miðvikudagur, 31. maí 2006

Maíannáll

Maí var góður mánuður. Þeir eru reyndar allir góðir en maí færði mér loksins sumarið og það er fátt betra en sumar og sól. Reyndar voru það aðallega fyrstu dagar maímánaðar sem báru yfirbragð alvöru sumars en þeir náðu að fleyta manni yfir stutta rigningarkaflann, það er fyrir öllu.

Ég var ekki í miklu lestrarstuði þennan mánuðinn en gaf mér þó tíma til að lesa bókina Digital Fortess eftir Dan Brown. Það eina sem mig langar að segja um þá bók er að ég hefði betur varið þeim tíma í eitthvað annað. Það er þó huggun harmi gegn að meðan ég las sat ég á svölunum í góða veðrinu, tíminn fór því ekki algjörlega til spillis.

Maður hefur heldur ekki sama áhugann á kvikmyndum þegar sumarið er komið svo ég get ekki státað af því að hafa séð margar kvikmyndir í maí. Þær sem standa upp úr eru Í takt við tímann sem lét okkur fá viðlög á borð við: "Hann er að hugleiða í boði Flugleiðaaaa" á heilann, Så som i Himmelen sem fékk mann til að vilja læra sænsku og Sen to Chihiro no kamikakushi sem fær mann til að vilja sjá fleiri verk eftir leikstjórann Hayao Miyazaki. Ég gaf reyndar Baldri þá mynd í afmælisgjöf og fékk svo að horfa á hana með honum, talandi um hina fullkomnu gjöf!

Auk þess að njóta góða veðursins á dögum eins og Dýrðardögum, Operation Natural Blonde og Store Bededag náðum við í þessum mánuði að fara í gegnum SRB, standa í vorhreingerningum og sumartiltekt, halda upp á afmæli húsbóndans, snæða ómótstæðilegan Miðjarðarhafssaltfisk, kíkja á frönsku meistarana hjá þeim í Statens Museum for Kunst, fylgjast spennt með Söngvakeppninni, skella í Potterbrauð og fá viðbrögð við starfsumsóknum okkar hjá AIESEC. Ih, hvor er det dejligt.

Kvöld og morgnar

Það er dásamlegt að fá sér súrmjólk með ovnristet pekannødder & ahornsirup mysli, nokkrum kornflögum og nýtíndum, ferskum jarðarberjum. Sérstaklega eftir að hafa farið út að hlaupa, gert Hindu arm- og hnébeygjur og nokkrar útgáfur af sólarhyllingunni. Svona eins og maður gerir í morgunsárið.

Um kvöldið er svo dásamlegt að sitja úti á svölunum og lesa í kvöldsólinni, jafnvel gæða sér á kirsuberjum meðan þau eru enn fáanleg. Ah, gerist það betra?

þriðjudagur, 30. maí 2006

Sjónvarpsmaðurinn

Jæja, mikið var að DR sendu einhvern til að tékka á því hvort við ættum sjónvarp. Við vorum hérna í sakleysi okkar að snövla eitthvað í eldhúsinu þegar dyrasíminn byrjaði að öskra á okkur. Ég stekk til og svara með áður óþekktum tilþrifum: Halló...

Í gegnum umferðarniðinn berst mér til eyrna, blákalt og umbúðalaust: Ég frétti að á þessu heimili væri sjónvarp. Ég svaraði um hæl upp á íslensku: Já, góða kvöldið. Lagði tólið á og leyfði óðagotinu að yfirtaka mitt annars yfirvegaða fas.

GISP! Útsendarinn er mættur sagði ég við Ásdísi sem óðara hóf leit að kvittun sem sýndi fram á að sjónvarpið væri fullkomlega löglegt. Leitin gekk illa og ekki gat ég hjálpað því ég þurfti að taka á móti njósnaranum. Fékk einnig spurningu frá fröken Ásdísi um það hvers vegna ég hefði ávarpað sjónvarpsmanninn á íslensku.

Á meðan hún stóð í þessu undirbjó ég hlýlegar móttökur á stigapallinum, það er nefnilega ekki á hverjum degi sem maður fær sjónvarpsnjósnara í heimsókn. Þegar sjónvarpsmaðurinn var svo kominn inn í forstofu hætti Ásdís snarlega að leita að kvittuninni og bauð Stellu Soffíu velkomna í NV.

Sátum svo þrjú og höfðum það huggó og röbbuðum um flest annað en skráningarleyfi sjónvarpstækja í Danmörku. Rétt áður en Stella Soffía kvaddi dró hún úr skjóðu sinni Kill Bill 1 & 2, í staðinn gaukuðum við að henni einni Frasier þáttaröð. Þokkalega hlakka ég til að sjá þessar myndir og ólíkt þeim sem sáu þær í bíó þarf ég ekki að bíða eftir númer tvö.

mánudagur, 29. maí 2006

Brauðið fullkomnað

Brauðuppskriftin hér að neðan var fullkomnuð í kvöld. Ég einfaldlega tvöfaldaði hana og þá varð brauðið akkúrat mátulega stórt. Nú er það orðið alveg jafnflott og það sem hægt er að kaupa frá bakaríinu í Grímsbæ.

Góðir hlutir að gerast

Ég er loksins byrjuð að vinna í MA verkefninu aftur. Ég tafðist eitthvað í eigin heilafellingum í nokkrar vikur og gerði lítið af viti í ritgerðarmálum á þeim tíma.

Í gær kíkti ég svo í bók sem ég átti í fórum mínum úr námskeiðinu Eigindlegar rannsóknaraðferðir: Writing up Qualitative Research eftir Harry F. Wolcott. Í bókinni fjallar höfundur um það hvernig maður snýr sér í því að skrifa ritgerð upp úr eigindlegu rannsókninni sinni. Þar sem ég stend nákvæmlega í þeim sporum var bókin akkúrat það sem ég þurfti.

Eitt af því sem höfundur veltir upp er hvernig maður getur fegrað tímann sem maður hefur varið í eitthvað annað en skrifin: ég var að skipuleggja, lá undir feldi, var að leyfa þessu að gerjast, velti vöngum yfir o.s.frv.

Ég verð að viðurkenna að ég var fegin að sjá allt þetta úrval af afsökunum. Ég held ég þurfi samt ekki á þeim að halda núna. Þó ég sé aðeins búin að lesa nokkrar blaðsíður í bókinni var hún mér svo mikil hvatning að ég settist beint niður og tók að skrifa. Nú er bara að halda tempóinu...

föstudagur, 26. maí 2006

Insight XP

Fljótlega eftir að við Baldur fórum í gegnum SRB hjá AIESEC fór að bera á viðbrögðum við umsóknum okkar. Við höfum fengið tilboð frá Indlandi, Kína og Rússlandi en þar sem við höfðum ekki aðgang að gagnagrunninum gátum við ekki skoðað nánar störfin sem um ræddi.

Þessi gagnagrunnur kallast Insight XP og þar er að finna upplýsingar um öll störfin sem eru í boði í gegnum AIESEC. Til að fá aðgang að grunninum þarf maður hins vegar að þreyta próf. Þetta er frekar tímafrekt próf og þar sem við höfðum ekki tíma til að fara í gegnum það þegar tilboðin tóku að berast sátum við uppi með tilboðin og gátum hvorki sagt af né á.

Fyrr í vikunni lauk ég loks þessu prófi og í gær fékk ég svo aðgang að gagnabankanum. Síðan þá höfum við Baldur setið límd við tölvuna, bæði til að skoða nánar tilboðin sem okkur bárust en einnig til að vafra um og sjá hvað er í boði í Indlandi. Það kom í ljós að það er marg áhugavert í boði í Indlandi. Við förum okkur hins vegar engu óðslega enda nægur tími til að skoða sig vel um. Hver veit þó nema við endum í Bangalore eða Chennai.

fimmtudagur, 25. maí 2006

Ellen og sápubrúsarnir

Um daginn var ég að horfa á uppistand með Ellen DeGeneres, bandarískur grínisti sem ég held upp á því hún fær mig til að hlæja. Í þessu uppistandi var hún að tala um hve henni fyndist skrýtið að sjá leiðbeiningar aftan á sjampó- og hárnæringarbrúsum en sérkennilegast fyndist sér að sjá 1-800 númer aftaná, þ.e. símanúmer sem hægt er að hringja í og fá frekari upplýsingar.

Svo var ég í sturtu og auðvitað komu þessar pælingar upp í huga mér. Ég tók til við að gramsa í sjampósafninu okkar í leit að þessum upplýsingum. Stutt athugun leiddi í ljós að það var hvorki upplýsingar né símanúmer að finna á Go for '2 sjampóbrúsanum, á Alberto hárnæringunni voru leiðbeiningar en ekkert númer og á Fructis sjampóinu fann ég hjálparnúmer en engar leiðbeiningar.

Mér finnst að ef menn ætla á annað borð að standa í þessu sé ráðlegast að gera það almennilega og hafa bæði nákvæmar leiðbeiningar og númer í hjálparlínu. Maður veit aldrei hvenær maður getur þurft á því að halda: "Heyrðu, ég er komin með sjampóið í hárið en það bara freyðir ekki. Bleytti ég það? Neeeei..."

miðvikudagur, 24. maí 2006

Potterbrauð

Undanfarna daga hef ég verið algerlega óviðræðuhæfur þar sem sjötta bókin um Harry nokkurn Potter hefur haldið mér ansi uppteknum. Ekki vil ég ljóstra neinu upp um plottið þar sem ekki hafa allir heimilismeðlimir lesið bókina.

Á milli þess sem ég gleypti Potter bókina í mig bakaði ég brauð. Ellert vinur minn gaf mér svo skrambi þægilega uppskrift að brauði og það besta er að það tekur aðeins um 10 mínútur að undirbúa það og svo bara beint í ofninn. Ég hef með smá tilraunamennsku komist niður á þessa útgáfu:

3 dl heilspelt
2 dl hveiti/spelt
2-3 teskeiðar af vínsteinslyftidufti
1 teskeið af salti
2 dl sjóðandi vatn
2 dl súrmjólk/ab-mjólk (má líka nota sojavörur)
1 dl hvaðsemer, ég hef notað 5 korna blöndu, múslí og döðlur með góðum árangri

Ofninn skal stilltur á 200°C og er ráðlegt að pota í brauðið með prjóni eftir svona 30-40 mínútur. Þegar það er svo orðið sæmilega bakað í gegn tek ég það úr forminu og hendi því inn í 5 auka mínútur til að fá extrafína skorpu á allt brauðið.

mánudagur, 22. maí 2006

Nostalgía

Þegar Eurovisionkeppnin er yfirstaðin verð ég stundum niðurdregin, eins og ég hafi verið að kveðja gamlan vin sem ég kem ekki til með að sjá í bráð. Á slíkum stundum er gott að gefa eftir nostalgíunni og rifja upp góðar stundir.

Á vefnum youtube.com fann ég nokkur myndbönd úr uppáhaldskeppninni minni frá Zagreb 1990 og hef skemmt mér við að rifja upp kynnin. Þessi keppni stendur mér ljóslifandi í minni, eflaust vegna þess að við áttum kynningarmyndböndin á spólu og ég horfði á þau aftur og aftur og aftur.

Af uppáhaldsframlögum keppninnar voru systurnar frá Spáni sem lentu í byrjunarörðugleikum sem urðu til þess að þær gengu af sviðinu; júgóslavneska Marilyn Monroe-in; franska lagið með svörtu söngkonunni, trommunum og enska viðlaginu (sem þýddi að ég gat sungið með); ísraelska söngkonan sem lak niður hljóðnemastöngina og gaf áhorfendum sitt breiðasta bros og auðvitað Sigga og Grétar sem dilluðu sér í Einu lagi enn. Gullnar minningar.

sunnudagur, 21. maí 2006

Til hamingju Finnland!

Eins og svo margir þá vorum við Ásdís að enda við að horfa á Eurovision keppnina í beinni frá Grikklandi. Finnsku rokkskrímslaenglarnir báru höfuð og herðar yfir aðra keppendur í stigum talið eftir vægast sagt stórbrotna frammistöðu.

Það er skemmtilegt til þess að hugsa að Finnland hefur tekið þátt í þessari keppni frá því 1961 en aldrei unnið áður og því aldeilis kominn tími á þetta. Í stuttu máli sagt: Góð keppni, gott sigurlag og magnað makeup. Til hamingju Finnland!

föstudagur, 19. maí 2006

Silvía Nótt & söngvakeppnin

Ég fylgdist með Eurovision undankeppninni í gær og hafði mjög gaman af. Ég hafði notað kvöldið áður í að kynna mér lögin sem voru í keppninni og ekki fundið eitt einasta sem mér leist vel á. Það kom mér því skemmtilega á óvart að mörg laganna voru alveg ágæt við aðra hlustun. Ekki síst fannst mér skemmtileg sviðsframkoma hjálpa mörgum atriðanna.

Talandi um skemmtilega sviðsframkomu, mér fannst íslenska aðriðið ææææði! Yfirdrifið, ofpoppað, búningarnir, leikmunirnir, dansinn... gaman, gaman, gaman. Og rúsínan í pylsuendanum var að sjálfsögðu að það var púað og við komumst ekki áfram í úrslit. Jibbí!

Leyfið mér að útskýra þessi viðbrögð mína aðeins betur. Ég las í Morgunblaðinu um daginn viðtal við Gauk Úlfsson, annan skapara Silvíu Nætur og skildi þá mun betur hugmyndina að baki persónunni. Hann segir í þessu viðtali að Silvía sé "alveg ofurseld efnishyggjunni, peningum, frægð og útlitsdýrkun" og að hún sé einskonar anti-kristur. Til að útskýra heimspekina á bak við Silvíu segir hann:

"Í fyrri þáttaröðinni voru flestir þættirnir dæmisögur. Flestir þættirnir byrjuðu á gífurlegum yfirlýsingum hennar um einhver markmið sem hún ætlaði sér að ná en sem enduðu öll með einhverjum ógurlegum niðurlægingum Silvíu. Hennar hugmyndir um hamingju eru að ná í tiltekinn strák, eignast ákveðinn bíl eða fá samning við þetta og hitt fyrirtækið. Hún eltir hamingjuna í þessum hlutum og dæmisögurnar ganga útá það að lífshamingjuna er að sjálfsögu ekki að finna á þessum stöðum".

Silvía Nótt er sem sagt ádeila á grunnhyggni, yfirborðsmennsku og tillitsleysi sem þeim Gauki og Ágústu Evu finnst of ríkjandi í okkar nútímasamfélagi. Með því að spegla sig í Silvíu lærir fólk að meta góða mannasiði og virðingu fyrir öðrum. Hún er því ekki að neinu leyti hentug fyrirmynd því hennar hegðun er ekki til þess fallin að hjálpa einum né neinum á lífsbrautinni.

Með því að komast ekki upp úr undanúrslitunum, þrátt fyrir miklar yfirlýsingar frá Silvíu, lít ég svo á að tilganginum hafi verið náð. Silvía hefði að mínu viti alls ekki mátt vinna, það hefði borið vitni um hrakandi siðferðiskennd Eurovisionáhorfenda.

Ef þetta er ekki huggun harmi gegn má líka líta á þetta svona: Af 23 lögum komust 10 áfram, það má því segja sem svo að þetta sé allt í lagi því fæst lögin hafi komist áfram.

fimmtudagur, 18. maí 2006

Franskt þema

Hundaskítur, hundaskítur, pikknikk, teikningar, hundaskítur.

Þetta voru helstu frönsku þemu gærdagsins. Það byrjaði með því að í morgunhreyfingunni steig ég fyrst með hægri fæti í hundaskít (óheppni) og svo gerði ég það sama með vinstri fæti (heppni).

Það er kannski ekki öllum kunnugt en Frakkar telja það til heppni að stíga með vinstri fæti í hundaskít. Ekki tel ég þó að þeir lesi neina merkingu úr því þegar maður stígur með hægri fæti í hundaskít og þess vegna má líta á slíkt atvik sem merkingarlausa óheppni.

Franska þemað hélt áfram síðar um daginn þegar við hjóluðum að Statens Museum for Kunst til að pikknikka og berja svo teikningar franskra listamanna augum. Sýningin samanstóð af teikningum, skissum og vatnslitamyndum. Mörg verkanna heilluðu okkur en þó sérstaklega framlag listamannanna Jean-François Millet, Constantin Guys, Auguste Rodin, Émile-Othon Friesz, Paul Signac, Francis Picabia og Victor Vasarely.

Eftir sýninguna héldum við örþreytt að hjólunum okkar til að leggja af stað heim á leið. Tók ég þá eftir að framhjólið mitt stóð í... hundaskít.

miðvikudagur, 17. maí 2006

Morgunhreyfingin

Nú er ég búin að heimta hjólið mitt úr helju og því var tækifærið notað í morgun og hjólað upp í Bellahøj. Þar er mikið og stórt útivistarsvæði sem tilvalið er í æfingar ýmiskonar.

Við tókum prógrammið Spretta-skokka, þá sprettir maður að ákveðnum stað og skokkar rólega til baka. Þetta er endurtekið eins og maður treystir sér til en svona í byrjun nær maður ekki mörgum ferðum. Þetta er þó gríðargott fyrir hjarta og lungu, styrkir þolið og svo er útivistin bónus.

Planið í dag er síðan að kíkja í Statens Museum for Kunst, þar er nýhafin sýning á teikningum franskra meistara á borð við Picasso, Matisse og Manet. Ég hlakka til að kíkja á það.

Svo má ekki gleyma því að í dag er þjóðhátíðardagur Norðmanna, gaman að því.

þriðjudagur, 16. maí 2006

Ven til middag

Við buðum um daginn Jens vini okkar í látlaust síðdegissnarl. Umrætt síðdegissnarl átti sé stað í dag en ekki var það látlaust. Plönin höfðu heldur betur undið upp á sig í millitíðinni og úr varð hvorki meira né minna en þríréttuð glæsimáltíð.

Forréttur: Grafinn lax, graflaxssósa, tvennslags bagettur
Aðalréttur: Ítölsk grænmetissúpa a la Ásdís borin fram með parmesanosti, ferskri steinselju og graslauk. Í meðlæti grískt fetasalat, hvítlauksostur og bagettur
Eftirréttur: Pönnsur a la Ásdís bornar fram með strásykri, bláberjasultu og rjóma

Með forrétti og aðalrétti var borið fram vín hússins: Le Grande Rynkebyé berjasaftée 2006. Með eftirrétti var boðið upp á léttmjólk í glösum og te í bollum (sem þótti af gestinum fremur framúrstefnuleg framsetning).

Vitanlega varð öllum vel af matnum og glæddust miklar umræður (sem allar fóru fram á dönsku) um allt frá íslenskri þjóðtrú til Berlínarmúrsins. Út frá umræðunum bauð Jens okkur í heimsókn til heimabæjar síns Rostock þaðan sem hann hefur skipulag marga dagsferðina fyrir okkur um gjörvallt Þýskaland.

mánudagur, 15. maí 2006

Amma og afi heimsótt

Kalli afi og Ólöf amma lentu í Kaupmannahöfn seint í gærkveldi og áttum við stefnumót við þau á heimili froskanna um hádegisbil í dag.

Ekki var að spyrja að því en þau komu færandi hendi og var meðal annarrar smyglvöru vænt flak af gröfnum laxi. Namm.

Þegar Stella Soffía fylgdi parinu út á stoppistöð fengum við Ásdís að passa Áslaugu Eddu. Litla krílið var eins og engill allan tímann enda bæði onkel og tanta í miklum metum.

Lazy sunnudagur

Það hægði verulega á allri athafnasemi hér á bæ þegar veðrið tók upp á því að kólna. Í staðinn lágum við í leti á sunnudaginn: glugguðum í blöð, vöfruðum um á netinu og tókum til.

Seinni partinn létu við þó verða að því að stinga nefinu út fyrir hússins dyr enda planið að sækja sér björg í bú. Við hjóluðum niður Nørrebrogade og beygðum inn á Fælledvej, þar er nefnilega að finna staðinn Picnic sem okkur langaði að kíkja á.

Um er að ræða tyrknesk/grískan lífrænan veitingastað sem hefur gott úrval af grænmetisréttum. Við fengum okkur sitthvort salatboxið og gátum valið í það þrennt úr salatbarnum. Í næsta húsi er síðan ísbúðin Paradis svo auðvitað kíktum við þangað til að redda eftirréttinum.

Þetta smakkaðist allt mjög vel og svo er svo skemmtilegt að prufa eitthvað nýtt. Næst ætlum við að kíkja á Picnickurven sem mælt hefur verið með við okkur. Það verður þó að vera veður í pikk-nikk á þeim degi.

sunnudagur, 14. maí 2006

Kongens Have og Samos

Í gær skruppum við Ásdís niður í Kongens Have, röltum þar um í leit að hentugum frisbívelli. Heyrðum þá hrópað kunnuglegt orð: Baldööör. Reyndist það vera Judy, kanadísk vinkona okkar úr AIESEC.

Frísbíáformum var frestað að sinni og spjall á rólegum stað í garðinum tekið fram yfir. Ekki var veðrið neitt í líkingu við undangengna hitabylgju svo eftir nokkra stund urðum við öll að standa upp og hreyfa okkur til hita. Fyrir valinu urðu jógaæfingin Stólinn og príl í fallegu tré.

Næst á dagskrá var gríski veitingastaðurinn Samos þar sem við áttum stefnumót við Þjóðverjana Jens (vin minn úr CBS), Jörg og Dominique. Staðurinn var mjög góður og ekki spillti verðlagið. Öll skelltum við okkur á hlaðborðið þar sem í boði var forréttur, aðalréttur og eftirréttur fyrir litlar DKK 39.

Mikið var spjallað og bar á góma að bandarískur Budweiser væri bjór HM í fótbolta í Berlín 2006. Ég spurði Þjóðverjana hvað þeim fyndist um þetta, vitandi að áðurnefnd tegund flokkast ekki undir bjór í heimalandi þeirra, Jörg varð þá að orði: Drinking Budweiser is like having sex in a canoe. It's fucking close to water. Svona brandarar eru mér að skapi.

Rauði ránsfengurinn

Rómantískir apar

Klifurtréð (svífandi blómaengi)

Rosenborg Slot

laugardagur, 13. maí 2006

Store Bededag

Í gær var svokallaður bænadagur hér í Danmörku, sem vel að merkja er frídagur. Við vorum á leiðinni að hitta froskafjölskylduna svo við gætum öll farið saman á ströndina á þessum sólríka, hlýja frídegi.

Miðja vegu hvellspringur á framdekkinu mínu og ekkert reiðhjólaverkstæði í grenndinni. Við læstum því hjólunum fyrir utan Dagmar kvikmyndahúsið og tókum metróið út að Lergrevsparken. Þar biðu okkar þrír froskar og röltum við þaðan saman út á strönd.

Stuttu síðar bættist Ámákur fjölskyldan hinn stærri í hópinn. Það var ýmislegt gert til að hafa ofan af fyrir sér á ströndinni. Sumir jöggluðu og frisbíuðust, aðrir óðu út í íííískalt vatnið og tíndu steina, enn aðrir lágu í sólbaði nartandi í allt sem var í seilingarfjarlægð.

Þegar húma tók að var gripinn með heim tælenskur matur sem var afskaplega góður. Þegar við höfðum kvatt fjölskyldurnar tvær hófst löng ganga. Þar sem veðrið var enn svo milt ákváðum við að ganga frá Amager upp að Rådhuspladsen og þaðan teyma hjólið mitt í öruggara skjól, þ.e. upp í skóla til mín þar sem hægt er að hafa það læst bak við luktar kastaladyr. Planið var að fara með það daginn eftir á reiðhjólaverkstæði sem er þarna rétt hjá.

Gangan frá Amager að miðbænum var mjög skemmtileg, ekki síst naut ég þess að sjá myrkrið leggjast yfir og bíla- og neonljós taka að skína skærar. Frá Rådhuspladsen röltum við í gegnum miðbæinn eftir Strikinu, keyptum soft-ice og þvældumst um í mannfjöldanum.

Þegar hjólið var komið í örugga höfn í skólanum reiddi Baldur mig á hjólinu sínu. Þegar við vorum hálfnuð heim á leið rákum við augun í city-bike sem lá eitt og sér á víðavangi. Við gripum það fegins hendi og komumst loks heim á leið eftir tæplega þriggja tíma ferðalag.

Jögglkennslustund í gangi

Búið að koma sér vel fyrir á ströndinni

Sæt og sumarleg á ströndinni

Unir sér vel hjá Onkel Baldri

Tvö naut

Sæta og sæla parið

Legið á eggjum

Langebro

VW Polo í feldi

Uppljómað Tivoli

Rådhuspladsen

Við hvellsprungna hjólfákinn

Sumarið varla hafið og ferðaskrifstofurnar strax farnar að auglýsa vetrarferðir

fimmtudagur, 11. maí 2006

Prófalok og saltfiskur

Í morgun lauk ég síðasta prófi B.Sc. námsins. Prófað var úr faginu Business Strategy og var prófið í þyngri kantinum, svo ekki sé meira sagt. Það er samt alltaf léttir að vera búinn í prófatörn.

Beint eftir prófið brunaði ég í átt að Amager og á miðri leið fann ég eina Ásdísi, sem var á sömu leið. Á froskaheimilinu beið okkar fríður flokkur sem hafði eldað saltfisk a la pabbi og litrík salöt a la mamma.

Það var gaman að vinda prófatörninni ofan af sér í góðra vina hópi og ekki spillti að vera pakksaddur.

miðvikudagur, 10. maí 2006

Operation Natural Blonde

Það er 3. í sólbaði í dag og ég sit á svölunum og les. Það er svo dásamlegt að eiga suðusvalir. Sólin skín á svalirnar okkar frá 11 á morgnana og fram til sólseturs.

Þegar við vorum í Frakklandi fyrir tveimur árum lentum við í dásamlegu veðri. Þar notaði ég sítrónusafa í hárið til að gefa því ljósara yfirbragð, á náttúrulegan hátt vitaskuld. Það sama hef ég verið að gera þessa sólbaðsdaga og mér sýnist það hafa borið árangur.

Næsta skref er að fara í Operation Natural Tan. Aðalhráefni sem notað er til þess er ólívuolía og útfjólubláir geislar.

þriðjudagur, 9. maí 2006

Húsmóðirin í NordVest

Við Baldur vorum að gantast með það hversu klippt ég væri út úr húsmæðrablaði 6. áratugarins þegar ég í morgun fylgdi honum úr hlaði og gaf honum koss áður en hann hélt upp í CBS.

Ég var klædd í hnésítt pils og hafði töflur á táslum en rúsínan í pylsuendanum var svuntan sem ég hafði ekki gefið mér tíma til að taka af mér.

Verkefni dagsins eru líka alveg í takt við þetta hlutverk: þvo þvott, ljúka sumartiltektinni, versla inn, uppvask og almenn þrif og síðan sólbað á svölunum, helst með spennubók og svaladrykk mér við hönd.

mánudagur, 8. maí 2006

Kaka í kantínunni

Í dag hitti ég Ólympíuhópinn minn til þess að klára (eða því sem næst) verkefnið okkar. Verkefnið er stórt í sniðum og ansi yfirgripsmikið, stefnan er tekin á rúmar 50 blaðsíður og gengur vel. Mér finnst gaman hvað hópurinn vinnur vel saman og hversu vel hefur gengið að samhæfa íslenskan, spænskan og norskan hugsunarhátt.

En engin er hópavinnan án góðs kaffitíma og vildi svo heppilega til að restin af afmæliskökunni sem Ásdís bakaði var laumufarþegi í töskunni minni. Vart þarf að spyrja að leikslokum: laumufarþeginn fannst, var skorinn í bita og etinn upp til agna.

Frá vinstri: Laura, Martin, Cesar & getið hver...

Sumartiltekt

Það er svo brjálæðislega gott veður núna að maður þarf reglulega að koma inn af svölunum til að kæla sig. Í svona veðri sér maður ekki fram á að kuldi geti nokkurn tíma truflað mann framar svo ég ákvað að nýta kælipásurnar í sumartiltekt.

Sumartiltekt felur í sér að allar flíkur eru teknar úr skápum og settar í flokkinn vetrarflík eða sumarflík. Öllum stórum kápum og úlpum er hent á gólfið, pokinn með vettlingum, húfum og treflum tæmdur þar yfir, öllum þykkum peysum pakkað efst í skápinn á meðan stuttermaflíkur eru dregnar fram og þeim haganlega komið fyrir á besta stað.

Það sem nú er eftir af sumartiltekinni er að þvo vetrarnotkunina af vettlingum, húfum og treflum og pakka þeim ásamt úlpum og kápum í stóru ferðatöskuna. Þegar þessu verður lokið á forstofan eftir að verða mun rýmri og sumarflíkurnar í skápunum mun aðgengilegri. Ég er svo bjartsýn á að bráðum komi ekki betri tíð.

sunnudagur, 7. maí 2006

Afmæliskaffi

Maður á ekki afmæli alla daga en samt fékk Baldur tvo afmælisdaga á þessu ári. Við héldum sem sagt afmæliskaffi í dag og buðum folöldum og froskum.

Í boði voru nýbakaðar brauðbollur með smjöri og havarti, alíslenskar pönnsur með bláberjasultu og rjóma, gos, kaffi og vínber og síðast en ekki síst ofhlaðin súkkulaðiterta með kertum, Dannebrog og hlaupi. Íbúðin var svo skreytt með blöðru- og rósarbúntum, nammiskálum og sólskini.

Að venju þegar þessi hópur kemur saman var mikið skrafað, mikið hlegið, mikið borðað og mikið djókað. Dónalegir brandarar voru lesnir upp úr karlablöðum og ég, alsaklaus manneskjan, gerð ábyrg fyrir þeim, afmælisbarnið stökk í fangið á einum afmælisgestanna en yngsti gesturinn lét ekki raska ró sinni og lagði sig upp í rúmi.

Til hamingju með 27 árin elsku Baldur!

Plön um að ofhlaða súkkulaðikökuna

Veisluborðið

Það eru ekki allar fjölskyldur svona myndalegar!

Viðbúinn, tilbúinn, nú!

Beðið með óþreyju eftir kertablæstri

laugardagur, 6. maí 2006

Vorhreingerning

Það standa vorhreingerningar yfir hér á litla heimilinu við Frederikssundsvej. Ég stalst til að taka mynd af myndarlega húsbóndanum við gluggaþvott, það er ekki annað hægt að segja að hann sé duglegur þessi elska.

Á morgun er svo afmælisveisla hér á bæ, dúndurþrifin skrifast nú að hluta á það. Enda væri líka erfitt að færa rök fyrir því að það að blása í blöðrur og hengja þær upp væri hluti af vorverkunum. Það ætti kannski að vera það.

Gluggaþvottamaðurinn gripinn glóðvolgur

Með blöðrur á höndunum

fimmtudagur, 4. maí 2006

Dýrðardagar

Það var frábært veður í gær og svo virðist sem veðurguðirnir ætli að endurtaka leikinn í dag. Það var nú eiginlega Fjólu að þakka að ég fór út fyrir hússins dyr í gær, hún stakk upp á labbitúr um Botanisk Have með henni og litla Kjartani.

Þar sem veðrið hefur ekki verið upp á marga fiska undanfarið varð ég bit þegar ég steig kappklædd út og gekk á hitavegg. Ullarkápunni var snarlega stungið í hjólakörfuna enda ekkert vit í að dúða sig í svona hita, hjólandi í þokkabót.

Þegar ég hafði haft upp á þeim mæðginum röltum við þríeykið um Botanisk Have, yfir í Rosenborg Have og enduðum á því að tylla okkur á grasflöt í Kongens Have. Þar úði og grúði af sumarþyrstum borgarbúum sem ýmist lágu í grasinu eða héldu sér uppteknum í allskonar boltaleikjum.

Þegar ég hafði sagt skilið við þau mæðgin rölti ég yfir í bygginguna sem hýsir félagsvísindadeild Kaupmannahafnarháskóla. Planið var að mæta síðar um daginn á LC fund hjá UNIC og þar sem skrifstofa þeirra er á Købmagergade var tilvalið að rölta yfir í skólann og drepa tímann við lærdóm. Það var líka kærkomin hvíld frá sólinni, ég veit samt ekki hvort maður má segja svona :S

Núna ætla ég að kíkja út í góða veðrið með Baldri, pakka niður frísbí og vínberjum, taka fram hjólin og stefna á Bellahøj. Þetta eru framúrskarandi góðir tímar.

Glaður og kátur í góða veðrinu

Mæðginin í Kongens Have

Þetta veggjakrot var á einum vegg salernisaðstöðunnar upp í skóla, mér fannst þetta svo artý

miðvikudagur, 3. maí 2006

Fyrstu lotu lokið

Munið þið eftir því þegar ég skilaði inn SRB umsókninni? Í gær mættum við Baldur á sjálfan atburðinn, spennt að ljúka því sem við vissum ekki hvað yrði.

Það kom á daginn að SRB er mjög skemmtilegur viðburður. Við vorum saman komin sex sem viljum fara í starfaskipti, þrjú frá UNIC og þrjú frá CBS. Þessar tvær AIESEC deildir vinna mikið saman, það útskýrir af hverju okkur var hent saman inn í SRB.

Dagskráin var einföld: einstaklingsviðtöl og hópavinna. Í hópavinnunni fengum við það ábyrgðarhlutverk að ákveða gildi Sameinuðu þjóðanna auk þess sem við höfðum 15 mínútur til að skapa og setja saman fána AIESEC. Það er ekki annað hægt að segja en að þetta hafi verið stórskemmtilegt, en kannski örlítið taugastrekkjandi að hafa sex manns úr dómnefnd horfandi á mann til að meta frammistöðu manns.

Í einstaklingsviðtölunum sat maður frammi fyrir þessum sex dómurum og svaraði spurningum þeirra. Tvö þeirra þekkti ég nú, Sannah og Fernando eru nefnilega úr UNIC. Hin fjögur voru fulltrúar úr atvinnulífinu (Danske Bank), akademíunni (Hróarskelduháskóla), sálfræðingur og fulltrúi frá AIESEC. Þeirra hlutverk var að spyrja okkur spjörunum úr, meta okkur og gefa stig. Á stigagjöfinni valt svo hvort maður næði í gegn eða ekki.

Skemmst er frá því að segja að öll sex flugum við í gegn svo nú getum við Baldur andað léttar - við höfum verið samþykkt sem fulltrúar AIESEC í Danmörku og megum því fara í starfaskipti á þeirra vegum.

Í næstu lotu lærum við á gagnagrunninn hjá AIESEC. Mér skilst reyndar að til að mega nýta sér hann verði maður að ljúka prófi fyrst. Þetta hljómar allt pínu formlegt, það mætti halda að við værum að reyna að komast inn í lífvarðarsveit drottningarinnar.

þriðjudagur, 2. maí 2006

Mord i NV

Titillinn er í anda spennubóka Dan Turélls en ástæðan er sú að hér hafa verið framin þrjú morð. Fyrsta líkið fannst við hjólaskúrinn hjá okkur og eins og frægt er orðið sparkaði ég í hana í myrkrinu. Þessi dúfa var fremur snyrtileg af dauðri dúfu að vera.

Eitthvað virðist morðinginn hafa færst í aukana því næst fundum við dauða dúfu í hjólaskúrnum hjá okkur með upptætta bringu og fiðrið allt úti um allt. Velktist hún svo um bakgarðinn meðan skjórinn plokkaði vænstu bitana af.

Nokkru síðar fundum við svo þriðju dauðu dúfuna í hjólaskýlinu og nú hafði morðinginn heldur betur sótt í sig veðrið. Dúfan var tættari en sú á undan og að auki hauslaus. Skjórinn sem við álítum meðsekan skildi ekki annað eftir en óskabeinið og fjaðrirnar.

Nú er nokkuð liðið frá þriðja morðinu og bíð ég spenntur átekta. Ef raðmorðinginn heldur sig við fyrra mynstur er ég viss um að næsta fórnarlamb verður annaðhvort ferhyrnt, erfðabreytt svín frá Jótlandi eða hefðbundin borgardúfa í blóma lífsins. Vandi er um slíkt að spá.

mánudagur, 1. maí 2006

Naktir hlauparar

Að undanförnu hef ég unnið hörðum höndum að ritgerð um Ólympíuleikana. Varla er hægt að vinna ritgerð um jafn merkilegt efni án þess að eyða nokkru púðri í hina löngu og heillandi sögu þess.

Árið 776 f. Kr. setti Ifítos konungur Elis fyrstu Ólympíuleikana. Á þessum fyrstu leikum kepptu einungis karlmenn og klæddust þeir ekki öðru en lendaskýlu. Nei, þeir voru ekki naktir eins og margir halda. Það var ekki fyrr en 56 árum síðar sem nektin komst í tísku meðal grískra íþróttamanna eða árið 720 f. Kr.

Það var íþróttamaðurinn Orsippos sem ruddi brautina fyrir striplingana þegar hann missti niður um sig skýluna í miðri keppni, kláraði og vann. Eftir það kepptu menn naktir á Ólympíuleikunum í rúmlega þúsund ár eða þangað til helgislepjan Þeódósíus Rómarkeisari lét banna leikana.

Það má því segja að Orsippos hafi aldeilis verið áhrifamikill tískufrömuður, a.m.k. get ég ekki ímyndað mér að nokkur íþróttamaður samtímans geti mögulega haft svona mikil áhrif á tískuna. Maður veit þó aldrei.