. Kannski maður kíki einhvern tímann til Tíbet, hver veit?

laugardagur, 1. apríl 2006

1. apríl

Í dag er alþjóðlegur dagur prakkara og púka. Ég er einmitt einhversstaðar í þessum kategoríum og náði ótuktarskapur minn yfir Kaupmannahöfn þvera og endilanga. Af virðingu við fórnarlömb mín ætla ég ekki að tíunda hvað ég gerði en í stuttu máli þá stökk Ásdís framúr í morgun og hljóp nokkur skref í tilefni dagsins, froskaheimilið varð fyrir dyraati og heiðursgestur þar á bæ hljóp til dyra. Þess skal þó getið að ég hélt kyrru fyrir í NV. Einhverjum bauð ég svo upp á hrekkjatyggjó með góðum árangri. MÚAHAHAHAHAHAAA >:~D

Dagurinn gekk þó ekki alfarið út á prakkarastrik því ég og Pétur afi fórum saman á bókabúðarrölt og kaffihús. Á leiðinni niður í bæ hitti ég stúlku sem var að safna peningum til styrktar HIV smituðum og fékk maður rautt nef fyrir 20 króna framlag. Mottóið var semsagt að mæta vandanum með góða skapinu eða eitthvað í þá veruna. Að sjálfsögðu skellti ég nefinu á mig og gekk svo með það niður í bæ.

Eftir nokkuð bókabúðagrams tókum við vagn 5A í átt að Husum Torv. Í vagningum voru fyrir hress og skemmtileg hjón frá Vestmannaeyjum og spjölluðum við við þau bróðurpart ferðarinnar. Heima beið okkar svo indversk stórmáltíð sem Ásdís hafði undirbúið og öllum varð sérdeilis gott af. Hrekkjadagurinn ógurlegi endaði því með ró og spekt enda segir máltækið: Elskið friðinn og strjúkið kviðinn.

Átta mánuðir

Í dag eru komnir átta mánuðir síðan við fluttum inn á Frederikssundsvej. Þar með er Danmörk það land sem ég hef dvalið lengst í frá heimalandinu, Frakkland dottið niður í annað sæti með sína sjö mánuði og Þýskaland fær að verma það þriðja með sína tvo mánuði. Ef plön okkar ganga eftir eigum við hálft ár eftir hér í Danaveldi. Það er ekki slæmt.

Setti til gamans tvær myndir frá fyrsta deginum okkar í Kaupmannahöfn.